137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Fram kom að hann trúir ekki á jólasveininn frekar en ég og við erum skoðanabræður gagnvart því að Evrópusambandið er ekki lausnin fyrir Íslendinga. Evrópusambandið kemur ekki til með að koma okkur út úr þessum efnahagsþrengingum. Ég vil hrósa ráðherranum og hvetja hann til að standa í lappirnar og berjast fyrir sinni sannfæringu í sínum flokki, berjast fyrir því að tillagan verði felld. Nú er þörf á fólki í pólitík á Íslandi sem hefur kjark og þor til að standa á sannfæringu sinni og gefa ekkert eftir. Ég hvet ráðherrann til að halda fram sínum skoðunum af fullum krafti og sannfæra samflokksmenn sína um að standa við stefnu flokksins og greiða atkvæði þessari tillögu. Ég skil ráðherrann þannig að hann komi til með að greiða atkvæði gegn tillögunni og óska eftir að hann svari mér hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér.

Hann treystir þjóðinni, hæstv. ráðherra, og mig langar því að spyrja hann hvernig honum lítist á þær breytingartillögur sem formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið er í aðildarviðræður.