137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:27]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig ávallt að heyra hv. þm. Illuga Gunnarsson vitna í Jürgen Habermas. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að gjaldmiðlasamstarfið hefur haft áhrif á hina evrópsku sjálfsmynd. Það sést t.d. á því hvernig umræðan um gjaldmiðlasamstarfið var í Danmörku og Svíþjóð á sínum tíma þegar Danir ákváðu að halda dönsku krónunni en vera í samstarfi eða beintengingu við Evrópska seðlabankann og Svíar ákváðu að halda sinni sérstöðu. Umræðan var alls ekki eingöngu á efnahagslegum forsendum heldur snerist hún ekki síst um sjálfsmynd þessara þjóða. Ég held því að valdabaráttan sem ég ræddi áðan snúist raunar ekki síst um sjálfsmynd og hvernig þjóðirnar fara að hugsa um sig. En ég held líka að sú barátta geti reynst mjög erfið því það er mjög erfitt að finna þennan sameiginlega flöt á því að maður tilheyri jafnstóru og fjölbreyttu ríki og sameinuðu ríki Evrópusambandsins yrði það að einu sameinuðu ríki. En ég vil þó ekki útiloka neitt í því samhengi.