137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir hans orð. Ég get ekki svarað fyrir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd hvers vegna þeir sögðu eitt og gerðu annað eða sögðu eitthvað og stóðu við það. Það er ekki mitt, ég sit ekki í utanríkismálanefnd og utanríkismálanefnd er að öllum jafnaði bundin trúnaði þannig að þeir fulltrúar verða að svara fyrir sig sjálfir.

Hins vegar hefði farið betur, frú forseti, og ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað mér þar sem ég hef lokasvarið í þessum andsvörum, ef okkur hefði tekist á síðasta þingi að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar og við hefðum þá getað sammælst um þá tillögu sem sjálfstæðismenn lögðu fram margsinnis. Þá værum við ekki að þrátta hér, frú forseti, um lokameðferð þessa mikilvæga máls. En það tókst ekki, því miður.