137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega þannig á hinu háa Alþingi, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að forusta í íslenskum málum er í höndum ríkisstjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þess vegna bera þeir flokkar og sú ríkisstjórn meginábyrgð í slíkum málum. Það er alveg sama hvort það er núverandi ríkisstjórn eða ríkisstjórnir fyrri tíma, það er einfaldlega þannig. Ábyrgðin er þeirra, þeirra er málið og þeir hafa þann möguleika sem þeir vilja til að nálgast minni hlutann með þeim hætti sem þeir telja skynsamlegast hverju sinni. Það hefði að mínu mati þurft að nást breiðari samstaða í þessu máli. Hún náðist ekki. Við sitjum hér með þingsályktunartillögu sem við þurfum að afgreiða. Hún verður afgreidd og síðan verða tekin þarnæstu skref.

Það eru ekki allir sáttir, hvorki við málsmeðferð málsins í heild né heldur hvernig lokamálsmeðferðin á að vera. Þar greinir fólk á, hvorug skoðunin er rétthærri hinni, en það er ágreiningur.