137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir mjög margt í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Sérstaklega tek ég undir það traust sem hún ber til þjóðarinnar um að skera úr um þann aðildarsamning sem hugsanlega og vonandi mun liggja fyrir eftir einhverja mánuði eða ár. Ég tek líka undir það sem hún segir um nauðsyn þess að Alþingi, og svo sérstaklega líka allir þjóðfélagshópar, hafi mikil áhrif á eða komi að samningagerð og þá miklu ábyrgð sem mun hvíla á þeirri ríkisstjórn sem mun leiða þá samningagerð. Það verður mjög mikil ábyrgð.

Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að samvinnan gekk vel þangað til steytti á í lokin og þá var það við málsmeðferðina. Þar komu fram tvær ólíkar skoðanir. Ég er ekki tilbúin til að samþykkja það sem mér fannst koma fram í ræðu hv. þingmanns, að önnur skoðunin væri betri en hin. Í þessu frumvarpi er lagt til að þegar samningur liggur fyrir komi þjóðin að því að velja um hann og síðan verði stjórnarskrá breytt ef samningurinn verður samþykktur. Ef samningnum verður hafnað þarf ekki að breyta stjórnarskránni. Síðan verði samningurinn í lög leiddur. Ég mótmæli í þessu sambandi því sem stundum kemur fram þegar fólk heldur að ein skoðun sé betri en önnur. Þarna voru tvær ólíkar skoðanir.