137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í Sjálfstæðisflokknum og ætla mér ekki að stofna nýjan sjálfstæðisflokk. Mér líður ágætlega í þeim flokki sem ég er í og hugnist hv. þm. Pétri H. Blöndal að stofna nýjan flokk verður það að vera á hans forsendum. Ég er í Sjálfstæðisflokknum og mér líður ágætlega þar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi um ofurtrú mína á þeirri vinnu sem utanríkismálanefnd hefur lagt fram. Ég hef enga ofurtrú á henni. Ég ræddi hins vegar um að utanríkismálanefnd hefði tekist að bæta ófullkomna tillögu hæstv. ríkisstjórnar í þá veru að auka aðkomu Alþingis og hagsmunaaðila að þessu máli, og það er vel, en ég ætla mér ekki að takast á við hv. þingmann. Eins og hann talar um ofurtrú mína eða skoðanir mínar á Evrópusambandinu er bókstafstrú hans gegn því sú sama.