137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um að Ísland óski eftir aðild að Evrópusambandinu. Margir þingmenn hafa sagt í umræðunni að það að senda formlega umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé ein stærsta ákvörðun Íslandssögunnar. Ég vil að það komi hér skýrt fram að við afgreiðslu á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstri hreyfingar – græns framboðs og Samfylkingarinnar gerði ég skýra grein fyrir því að ég styddi ekki þau áform að sækja um aðild að Evrópusambandinu og lét bóka það í þingflokknum og að ég áskildi mér rétt til að fylgja sannfæringu minni í þeim efnum við afgreiðslu málsins á Alþingi. Sama fyrirvara hafði ég þegar málið var afgreitt úr ríkisstjórn. Þessi afstaða mín hefur ætíð legið ljós fyrir enda er þessi afstaða í samræmi við stefnu flokks míns en ég gerði þá sérstaklega fyrirvara af minni hálfu í þessum efnum.

Hins vegar geri ég mér grein fyrir að skiptar skoðanir eru um það í þjóðfélaginu, bæði hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu, og þá hugsanlega að gerast aðili ef út í það væri farið, og með hvaða hætti það væri gert, með hvaða hætti þjóðin væri með í ráðum hvað það varðaði. Ég ber fulla virðingu fyrir öllum skoðunum sem einstaklingar, hvort sem þeir eru innan þings eða utan, hafa í þessu máli og virði þær að sjálfsögðu. Það var líka að mínu viti skýrt kveðið á um í samstarfsyfirlýsingunni að Vinstri hreyfingin – grænt framboð áréttaði stefnu sína í þessum málum varðandi Evrópusambandsaðild en mundi þó tryggja að málið kæmi fyrir þingið og fengi þar þinglega meðferð eins og eðlilegt er. En við afgreiðslu þess í þinginu væri eins og ég sagði áðan hver þingmaður einungis bundinn sinni sannfæringu í málinu.

Ég vil þó leggja sérstaka áherslu á að verði tillaga um aðildarumsókn samþykkt og farið í aðildarviðræður og það verði þingmeirihluti fyrir því, þá mun ég sem ráðherra leggja mig allan fram fyrir hönd míns ráðuneytis í að halda sem best á málum til að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar í þeim samningum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála því að þeir málaflokkar sem eru undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu og það fer með eru grunnatvinnuvegir þjóðarinnar og þeir eiga hvað mest í húfi í þessum samningum. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að ráðuneyti sjávarútvegsmála og stofnanir þess geri sig gildandi í samningaferlinu öllu og haldi þar sem best á málum fyrir hönd þjóðarinnar. Ég mun einnig tryggja að því marki sem ég mögulega get og leggja mig allan fram í að tryggja aðkomu atvinnuveganna, hinna einstöku atvinnugreina sem undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti falla. Ég mun tryggja eins og ég get best aðkomu þeirra að allri þeirri vinnu, njóta liðs þeirra og styrks og hafa náið samráð um alla þætti málsins í því ferli. Þetta vil ég leggja áherslu á, frú forseti, og tjá hér í upphafi.

Víkjum þá aðeins að aðildarviðræðum og öðrum þáttum sem að þeim geta lotið. Aðildarviðræður eins ríkis við Evrópusambandið eru sérstæðar á þann hátt að þar er eitt ríki að semja við fjölmörg önnur, nú 27, á grundvelli sem getur ekki verið hreinn jafnræðisgrundvöllur. Það er ekki jafnræðisgrundvöllur af þeirri ástæðu að ekki er verið að semja um að mynda sameiginlega stefnu eins og í landbúnaðarmálum heldur einfaldlega um að aðildarumsóknarríkið taki nánast alfarið upp landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins frá fyrsta degi sem samningurinn tekur gildi, þó hugsanlega með einhverjum aðlögunartíma fyrir þau atriði sem kunna að valda hvað mestum vandræðum við yfirtöku hinnar sameiginlegu löggjafar Evrópusambandsins. Það yrði hlutverk Íslands, ef út í þetta verður farið, að taka yfir og innleiða flestöll og nánast öll atriði hinnar margflóknu sameiginlegu landbúnaðarlöggjafar Evrópusambandsins, en möguleikar á því að í hana verði bætt séraukaákvæðum vegna Íslands eru mikil mýraljós sem varasamt er að trúa á og hlaupa eftir þó svo að það væri gott ef satt væri. Það er hins vegar ekki reynsla þeirra landa sem í hlut hafa átt undanfarin ár.

Mikið hefur verið vitnað til ákvæða í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem heimila viðkomandi löndum að veita sjálf sérstakan stuðning sem er tengdur við svokallaðan heimskautalandbúnað norðan 62. breiddargráðu. Þessi lausn var fundin þegar Evrópusambandið stækkaði til norðurs við aðild Svía og Finna árið 1994, auk þess sem Norðmenn voru hluti af þessu samkomulagi, og var leið til að skapa landbúnaði þessara landa einhvern tilverumöguleika á hinum sameiginlega markaði fyrir landbúnaðarafurðir sem löndin voru að gangast undir við aðildina.

Annar reginmunur á samningsstöðu Íslands og Evrópusambandsins er kemur að aðildarsamningum er að í raun er Ísland að semja við fleiri aðila í einu. Það felst í því að þó að framkvæmdastjórinn sé í stjórnarsæti þá er þar á bak við ráðið, þingið og hin einstöku lönd sem þurfa hverju sinni að samþykkja hvert skref í samningnum. Það felur í sér m.a. að þó svo að framkvæmdastjórnin hafi hugsanlega fallist á einhverja lausn við Ísland er mögulegt að það verði dregið til baka ef ráðinu eða einhverju landanna hugnast hún ekki. Þessu er öfugt farið með umsóknarríki sem verður að standa við þau tilboð eða kröfur sem það leggur fram. Þar verður hjólinu ekki snúið til baka. Dæmi um þetta má nefna úr aðildarsamningum Norðurlandanna en bæði Noregur og Finnland gerðu kröfu um að fá að aðlagast landbúnaðarverðum Evrópusambandsins yfir lengra tímabil, þ.e. að landbúnaður landanna nyti tímabundinnar tollverndar sem gerði það að verkum að verð til bænda fyrir landbúnaðarafurðirnar féllu ekki niður úr öllu valdi við aðildina eins og varð svo niðurstaðan. Framkvæmdastjórnin var jákvæð því í upphafi en dró það þó allt til baka þegar að samningslokunum kom.

Þá er einnig dæmi um það frá fyrri aðildarsamningum að þegar kemur að því að túlka samningana og setja þá í lagalegt form komi fram önnur túlkun af hálfu Evrópusambandsins en umsóknarríkin töldu sig hafa samið. Hafa verður í huga að framkvæmdastjórnin hefur langa reynslu í samningagerð um stækkun og framsetningu þeirra ákvæða á enska tungu sem gerir umsóknaraðilanum erfitt fyrir að standast oft og tíðum og veitir framkvæmdastjórninni yfirburði sem verður að mæta með nægum mannafla þó svo að því fylgi verulegur kostnaður. Villur eða mistök af hálfu umsóknarríkis verða ekki leiðrétt og því dýrkeypt því að aðildarsamningi verður ekki breytt með venjubundinni lagasetningu af hálfu Evrópusambandsins.

Vitað er að landbúnaður og fiskveiðar eru langsamlega erfiðustu viðfangsefnin á því samningsferli sem hér er um rætt. Ástæða þess er sem kunnugt er að landbúnaðar- og fiskveiðipólitík falla utan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þó svo aðeins lítillega komi inn á landbúnaðarpólitík í samningum í bókun 3 um tolla á unnum landbúnaðarvörum og í grein 19 um frumafurðir í landbúnaði.

Bókun 3 felur í sér samning milli aðila á efnahagssvæðinu, þ.e. Íslands, Noregs og landa Evrópusambandsins, um að lækka tolla á nokkrum tilteknum unnum landbúnaðarafurðum sín á milli til að gera viðskipti með þær mögulegri. Á grundvelli 19. gr. hafa ríkin hins vegar gert tvíhliða samning sín á milli um tollaívilnanir fyrir hrávörur, svo sem kjöt, mjólkurafurðir, grænmeti, og milli Íslands og Evrópusambandsins um lífhross. Þessir samningar hafa lítil áhrif á heildarútkomu landbúnaðarins á Íslandi og því minni háttar við mat á því hvað yfirtaka hinnar almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins þýðir fyrir Ísland. Það verður því grundvallarverkefni að vinna, áður en unnt er að hefja samningaferil um aðild að landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins að leggja niður fyrir sér fyrir hverja búgrein og fyrir landbúnaðinn í heild, hvaða efnahagsleg áhrif fyrir bændur, vinnslustöðvar í landbúnaði, úrvinnslu landbúnaðarvara, verslun og viðskipti með landbúnaðarafurðir og ekki síst möguleika neytenda á vali af landbúnaðarafurðum, möguleg aðild hefði. Þessa útreikninga þarf að vinna og þeir þurfa að vinnast nánast fyrir hverja búsgerð í landinu til að átta sig á um hvað þarf að semja og hvar er nauðsynlegt að draga mörk svo búin haldi lífi eða geti staðið í þeirri samkeppni sem verið er að bjóða upp á með aðildinni. Þessi framkvæmd mun krefjast mikillar sérfræðivinnu og mannafla sem verður dýrt að spara verði gerð mistök.

Það er þekkt að hin almenna landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er í sífelldri þróun. Árið 2003 var gerð umfangsmikil breyting á landbúnaðarstefnunni til að aðlagast væntanlegri útkomu samningsins um hina Alþjóðlegu viðskiptastofnun með hliðsjón af að viðhalda styrkjum innan Evrópusambandsins eftir nýjum reglum. Sú stefnumörkun sem þá fór fram nær til ársins 2013 en fyrir þau tímamörk verður að hafa farið fram endurskoðun og myndun nýrrar stefnu til næsta tímabils. Þó svo að fram hafi farið nokkur umræða um væntanlega landbúnaðarstefnu eftir 2013 er ekki ljóst í dag í hvaða átt hún þróast. Þessi staðreynd er hins vegar grundvallaratriði fyrir íslenskan landbúnað í hugsanlegum aðildarviðræðum sem óhjákvæmilega kallar á úrlausnir sem ekki verða gerðar eftir á. Það gerir enn ríkari kröfu um að framlag við samningsgerð sem þessa á sérhæfðu vinnuafli og yfirlegu við verkefnið sem slíkt.

Samandregið snúast verkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í mögulegum aðildarviðræðum að því í fyrsta lagi að kynna fyrir Evrópusambandinu alla króka og kima íslenskrar sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu, þar með talið aðstæður allar og öll lög og reglugerðir sem um þetta gilda. Ekki verður hætt og ekki má hætta fyrr en ESB telur sig hafa fullan skilning á því hvað hér er um að ræða. Á sama hátt verða fulltrúar Íslands að kynna sér alla króka og kima landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og þar má á sama hátt ekki hætta fyrr en fullur skilningur ríkir.

Eftir þetta þarf Ísland að leggja niður fyrir sér hvaða kröfur skal gera í aðildarviðræðunum, setja þær fram og vinna þeim gengi. Svona til gamans voru sérkröfur Finna bara í landbúnaði í kringum 130 ef upplýsingar mínar eru réttar. Ég held að allir menn sjái að þetta verkefni er í sjálfu sér risavaxið, umfangið er slíkt. Augljóst er að ef taka á þátt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið af fullri alvöru mun það kosta gríðarlega vinnu og fjármuni þó að aðeins sé horft til hagsmuna í landbúnaði og sjávarútvegi og ráðuneytinu er ekki kunnugt um að um það hafi í sjálfu sér verið gerð nein raunhæf áætlun eða ráðuneytið þar kallað til. Áætlun sú sem lögð er fram í þingsályktunartillögunni, kostnaðaráætlun, getur að mínu viti þess vegna engan veginn staðist þar sem gert er ráð fyrir að 100 millj. kr. séu veittar til allra ráðuneytanna vegna tveggja ára vinnu. Eins og ég sagði áðan hefur þetta ekki verið metið í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu en við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þessi vinna sé unnin, nái þessi þingsályktunartillaga fram að ganga, og þá má engu til spara til þess að við höldum á þeim atriðum í þeim samningum sem okkur ber að gera, því að eins og ég minntist á áðan verður ekki snúið þar svo glatt til baka. Því segi ég, frú forseti, að ég get þar með tekið undir þau alvöruorð sem ég hef heyrt hjá mörgum þingmönnum að þetta sé gríðarlega stórt skref að stíga. Hverjar sem síðan lyktir þess verða þá er þetta gríðarlega stórt skref sem á, verði það stigið að fara út í aðildarviðræður, að stíga af þeirri gaumgæfni og þeirri ábyrgð sem okkur ber sem fullvalda þjóð sem vill standa að þeim málum á sem bestan hátt og draga fram samningsatriði og samningsmarkmið í þeim efnum.

Frú forseti. Það liggur alveg ljós fyrir afstaða flestra þeirra atvinnugreina og samtaka sem eru í landbúnaði og sjávarútvegi gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Ég vil leyfa mér að vitna fyrst til umsagnar Bændasamtaka Íslands um þetta mál en Bændasamtökin hafa unnið gríðarlega vandaða vinnu hvað varðar hugsanleg áhrif af aðild að Evrópusambandinu, hvaða áhrif það gæti haft og reynt að leggja mat á það en að sjálfsögðu einungis út frá þeim forsendum sem þar hafa legið fyrir. Þau hafa sótt reynslu til Norðmanna sem hafa einnig farið þar í gegn með umsóknaraðild sem var felld og norskir aðilar hafa komið hingað og kynnt það. Afstaða Bændasamtakanna og afstaða landbúnaðarins og afurðastöðvanna er mjög skýr. Ég vil vitna aðeins, frú forseti, í umsögn Bændasamtakanna:

„Stjórn Bændasamtakanna fjallaði um þessar tillögur til þingsályktunar á stjórnarfundi sínum þann 8. júní. Bændasamtök Íslands eru alfarið á móti aðildarviðræðum um ESB og leggja til að hvorug þessara tillagna fái framgang.

Bændasamtök Íslands hafa um árabil afdráttarlaust tekið afstöðu gegn aðild að ESB. Þessa eindregnu stefnu byggja samtökin á upplýsingum sem þau hafa aflað sér árum saman. Afstaðan hefur styrkst af viðræðum við bændur og skoðunum aðildarfélaga um allt land.

Meginrök fyrir afstöðu BÍ eru þessi:

Fæðu- og matvælaöryggi skerðist. Þjóðir eiga að framleiða eins mikið af matvælum til eigin nota og þær mögulega geta. Það er óábyrgt að veikja íslenska matvælaframleiðslu með því að heimila óheftan innflutning á búvörum.

Atvinna og byggðir í hættu. Fjöldi manns hefur atvinnu af innlendum landbúnaði og afleiddum störfum. Margir munu missa vinnuna víða um land vegna minnkandi umsvifa íslensks landbúnaðar. Víða í dreifbýli eru samfélög sem treysta að stórum hluta á landbúnað sem lífsviðurværi sitt. Fækkun framleiðenda veikir búsetu í sveitum.“

Áfram segir í áliti Bændasamtaka Íslands:

„Íslenskur landbúnaður mundi veikjast mikið við inngöngu í ESB. Landbúnaðarstefna ESB hentar ekki íslenskum landbúnaði. Bændur telja farsælla að þjóðin sjálf móti sína landbúnaðarstefnu og hafna því að færa forræðið til sameiginlegrar stefnumótunar ESB ríkja“ — Frú forseti. Ég er að lesa, með leyfi forseta, upp úr umsögn Bændasamtaka Íslands um þingsályktunartillögurnar sem hér eru til umræðu. — „Innganga Íslands í ESB leiðir til samdráttar og tekjumissis í landbúnaði í samanburði við núverandi stuðningskerfi. Innganga í ESB mundi gerbreyta tekjusamsetningu íslensks landbúnaðar og veikja búrekstur. Landbúnaðarstefna ESB tekur ekki tillit til þeirra sem vinna við stoðgreinar landbúnaðarins og úrvinnslu á búvörum. Síbreytilegt styrkjakerfi ESB mundi veikja stoðir íslensks landbúnaðar.“

Áfram segir, með leyfi forseta, í umsögn Bændasamtakanna:

„Gæðum og heilbrigði yrði fórnað. Þjóðinni er mikilvægt að standa vörð um þær gæðabúvörur sem framleiddar eru á Íslandi. Íslenskir bændur vilja ekki fórna góðum framleiðsluvörum fyrir ótryggan innflutning. Heilbrigði íslenskra búfjárstofna er dýrmætt og það ber að vernda.

Tollvernd er forsenda þess að viðhalda framleiðslugetu og nýtingu lands til landbúnaðar. Algjör niðurfelling tolla á landbúnaðarvörur mundi minnka til muna markaðshlutdeild íslenskra búvara á augabragði. Rekstrargrundvöllur búskapar og afurðastöðva brysti. Tollar hafa lækkað mikið á undanförnum árum. Lækkuð tollvernd hefur hert mjög að rekstri bænda.“

Áfram segir síðan í álitinu, frú forseti:

„Upplýsingar um finnskan og sænskan landbúnað sýna að norrænar jaðarþjóðir í ESB njóta ekki ávinnings af sameiginlegri landbúnaðarstefnu sambandsins til jafns við þjóðir sunnar í Evrópu. Aukin tækifæri til útflutnings til annarra ESB landa hafa ekki komið í stað samdráttar á innanlandsmarkaði.

Aukinn innflutningur á landbúnaðarvöru mun aðeins að óverulegu leyti skila sér í lægra vöruverði fyrir neytendur.

Með hliðsjón af ofangreindu er mjög nauðsynlegt með tilliti til hagsmuna landbúnaðar að leggja algerlega til hliðar þær þingsályktunartillögur sem hér um ræðir. BÍ skora á stjórnvöld að leggja til hliðar öll áform um umsókn og inngöngu í Evrópusambandið.“

Frú forseti. Þetta var umsögn Bændasamtaka Íslands.

Hægt er að rekja þessi mál áfram um landbúnaðinn og ég mun gera það aðeins frekar, frú forseti, og koma svo að sjávarútveginum í seinni ræðu ef ekki vinnst tími til. En í ágætri grein, sem birtist í síðasta Bændablaði, eftir Ernu Bjarnadóttur, hagfræðing Bændasamtakanna, er einmitt farið í gegnum þessi mál. Með leyfi forseta ætla ég að vitna til þessarar greinar:

„Í síðustu viku var haft eftir landbúnaðarráðherra Noregs, Lars Peder Brekk, að ef Íslendingar tryðu því að þeir fengju varanlegar undanþágur í sjávarútvegsmálum hlytu þeir einnig að trúa á jólasveininn. Hann sagði enn fremur að Íslendingar væru að spila rússneska rúllettu með sjávarútveg sinn ef þeir gengju í sambandið. Að sögn Brekk hefur ástandið í sjávarútvegsmálum Evrópusambandsins verið vont, en fer versnandi.“ — Ég kem að því síðar í ræðu minni um stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum og áhrif þeirra á hana. — „Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB, CAP, er annað dæmi um sameiginlegt viðfangsefni ESB sem rætt er um að Ísland geti fengið undanþágur frá í hugsanlegum aðildarsamningi. Sérfræðingar í Evrópumálum sjást jafnvel halda því fram í fullri alvöru að Ísland geti fengið undanþágur frá CAP á grundvelli heilbrigðis- og sjúkdómavarna á sama tíma og verið er að innleiða matvælalöggjöf ESB (matvælafrumvarpið svokallaða).“ — Þetta höfum við vitað og reynt hér. — „Alls óvíst er t.d. að það fengi staðist gagnvart sameiginlegu regluverki að banna innflutning á lifandi dýrum, sæði og fósturvísum.

Margoft hefur verið vísað til þess að Ísland eigi möguleika á því að styðja sinn landbúnað, líkt og Finnar og Svíar gera við sinn landbúnað norðan 62. breiddargráðu. Finnar sömdu til viðbótar um heimild til að styðja við sinn landbúnað sunnan 62. breiddargráðu, en þar er ekki um varanlega heimild að ræða og ESB túlkar þá grein aðildarsamnings þeirra (141. gr.) þannig, að um aðlögunarstuðning sé að ræða. Tekist er á um þetta milli Finna og ESB. Margir vilja halda því fram að með þessu hafi staða finnsks landbúnaðar verið tryggð.“

Með greininni fylgir tafla þar sem sýnt er hvernig búskapur og fjöldi býla hefur dregist mjög saman í Finnlandi eftir inngöngu í Evrópusambandið þrátt fyrir væntingar um annað á grundvelli þess samnings sem gerður var. Ekkert bendir til annars en verð til bænda í flestum mikilvægustu afurðum íslensks landbúnaðar, ef leitað er til reynslu Finna, þar með talin mjólk, muni lækka ef af Evrópusambandsaðild verður og jafnframt koma til umtals með innflutning og tekjusamdrátt hjá framleiðendum. Það er ekki margt sem bendir til að skraddarasaumaðar sérlausnir fyrir Ísland fengju þessu breytt, eða trúir þú á jólasveininn? stendur í lok greinarinnar eftir Eddu Bjarnadóttur þar sem hún vitnaði einmitt í Lars Brekk.

Þegar við komum svo aftur að sjávarútveginum er þar það sama uppi að samtök í sjávarútvegi leggjast einnig gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu út frá því hagsmunamati sem þeir eru með Ég leyfi mér fyrst, frú forseti, að vitna til umsagnar Landssambands smábátaeigenda, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda hinn 20. mars var aðild að Evrópusambandinu á dagskrá.

Að loknum ítarlegum umræðum um málið var eftirfarandi samþykkt:

„Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík 20. mars 2009, lýsir yfir fullri andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið.

Landssambandið bendir á að til áratuga barðist íslenska þjóðin fyrir fullum yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindunum. Baráttan endaði með fullnaðarsigri 1975 með útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur.

Það er útilokað að þau yfirráð kæmu ósködduð út úr aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ákvæði Rómarsáttmálans, hins upprunalega grundvallar Evrópusambandsins, koma einfaldlega í veg fyrir það“ segir í ályktun Landssambands smábátaeigenda.

Í sameiginlegri ályktun frá Samtökum fiskvinnslustöðva og útgerðarmanna um málið segir einnig, frú forseti:

„Báðar þingsályktunartillögurnar“ — sem hér eru til umræðu — „fela í sér margvíslega fyrirvara um mögulegan stuðning við mögulega aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Í þeim báðum kemur fram að forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni sé með mikilvægustu hagsmunum Íslands.

LÍÚ og SF hafa mótað afstöðu sína til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú afstaða byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum sem birtast að hluta í þessum þingsályktunartillögum …, þ.e. að Íslendingar fari sjálfir með forræði yfir fiskimiðunum, hafi samningsforræði við stjórn veiða og skiptingu veiðiréttar á deilistofnum og tali eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana enda er hér um að ræða einn mikilvægasta þáttinn í efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar“, segir í ályktun þeirra, frú forseti. Og áfram segir í áliti þessara aðila, með leyfi forseta:

„Þessir mikilvægu hagsmunir yfirgnæfa allt annað í samanburði á kostum og göllum við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sagan og reynsla annarra þjóða í samskiptum sínum við Evrópusambandið segir okkur að engrar sérmeðferðar er að vænta eða að tekið verði tillit til sérstaklegra mikilvægra þjóðarhagsmuna á sviði sjávarútvegs í aðildarsamningi.

Landssamband ísl. útvegsmanna og samtök fiskvinnslustöðva leggjast því eindregið gegn aðild að Evrópusambandinu.“

Þessu fylgir svo ítarleg greinargerð sem væri ástæða til að vitna til enn frekar.

Ég vil þá aðeins vísa að lokum til greinar sem birtist í blaðinu Fiskaren nýverið þar sem fjallað er um makrílveiðar Íslendinga. Það er mjög athyglisverð grein vegna þess að makríllinn er fisktegund sem við Íslendingar eru nýfarnir að taka upp veiðar á. Þetta er flökkustofn sem flakkar inn og út úr fiskveiðilögsögunni. Hann hefur sjálfsagt verið langa tíð inni í íslenskri fiskveiðilögsögu og verið veiddur en nú tvö síðustu árin hefur verið um umtalsvert mikla veiði að ræða. Síðasta vetur var gefin veiðiaflaviðmiðun eða viðmiðun um afla úr makrílnum í lögsögunni upp á 112 þúsund tonn. Þær veiðar hófust svo í vor og það er skemmst frá að segja að þessar veiðar hafa gengið alveg ótrúlega vel. Á örskömmum tíma, nokkrum vikum var búið að veiða stóran hluta af þeirri viðmiðun sem sett var sem sýnir hversu mikið magn af makríl er komið inn í íslenska fiskveiðilögsögu og mun verða okkur mjög dýrmætt.

Það er hins vegar rétt að um hann eru deilur og Íslendingar hafa ekki enn fengið að komast að samningaborði við aðrar strandþjóðir sem eiga aðgang að þeim höfum þar sem makríllinn heldur sig þó að við getum svo sannarlega sýnt fram á hversu mikill makríll er innan íslenskrar lögsögu. Krafa okkar hefur einmitt verið að komast að þar. Síðustu fregnir herma að makríllinn sé ekki aðeins fyrir austan land heldur sé hann líka farinn að ganga upp að Suðvesturlandi sem undirstrikar mikilvægi hans enn frekar. Það munar okkur miklu í þeirri fjárhagslegu stöðu sem við erum hvort við erum að taka af makríl kannski 15 milljarða kr., milli 15 og jafnvel 20 milljarða kr. ef makríllinn er nýttur að stórum hluta til manneldis. En í þessu fiskarablaði var mánudaginn 6. júlí, bara til að veita innsýn í þann slag sem það er í, var forsíðufyrirsögn Fiskaren, með leyfi forseta: „Island kan komme til å fiske seg ut av EU“. Í blaðinu er heilli opnu varið undir þetta viðfangsefni og fyrirsagnirnar tala sínu máli: Aðalfyrirsögnin er, með leyfi forseta: „Grådige makrellkrav truer EU-medlemsskap“, þ.e. gráðugar kröfur um makríl ógna aðgangi Íslands að Evrópusambandinu.

Ekki fer milli mála að makrílveiðar Íslendinga fara mjög fyrir brjóstið á Norðmönnum enda telja þeir hagsmunum sínum ógnað í þeim efnum. Velta þeir nú mjög vöngum yfir því hvernig áformum okkar um makrílveiðar muni farnast þegar til aðildarviðræðna kemur. Ekki er annað hægt að sjá en þeir hlakki yfir kröfum okkar um hlut af makrílstofninum og þær muni eiga lítinn hljómgrunn í Brussel. Í grein blaðamannsins Gunnars Grytås kemur fram að stríð milli Norðmanna og Evrópusambandsins um makrílinn hafi verið ein af ástæðum þess að Noregur sagði nei við aðild að Evrópusambandinu árið 1994. Hann getur sér þess vegna til að áform Íslendinga um makrílveiðar verði til þess að Evrópusambandið segi nei við Ísland árið 2009. Ekki verður annað lesið úr umfjölluninni en að hann telji nær útilokað annað en ESB setji það sem skilyrði fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu að stórlega verði dregið úr makrílveiðum Íslendinga og þeim jafnvel hætt. Ekkert skal um það sagt af minni hálfu. En hann tiltekur í grein sinni að í húfi sé a.m.k. milljarður tryggra norska króna sem séu engir smáaurar, meira að segja fyrir Evrópusambandið. Gunnar þessi bollaleggur síðan fram og aftur um þetta en lokaniðurstaða hans er á þann veg að makríllinn kunni að verða sami örlagavaldur og í Noregi, ekki vegna þess að Ísland þurfi að fórna hagsmunum í sjávarútveginum eins og oft hefur verið nefnt og er staðreynd líka vegna þess eins og hann orðar það að Ísland fær ekki enn þá meir.

Þessi stutta frásögn af bollaleggingum Norðmanna sem tvisvar sinnum hafa gengið í gegnum aðildarviðræður að Evrópusambandinu er fróðleg í mörgum skilningi. Í fyrsta lagi segir hún okkur það að þjóð eins og Norðmenn hefur skilning á grundvallarhagsmunum sínum og var ekki tilbúin að fórna þeim fyrir aðild að Evrópusambandinu. Skyldum við hugsa þannig líka? Það má vera að einhverjum hafi þótt hagsmunir okkar vegna makrílveiða léttvægir og á sama tíma og útrásarvíkingarnir voru í sinni útrás. En skyldi svo vera enn?

Í öðru lagi segir þetta okkur að Evrópusambandið muni ekki koma færandi hendi til aðildarviðræðnanna við okkur ef marka má reynslu Norðmanna í makrílviðræðunum.

Frú forseti. Ég mátti til með að nefna þetta hér vegna þess að í þeirri efnahagslegu stöðu og fjárhagslegu stöðu sem við erum í, og er mjög erfið og við vitum ekki með hvaða hætti við klórum okkur fram úr henni þótt við séum full bjartsýni í þeim efnum, þá verður það fyrst og síðast að við treystum á og sækjum styrk til þessara grunnatvinnuvega þjóðarinnar, til sjávarútvegsins, til landbúnaðarins og þeirra greina og matvælavinnslu sem þeim tengjast. Þess vegna er okkur umfram allt mikilvægt að standa vörð um forsjá okkar og aðgengi að þessum auðlindum Ég minni á að einmitt makríllinn, sá stofn sem kemur hér nú, sumpart kannski vegna breytts loftslags, sumpart hefur hann kannski verið hér um lengri tíma, ég veit það ekki, en að fá hingað svona mikilvægan þátt í því að afla Íslandi gjaldeyris og styrkja íslenskan efnahag — ef við værum orðnir aðilar að Evrópusambandinu þá gengi það ekki svo greitt. Við getum sem sjálfstæð strandþjóð gert tilkall til þeirra auðlinda sem í íslensku hafvatni eru og einnig til landsins. Á grundvelli þess sjálfstæðis getum við þá einmitt sótt okkur mikilvæga björg í bú, aflað mikils gjaldeyris.

Frú forseti. Ég hef rakið nokkur atriði sem ég tel að þurfi að hafa í huga verði út í aðildarviðræður farið. Það verði að gera af mikilli ábyrgð og ekki blekkja sig með því að þetta sé eitthvað sem hægt sé að skrifa undir sisvona og kosti ekki neitt. Ég er ekki að leggja til að farið verði út í umsókn en ég legg samt áherslu á það sem ráðherra fyrir þessa málaflokka, fyrir sjávarútveg og landbúnað, að verði farið út í þessar aðildarviðræður verði að gera það með þeim hætti að staðinn sé vörður um íslenska hagsmuni og þeim sé haldið fram og okkur gefist tækifæri til þess bæði að setja okkur inn í þau sjónarmið og þau atriði sem samningsaðilinn hefur og einnig að koma okkar atriðum á framfæri. Og eins og ég hef hér rakið er það mikil vinna og hún er nákvæmnisvinna, krefst sérfræðivinnu, krefst sérfræðiþekkingar og þar megum við ekkert til spara. Samningsaðilinn er þaulvanur slíkum samningum og auk þess, eins og ég minntist á áðan, er Ísland þar eitt að semja við mörg ríki. Hvert skref sem verður stigið í þeim efnum verður ekki svo auðveldlega stigið til baka. Ég heiti því, og lýk þar með máli mínu, frú forseti, að ég mun leggja mig allan fram um að standa undir þeirri ábyrgð sem á ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs fellur verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt.