137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherrann hefur heyrt af drögum en ekki séð þessa umræddu skýrslu. Ég held að mjög mikilvægt sé að þessi skýrsla, jafnvel þó að hún sé aðeins í formi draga, verði gerð opinber áður en við göngum til atkvæða. Ég óska þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að a.m.k. utanríkismálanefnd, eða eftir atvikum Alþingi , fái þessi drög hið allra fyrsta vegna þess að alltaf þegar rætt er um hagsmuni landbúnaðarins eru gefin mikil fyrirheit um að Ísland geti fengið sömu meðferð og Finnland fékk í sínum aðildarsamningi. Þetta skiptir miklu máli. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, við hæstv. ráðherra að hann beiti sér fyrir því að skýrslan verði gerð opinber og við fáum að sjá þessi drög eigi síðar en strax.