137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég hef áhuga á því að spyrjast fyrir um afstöðu hæstv. ráðherra til einmitt þeirra mála sem komu fram í ræðunni sem sneru að þessari evrópsku sjálfsmynd sem mér þótti nokkuð áhugaverð umræða.

Ég er þeirrar skoðunar að með upptöku evrunnar hafi verið tekið mjög stórt skref í átt til aukins samruna innan ESB og óumflýjanlegs samruna vegna þess að það er lykilforsenda fyrir því að myntin gangi upp að það sé víðtækt samráð og það mun dýpka. Á hinn bóginn er það svo sem hefur komið fram hjá mörgum, m.a. þeim ágæta heimspekingi Jürgen Habermas, að það sé mikill skortur á samevrópskri sjálfsmynd sem gerir það að verkum að möguleikar Evrópubúa til að taka þátt sameiginlega í atkvæðagreiðslum um mál sem eru mjög óskyld þegar menn horfa t.d. á finnsku þjóðina, grísku þjóðina, spænsku þjóðina gera það að verkum að það væri næstum ómögulegt að tengja lýðræðið saman við það aukna vald sem verður í Brussel. Ég hef áhuga á að heyra afstöðu ráðherrans.