137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í breytingartillögu hv. utanríkismálanefndar kemur eingöngu fram að tekið skuli tillit til sjónarmiða sem eru í nefndaráliti. Það er reyndar mjög ítarlegt og kemur inn á fjölda atriða. En sjónarmið eru bara sjónarmið og það er hægt að hártoga það endalaust ef menn fara ekki eftir því sjónarmiði.

Svo vil ég benda á að þessi aðild að Evrópusambandinu sem menn stefna að gerist ekki án þess að menn breyti stjórnarskrá vegna þess að menn þurfa að hafa heimild til að afsala sér sjálfstæði og fullveldi Íslands að hluta til. Það er bara þannig. Þegar menn hafa gengið inn í Evrópusambandið er Ísland ekki lengur í stöðu til að gera t.d. samninga við erlend ríki nema á vissum sviðum. Það er verið að afsala sér fullveldi og sjálfstæði Íslands og þess vegna talaði ég um nýjan sjálfstæðisflokk.