137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ræðuna og ég er að mörgu leyti sammála honum. Ég skildi alveg þegar hann sagði að það hefði verið lítill fugl með rauða bletti (ÁsmD: Appelsínugulan.) appelsínugulan lit, já fyrirgefðu, sem hvíslaði þessu að honum vegna þess að við vitum hverjum sá litur tilheyrir.

Hann kom inn á mikinn kostnað sem fylgdi því að sækja um aðild, að það séu þúsund milljónir og þá verði menn að gæta hófs. Deilir hann þá ekki þeim áhyggjum að menn muni ekki geta passað hagsmuni okkar Íslendinga með því að þurfa að gæta hófs og geti ekki kallað til erlenda sérfræðinga. Hefði ekki verið skynsamlegra í þessu stóra máli að menn hefðu þá frekar rýmri heimildir?