137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Ástæðan fyrir því að ég beini þessari fyrirspurn til hv. þingmanns er einfaldlega sú að Samfylkingin getur ekki svarað þessari spurningu og ég tel það vera vegna þess að það er ekkert plan B. Nú er hv. þingmaður aðili að stjórnarsamstarfi við þennan flokk þannig að hann ætti kannski að reyna að kynna sér hvort Samfylkingin hafi slíkt plan — bara upp á framtíðina að gera.

Mig langar jafnframt til að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji þennan asa á málinu og áherslu Samfylkingarinnar á að koma þessu máli hér í gegnum þingið, tengist eitthvað meðferð þingsins á öðru máli sem gengur undir nafninu Icesave-málið, hvort hann telji vera eitthvert samhengi þar á milli.

Jafnframt langar mig að hvetja þennan unga hv. þingmann til þess að halda áfram á sömu braut, standa fast á sínum skoðunum og vera trúr sjálfum sér og ég vil fullvissa hann um að það er líf eftir samstarf við Samfylkinguna. Við sjálfstæðismenn þekkjum það, við þekkjum þessi vinnubrögð, þekkjum að láta stilla okkur upp við vegg vegna Evrópusambandsmála, og ég hvet þig til að halda áfram á sömu braut.