137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt við þessa umræðu á því að lýsa því yfir að áhugi stjórnmálaflokka á hinu háa Alþingi á þessu máli er mjög mismikill miðað við þá mætingu sem hér liggur fyrir. Hann er þokkalega góður hjá stjórnarandstöðunni og Vinstri grænum en aðrir hafa ekki mjög mikla viðveru í þingsalnum en ég treysti því að þingmenn góðir séu að hlýða á þessa merkilegu umræðu alla á skrifstofunum við vinnu sína.

Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál eins og margoft hefur verið ítrekað í umræðunni þó að ég skuli verða fyrstur manna til að viðurkenna að mér finnst umræðan oft snúast um smærri atriði en ástæða væri kannski til. Það er ágætt að leiða hugann að þeirri umræðu sem farið hefur fram á Íslandi og í íslenskri pólitík úti í samfélaginu öllu um það mál sem hér liggur fyrir, mögulega aðild að Evrópusambandinu. Hún snýst meira um formsatriði oft og tíðum, hvernig eigi að standa að þessu heldur raunverulegt innihald í því eftir hverju Íslendingar ættu að slægjast með inngöngu í Evrópusambandið, hver væri hinn raunverulegi ávinningur landsins og landsmanna að því að gerast aðili að Evrópusambandinu. Eins og málum er fyrir komið erum við aðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og erum að auki með samstarf um Schengen. Þessi samningur gefur okkur fullan aðgang að svokölluðum innri markaði Evrópusambandsins þar sem við náum að mínu mati hinu besta úr því sambandi sem þar er að finna. Umræðan um það að gerast fullgildir aðilar eða meðlimir í þessum klúbbi sem ríkin 27 eru í, ESB, kostar það í rauninni að við þurfum þá að innleiða í íslenskan rétt og í okkar regluverk allt og beygja okkur undir það sem þjóð að innleiða regluverk Evrópusambandsins á 11 málefnasviðum.

Þar hefur verið viðkvæmast í umræðu manna á meðal það sem lýtur að sjávarútvegsmálum, sjávarútvegi okkar, landbúnaðar- og byggðastefnu og ætli við getum ekki sagt að síðustu tvö ár sérstaklega og þó sérstaklega sl. eitt ár hefur umræðan verið mjög bundin við gjaldmiðlasamstarf og gjaldmiðilinn, evruna.

Það hefur oft og tíðum eins og ég gat um áðan komið upp í hugann þegar ég hef hlýtt á umræður um þetta að þessi grundvallaratriði, sem ég tel fulla þörf á að ræða, að leggja fyrir þjóðina ávinning af því að undirgangast þetta regluverk sem mörgum þykir mjög flókið og menn hafa misgóða yfirsýn yfir. Það breytir ekki hinu að þessi umræða hefur staðið í fjöldamörg ár á ýmsum vígstöðvum, meðal hagsmunasamtaka atvinnulífsins eða frjálsra annarra samtaka, meðal stjórnmálaflokka. Þetta er mikið rætt og menn fá aldrei neinn einn botn í umræðuna. Að mörgu leyti er þetta gríðarlega skemmtileg umræða og gefandi því að viðfangsefnið er í rauninni eitt og hið sama alla tíð og það er umræðan um stöðu Íslands í samanburði við aðrar þjóðir og það er hið besta mál. Engu að síður held ég að það skorti töluvert á í umræðunni að ræða það í rauninni inn í hvað við erum að ganga, hvert er Evrópa að stefna, inn í hvaða samfélag erum við að fara og hvaða mynd höfum við af því í hvaða átt hún fer. Þá erum við að horfa til ýmissa þátta og lagðar hafa verið fram í því margar greinargerðir og menn meta þetta með ýmsum hætti. Í vinnu sem ég átti kost á að sinna á síðasta ári var lagt í töluverða greiningu í þessum efnum þar sem við vorum að reyna að gera okkur einhverja mynd af því inn í hvað við værum að fara og hvaða þættir það væru sem við gætum horft upp á að yrðu ráðandi í þessu samfélagi þjóðanna í Evrópu og hvernig við mundum fóta okkur í því umhverfi.

Við vorum sammála um það í þeirri umræðu að það væri fyrst og fremst spurning um auðlindanýtingu, aðgang að þeim og hvernig þær væru nýttar, sömuleiðis hvernig tækniþróun yrði háttað í þessu nýja samfélagi, hvernig heimurinn og Evrópa sérstaklega mundi vinna sig út í gegnum þau efnahagslegu áföll sem væru að dynja fyrir veröldina en ekki síður lýtur spurningin að því hvernig þessar ólíku efnahagsheildir í veröldinni mundu vinna saman á komandi árum. Sömuleiðis skiptir máli í þessu sambandi að ræða og takast á við spurningarnar um það hvernig við sjáum lýðfræði Evrópu þróast, hvernig öldrunarmálum verður háttað og hvernig vinnumarkaður verður saman settur og hverjir munu bera uppi það þjóðfélag sem menn vilja að gangi þokkalega vel.

Grundvallaratriðið varðandi sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin er hvernig forræði íslensku þjóðarinnar yfir þeim auðlindum, sem við teljum okkur búa yfir og ráða algerlega sem fullvalda þjóð, verður háttað. Þá er aðalatriðið í rauninni, fyrir utan það sem ég nefndi hér áðan um gjaldmiðlamálin, sjávarútvegsliðurinn. Ég stikla á stóru í þeim efnum en það eru það fyrst og fremst þrjú atriði þar inni. Það er spurningin hvort og hvernig við getum haldið veiðirétti okkar óbreyttum, hvort við fáum undanþágur frá þeim reglum sem þar viðgangast. Í öðru lagi er um það að ræða hvernig ákvörðun um hámarksafla úr fiskstofnum landsins verður háttað. Eins og reglan er og eins og vinnulagið er, löggjöfin og regluverkið allt úr Evrópusambandinu, þá mundi ákvörðun um hámarksafla úr fiskstofnum við Íslandsstrendur verða færð af forræði íslenska sjávarútvegsráðuneytisins og færð til framkvæmdaráðs og sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins. Þar væri um að ræða verulega skerðingu á fullveldi landsins. Þriðja atriðið varðandi sjávarútveginn er það með hvaða hætti Íslendingar ynnu með svokallaða deili- og flökkustofna en eins og regluverk Evrópusambandsins er færðist forræðið af þessum málum frá Íslendingum og yfir til Evrópusambandsins. Um það deilir enginn þannig að í þessum efnum er um mjög mikið afsal fullveldis að ræða varðandi nýtingu á þeirri auðlind sem hér um ræðir.

Landbúnaður er undir öðrum formerkjum. Þar liggur í rauninni fyrir að það verða töluverðar breytingar á umhverfi landbúnaðar í veröldinni allri sem leiðir af alþjóðlegum samningum sem eru í gangi og ósköp eðlilegt að menn hafi það til hliðsjónar þegar ræddir eru kostir og gallar Evrópusambandsaðildar fyrir Ísland. En ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég sakna þess í umræðunni að menn einbeiti sér að því að ræða þann mögulega ávinning af því að íslensk þjóð fari þarna inn og sá ávinningur verður að vera metinn af því að innleiða þá 11 málaflokka sem eftir eru af þeim 33–35 málaflokkum sem Evrópusambandið er samsett úr.

Það er ekkert skrýtið þó maður leitist við í þeirri umræðu sem um þetta mál er hafin á Alþingi að greina það með hvaða hætti þær þingsályktunartillögur sem hér liggja undir nálgast þessa spurningu og taka á henni. Hvernig mæta þær þeim óskum sem fólk hefur haft uppi í grundvallaratriðum, getum við svo sem sagt um báðar tillögurnar, annars vegar frá ríkisstjórninni sem vísað var til utanríkismálanefndar og hins vegar frá þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Við getum sagt í sjálfu sér að báðar þessar tillögur leitist við að fá botn í þá umræðu sem hér hefur átt sér stað mörg undanfarin ár. Báðar þessar tillögur leitast við það að fá niðurstöðu. Hins vegar eru leiðir þessara tillagna að þeirri niðurstöðu gerólíkar.

Röksemdin sem kemur fram í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar á bls. 4 í greinargerðinni er ekki mjög sannfærandi fyrir því hvers vegna eigi að sækja um. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að vitna beint í álitið. Þar segir:

„Með EES-samningnum og síðar Schengen-samningunum má að mati meiri hlutans segja að Ísland hafi valið sér form samstarfs við ESB. Þeir valkostir sem Ísland stendur frammi fyrir í meginatriðum eru annars vegar þeir að halda áfram núverandi samstarfi á grunni EES og Schengen eða leggja fyrir þjóðina mögulegan aðildarsamning að ESB til synjunar eða samþykktar. Með því fengist lýðræðisleg niðurstaða í máli sem hefur verið snar þáttur í opinberri umræðu og utanríkismálum Íslendinga um árabil.

Að mati flestra hefur EES-samningurinn þjónað Íslendingum vel í þau 15 ár sem hann hefur verið í gildi, þótt það sé að vísu ekki óumdeilt. EES/EFTA-ríkjunum og ESB hefur að mestu tekist að leysa þau ágreiningsmál sem upp hafa komið. Sendiherra Íslands í Brussel kom á fund nefndarinnar og lýsti því mati sínu að EES-samningurinn yrði sífellt þyngri í vöfum. Samningurinn væri í sömu mynd og hann var árið 1994 en margt hefði breyst í starfsumhverfi hans. Ræddi sendiherrann nokkuð þær breytingar sem orðið hafa eftir gildistöku EES-samningsins, t.d. héraðanefnd ESB sem íslensk sveitarfélög hefðu enn ekki aðgang að, umhverfismálin hefðu orðið mun meira vægi og auk þess væru skilin milli þess hvað félli undir EES og hvað ekki orðin óljósari.“

Ég get ekki, virðulegi forseti, skilið þessa tilvitnun með öðrum hætti en þeim að það séu í rauninni engin skýr eða afdráttarlaus rök hjá meiri hluta utanríkismálanefndar fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með góðum vilja má lesa þetta álit meiri hlutans þannig og í þá veru að við séum að sækja um eða eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að ljúka þeirri opinberu umræðu sem staðið hefur á Íslandi um árabil. Einu rökin ef maður getur kallað það sem svo koma fram í orðalaginu þar sem EES-samningnum er lýst þannig að hann verði sífellt þyngri í vöfum en ég hef ekki fundið neina greinargerð um það hvernig hann er og verður þyngri í vöfum. Það er ekkert útskýrt neitt frekar í greinargerðinni með nefndaráliti meiri hluta.

Þegar maður fær þennan pakka allan í hendur er óhjákvæmilegt líka að horfa til þess hvernig stjórnarmyndunarviðræður núverandi ríkisstjórnarflokka gengu fyrir sig og líta aðeins í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er alveg ljóst í ljósi þeirrar umræðu núna á síðustu tveimur mánuðum sérstaklega að skilningur ríkisstjórnarflokkanna er ólíkur á því atriði sem tekur til Evrópusambandsumsóknar eða -aðildar. Hæstv. forsætisráðherra lítur þannig á miðað við þá umræðu sem farið hefur fram í þessum sal og í fjölmiðlum um þetta mál að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi lofað að styðja málið alla leið. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur aftur á móti litið svo á að Alþingi ætti að afgreiða þetta mál, þingmenn hefðu frelsi til að vera með eða á móti því með einum eða öðrum hætti. Nægir í því efni að vitna til merkilegrar ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og tilvitnaðra ummæla hv. þm. Atla Gíslasonar í fjölmiðlum varðandi þessi atriði.

Það er óhjákvæmilegt að þegar svona breitt bil er á milli í skilningi ríkisstjórnarflokkanna á því hvað átt er við í þessu efni að nefndarálitið sem liggur fyrir frá meiri hluta endurspegli þessi mismunandi sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Engu að síður má geta þess hér, og það er full ástæða til að nefna það sem vel er gert, að í nefndaráliti meiri hlutans er gerð tilraun til þess að koma til móts við þá tillögu sem þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram. Það er hins vegar gert talsvert almennt þar sem farið er yfir allt málasviðið, helstu álitaefni eru reifuð. Þeir málaflokkar eru teknir sem við erum að horfa til að Ísland yrði að undirgangast ef af aðild yrði og dregnir upp helstu hagsmunir landsins innan viðkomandi málaflokks. Í nefndarálitið vantar hins vegar þá afstöðu til einstakra þátta sem alltaf er verið að kalla eftir.

Þá er nærtækast að stoppa við það sem mest hefur verið rætt um og mest ber á í umræðunni en það eru sjávarútvegsmálin sem fjallað er um á bls. 15–17 í greinargerð meiri hlutans með nefndaráliti sínu þar sem undirstrikað er að sjávarútvegsmálin muni bera hæst í væntanlegum aðildarviðræðum. Með leyfi forseta ætla ég að vitna hér og þar úr þessum kafla sem er á bls. 15–17, undirliður ii í VII. kafla. Þar kemur ágætlega fram að samstaða var í nefndinni, allri vænti ég, um að gera kröfu til þess að Íslendingar hefðu forræði yfir sjávarauðlindinni sem þýddi að við hefðum forræði yfir stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu. Það er jafnframt talað um að við eigum að leggja áherslu á meginreglur hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tryggi að ákveðin grundvallarréttindi sem við höfum í dag verði ekki skert. Í því sambandi geri ég ráð fyrir að horft sé fyrst og fremst til fullveldisréttarins um 200 mílna lögsögu.

Þegar maður svo fer að lesa þetta nánar og reyna að átta sig á því hvort og hvernig meirihlutaálit utanríkismálanefndar skilgreinir afstöðu okkar til hlutanna og hvort tekið sé tekið fast á þá er engin skilyrðing þarna inni og menn vilja greinilega ekki binda sig á neinn hátt. Ég skýri þetta afstöðuleysi með því að það er töluverður munur á milli verkstjórnendanna við þetta verk, þ.e. ríkisstjórnarflokkanna, hvaða skilning þeir leggja í þetta. Við sjáum þar orðalag eins og að meiri hlutinn telji afar mikilvægt að við förum með samningsforræði, leita þurfi leiða, meiri hlutinn telji rétt að láta reyna á og tali eigin máli og með eins víðtækum hætti og unnt er. Þetta er allt galopið og skilyrðingin með öðrum orðum er engin. Það er enginn skýr vegvísir um það sem segir hvernig þetta mál eigi að koma fram. Ég ætla að leyfa mér að vitna orðrétt í meirihlutaálitið þar sem segir:

„Nefndin ræddi um þann kost að setja umboði ríkisstjórnarinnar til að sækja um aðild að ESB afmörkuð skilyrði. Fram kom á fundum nefndarinnar að engin fordæmi væru fyrir því að ríki hafi sótt um aðild að ESB með ákveðnum skilyrðum. …

Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða.“

Maður spyr sig í rauninni hvað þessi texti þýði. Þetta er í rauninni allt galopið. Í umræðu um þetta mál hefur komið fram að menn hafa talið að nefndarálitið þrengi umboð væntanlegrar viðræðunefndar eða samninganefndar, hvað svo sem við eigum að kalla þetta fyrirbæri sem sett er á laggirnar. Það sé skilgreint þröngt að þegar menn komi að einhverjum slíkum veggjum þurfi að leita eftir umboði Alþingis til þess að fá heimild þar til að fara út fyrir þann ramma sem segir í nefndarálitinu. Menn geta svo deilt um hvort það sé gott, vont eða slæmt fyrir væntanlega samningamenn en ég hefði álitið að þetta verklag væri ekki það æskilegasta sem við þyrftum á að halda í þessum efnum til að fá fram einhverja skilyrta og góða niðurstöðu. En engu að síður er þetta veruleikinn eins og hann liggur fyrir.

Í nefndaráliti frá 1. minni hluta nefndarinnar er þetta mál tekið öðrum tökum og reynt að nálgast viðfangsefnið út frá allt öðru sjónarhorni, nefnilega því að reyna að færa þetta mál nær þjóðinni með því að draga fram þær áherslur sem við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir að þurfi að koma upp á borðið. Ég ætla að leyfa mér að vitna orðrétt í nefndarálit minni hlutans sem segir:

„Hins vegar vantar grundvallaratriði inn í álit og breytingartillögu meiri hlutans þar sem ekki er gert ráð fyrir aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun um aðildarumsókn og ekki er gert ráð fyrir að endanleg staðfesting samningsins verði borin undir þjóðina. Meiri hlutinn kýs að afgreiða síðastnefnda atriðið með því að gera ráð fyrir að hugsanlegur aðildarsamningur verði borinn undir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sem verður þá ekki lagalega bindandi fyrir staðfestingu aðildar.“

Það er gersamlega óásættanlegt að okkar mati að álit meiri hlutans taki á hlutum með þessum hætti. Við teljum nauðsynlegt að ná samstöðu um það meðal þjóðarinnar að í slíkar viðræður sem hér hefur verið lýst og tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar felur í sér og tillaga ríkisstjórnarinnar raunar einnig að ná samstöðu meðal þjóðarinnar um svona stórt mál. Hvernig liggur landið í þeim efnum?

Það er alveg ljóst, á grundvelli þess sem ritað er í blöð, kemur fram í fjölmiðlum, í viðræðum stjórnmálamanna við almenning í landinu, sömuleiðis í mælingum skoðanakannana, að almenningur í landinu gerir sér fullkomlega ljóst hver munurinn er á umsókn eða inngöngu í Evrópusambandið. Það er greinilegt í öllum könnunum og viðhorfsmælingum að mikill stuðningur er við að sækja um en hins vegar er ekki að finna mikinn stuðning við aðild að Evrópusambandinu. Þegar spurt er út í það atriði sem hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Þorgerður Gunnarsdóttir gera að meginefni í breytingartillögu sinni frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar um það sem hefur verið kallað tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu, hverjar skyldu væntingar fólks til þess máls vera? Jú, það er þannig að í mælingum kalla hátt í 80% þjóðarinnar eftir því að fá tækifæri til að fá að segja álit sitt á því hvort Alþingi á að heimila ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og undir hvaða skilmálum slík umsókn færi inn. Með öðrum orðum, almenningur vill fá og gerir kröfu til þess að fá að hafa eitthvað um það að segja á frumstigi málsins hvernig það er gert úr garði og enn fremur gerir almenningur líka ríkar kröfur til að fá að hafa fullnaðarafgreiðslu þess með höndum. Út á það gengur tillaga minni hluta utanríkismálanefndar.

Hvers vegna skyldu menn reka áróður fyrir að tala þessu máli? Jú, það er ósköp einfalt og er í rauninni nauðsynlegt að hafa þessi orð uppi hér að viðurkenna það að traust almennings á stjórnvöldum hefur beðið hnekki á síðustu mánuðum. Sömuleiðis hefur traust almennings á störfum Alþingis því miður beðið hnekki. Við því sem ég kalla ákveðið vantraust sem ríkir í garð stjórnmálaafla landsins verður að bregðast. Og hvernig eiga menn að bregðast við? Með því sem hér er gerð tillaga um af hálfu ríkisstjórnar og meiri hluti utanríkismálanefndar vill fylgja eftir, þ.e. menn keyri þetta stóra mál fram þannig að almenningi er ekki hleypt að því þó að ríkar óskir liggi til þess? Ég tel ekki hægt að verja það með neinu móti og tel ósköp einfalt að bregðast við með þeim hætti að gera almenningi það kleift og það er vel mögulegt. Fram á það hefur verið sýnt að tiltölulega fljótlegt er að undirbyggja slíkt mál og tillagan gerir ráð fyrir því að unnt verði innan þriggja mánaða að móta afstöðu til framhalds málsins. Að mínu mati hefur þetta þann stærstan kost að Alþingi kemur þá út til fólks með þetta mál, ber það undir það og gefur því hlutdeild í því að ákvarða framtíð sína á komandi árum.

Þetta er ekki venjulegt vinnulag en við lifum ekki á venjulegum tímum. Það eru óvenjulegir tímar runnir upp í íslensku samfélagi. Bankakerfið hrundi, efnahagskerfi landsins liggur undir áföllum, það ríkir vantraust á pólitískum valdhöfum. Þegar hefur ein ríkisstjórn fallið vegna þessara mála og þessarar stöðu og til viðbótar er sú ríkisstjórn sem leggur fram þetta mikla mál ekki einu sinni samstiga við framlagningu þess og áskilur sér rétt til að mæla gegn eigin verki. Ríkisstjórnin leggur fram sína tillögu með þeim orðum að málsaðilar, svo vitnað sé til þess, áskilji sér rétt til að mæla gegn aðildarsamningi. Hvernig í ósköpunum á þetta verklag að vekja traust á þeim vanda sem fram undan er í þessu máli þegar við horfum á það að þetta hefur verið viðkvæmt mál, er viðkvæmt mál og allar líkur til að djúpstæður ágreiningur sé í gangi eða sé fyrir hendi meðal þjóðarinnar? Ef þetta verður keyrt svona fram fullyrði ég að þetta mál mun skipa þjóðinni í tvær öndverðar fylkingar sem yrði okkur ekki til gæfu við þau verkefni sem fram undan eru við endurreisn íslensks efnahagslífs og mannlífs raunar öllu. Það á að vera rökstuðningurinn og réttlætingin hjá Samfylkingunni fyrir þessari málsmeðferð að þetta sé liður í því að endurreisa íslenskt efnahagslíf sem feli þá í sér einhver skýr skilaboð til umheimsins og skapi okkur traust þar.

Áhersluatriði mín eru þau að það ríði meira á að senda skýr skilaboð til almennings, fólksins í landinu frá stjórnmálamönnum um að þeir ætli að breyta um verklag og fara að vinna meira með þjóðinni heldur en segja henni fyrir verkum. Þetta leiðir hugann að því með hvaða hætti pólitísk forusta landsins hefur verið og er raunar núna. Hún tekur vissulega breytingum og hefur tekið á síðustu mánuðum, bæði í kjölfar þess að fyrri ríkisstjórn féll á prófinu varðandi þau átök sem þá voru uppi, minnihlutastjórnin tók við og síðan samstarf tveggja flokka í ríkisstjórn í kjölfar alþingiskosninganna síðustu. En verklagið hefur ekki tekið neinum breytingum. Það er enn þá skipulagt á sama hátt og viðgengist hefur í mörg undanfarin ár, þetta svokallaða oddaflug, þ.e. forustugæsin flýgur fremst og síðan skipar allur hópurinn sér í halarófu þar á eftir og fylgir foringjanum alveg þindarlaust. Ég ætla að nefna það þegar rætt er um að færa ákvörðunarvaldið í þessu stóra grundvallarmáli út til þjóðarinnar og því er hafnað af Samfylkingunni afdráttarlaust, að á sama tíma kemur hæstv. forsætisráðherra í fjölmiðla og lýsir því yfir að hún telji að þjóðin eigi að hafa skoðun á því hvort eigi að endurbyggja hús á Þingvöllum. Er það mikilvægara mál en ákvörðun þjóðar um það hvort við viljum afsala okkur fullveldi okkar og ganga til samstarfs við ríkjabandalag? Í mínum huga er stór munur þar á.

Það ríkir algert vantraust á þá hugmyndafræði sem viðgengist hefur í stjórnmálum á Íslandi í dag sem kölluð hefur verið foringjadýrkun. Við þurfum miklu frekar að byggja upp trúnað og traust, samband á milli stjórnmálaaflanna í landinu og almennings. Það gerum við ekki með því að stjórnmálaforingjar, oddvitar okkar þurfi að éta ofan í sig þindarlaust yfirlýsingar dag eftir dag eftir dag né heldur að foringjar okkar í stjórnmálum gangi fram með hótanir um stjórnarslit eða þrengingar á þá þingmenn sem standa sjálfstæðir á skoðunum sínum.

Það er vissulega umhugsunarefni og ég vil nefna það undir lok minnar ræðu, virðulegi forseti, að á tímum sem þessum, sem ég fullyrði að eru einstakir í sögu þjóðarinnar, skulum við vera að ræða þetta mál undir þeim skilmálum að staða þjóðarinnar er í efnahagslegri lægð. Við erum mjög beygð þar. Tilfinningalegur styrkur þjóðarinnar er sömuleiðis í lágmarki þannig að við erum illa í stakk búin til mikilla átaka. Það er tvímælalaust. Og hvers vegna í ósköpum skyldum við, á sama tíma og við erum að ræða þetta stóra og mikla mál, vera með óafgreitt mál sem kallað hefur verið því leiðinlega nafni að minni hyggju Icesave-málið, óafgreitt á Alþingi? Þar eru tvær burðarþjóðir í Evrópusambandinu — og þó sérstaklega önnur, Bretar — ásamt með Hollendingum að knýja íslenska skattgreiðendur, almenning á Íslandi til að taka á sig byrðar af því að einkafyrirtæki á Íslandi sem hafði starfsemi erlendis í þessum tveimur löndum vann ekki vinnuna sína með réttmætum og löggiltum hætti. Ætla þá umboðsmenn þessa sama almennings á Alþingi að ganga fram með þeim hætti að fara að óska eftir ríkjasamstarfi á vettvangi Evrópusambandsins með þessum sömu tveimur nýlenduþjóðum fyrrverandi, Bretum og Hollendingum og ganga þar inn eins og ekkert hafi í skorist? Mér finnst þetta verklag algerlega með ólíkindum og varla sæmandi okkur að vinna svona. Við hefðum í það minnsta ekki hagað okkur með þessum hætti þegar við áttum í þorskastríði við Breta á sínum tíma. Mér finnst þetta niðurlæging að mörgu leyti að vinna þannig með mál. Meðan við höfum ekki lokið ágreiningi við Breta og Hollendinga, komið þeim málum á hreint þá finnst mér með ólíkindum í ljósi þess hvernig þetta mál hefur verið reifað að við skulum ekki gefa almenningi á Íslandi tækifæri til að hafa frekari aðkomu að því að ákvarða um sína framtíð með því að fá að segja álit sitt á því hvort hann vilji ganga til liðs við þessar þjóðir sem hafa komið fram við íslenskan skattgreiðanda eins og raun ber vitni.