137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að það er viðurhlutamikið verkefni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Málið er gífurlega flókið og á því eru margar hliðar. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan. Við erum að fást við mjög vana samningamenn og það þýðir auðvitað ekki að gera þetta með aðra höndina fyrir aftan bak. Þess vegna var ég að velta því fyrir mér hvort virkilega gæti verið rétt, sem virðist vera mat utanríkisráðuneytisins, að það sé hægt að sinna þessu verkefni einhvern veginn þannig að taka t.d. fiskifræðingana frá því að vera að meta stærð fiskstofna, fólkið hjá Matvælastofnun úr sínum verkefnum eða fólkið úr ráðuneytinu hjá hæstv. ráðherra úr sínum verkefnum og segja því bara að fara í að undirbúa aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Mat utanríkisráðuneytisins virðist vera að það sé svo lítið að gera í ráðuneytum og stofnunum að það sé hægt að vinna þessi mál þannig.

Hæstv. ráðherra hefur sem betur fer lagt áherslu á að vanda þurfi þessi mál og ég vildi spyrja hann í lokin hvað hann teldi t.d. að kostnaðurinn væri fyrir ráðuneytið og hversu margir starfsmenn muni vinna að þessu verkefni, verði það niðurstaðan að sækja um aðild, hve margir starfsmenn ráðuneytisins og undirstofnana verði uppteknir af því, í ljósi þeirrar miklu vinnu sem hæstv. ráðherra leggur áherslu á að þurfi að vinna varðandi þetta mál.