137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:18]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þessa spurningu. Í raun má segja að eðlilega er þetta ekki mitt forgangsmál í pólitík, það er ekki aðildarumsókn. En hins vegar, eins og ég fór yfir, er þetta spurning sem við verðum að horfast í augu við að er mjög knýjandi og hefur verið knýjandi í íslenskum stjórnmálum og má segja að hún hafi komið upp innan allra flokka. Að því leyti til tel ég eðlilegt að við verðum að horfa á það hvernig við getum beint málinu í þann farveg að þjóðin komi að því.

Hins vegar er alltaf umdeilanlegt hvernig er forgangsraðað í ríkisfjármálunum og ég segi fyrir mína parta ef þessi kostnaðaráætlun upp á milljarð stenst þá gætum við skipt Varnarmálastofnun út fyrir það. Þetta snýst alltaf um forgangsröðun og eins og ég segi, þetta er ekki … (Gripið fram í.) En það sem þetta snýr að í raun og veru er að verið er að setja þetta mál í einhverja málsmeðferð þannig að þjóðin komi einhvern veginn að hvað verður ákveðið.