137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:23]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir þessa spurningu og ég kannast vel við álitið sem ég skrifaði sjálf undir ásamt Ragnari Arnalds. Það er alveg rétt, við höfum einmitt kannast við það að vera mjög gagnrýnin á EES-samninginn og vorum stundum rödd hrópandans í eyðimörkinni í því samhengi að telja hann of markaðsmiðaðan. En ég vil líka minna hv. þingmann á að ég las áðan upp úr séráliti fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Evrópunefndinni hinni síðari þar sem við líka leggjum áherslu á lýðræðislega lausn mála. Það má segja að sú áhersla endurspegli umræður sem hafa verið innan flokksins þar sem við höfum verið skýr á því að við teljum að okkur sé betur borgið utan sambandsins en við teljum líka að mál þurfi að komast í lýðræðislegan farveg. Því áliti var skilað núna í apríl þegar einmitt fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skiluðu sínu áliti um að stefna bæri að upptöku evru með einum eða öðrum hætti.