137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ákaflega athyglisverða ræðu. Ég tel að þessi ræða hafi verið eins konar pólitísk heimaslátrun á tillögu ríkisstjórnarinnar og er þess vegna ekki að undra að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu ekki bara fjarstaddir úr þingsalnum heldur eru þeir einfaldlega ekki í húsinu til að fylgjast með þessari ræðu hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra lýsti þessari tillögu raunar þannig fyrir fáeinum vikum að þetta væri einhvers konar tilraun til bjölluats. Verið væri að leggja fram tillögu sem ekki væri mark á takandi og það væri ætlunin að gera at hvort sem það væri í Evrópusambandinu eða þjóðinni.

Ég vil hins vegar segja, virðulegi forseti, að ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að verði þessi tillaga samþykkt verði staðið vel að öllum undirbúningi af hálfu ráðuneytisins og ég veit að hann hefur þar á að skipa ákaflega færu fólki. En ég tek hins vegar eftir því að í kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins er talað um að þetta megi gera með annarri hendinni, leggja til hliðar verkefni sem unnin séu núna í ráðuneytinu og í stofnunum þess og láta fólkið sem þar vinnur fara í að undirbúa aðildarumsóknina sjálfa. Nú veit ég að hæstv. ráðherra þekkir vel til verkefna ráðuneytis og stofnana og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þetta raunhæft, hvort hann telji að hægt sé að gera þetta þannig að starfsfólk ráðuneytisins og stofnana hætti störfum sínum og fari í fullu starfi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.