137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ræðu hans og svör. Við óttuðumst það sum á föstudaginn að hv. þm. Ásmundur Einar mundi ekki halda ræðu við þessa umræðu en hann hefur hins vegar gert það og komið á framfæri mjög mikilvægum sjónarmiðum, tel ég.

Ef við veltum fyrir okkur hinni pólitísku stöðu í þessu máli þá er hún auðvitað afar sérstök. Við þekkjum það auðvitað að sjónarmið flokkanna sem að ríkisstjórninni standa hafa verið ólík í þessu máli og það hefur sérstaklega verið vísað til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er á því tekið með þeim hætti að flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu o.s.frv. Þessi orð og þau sem eru í kaflanum um Evrópumálin í stjórnarsáttmálanum virðast stjórnarflokkarnir eða menn innan stjórnarflokkanna hins vegar túlka með mjög mismunandi hætti. Ekki hefur verið hægt að skilja annað á málflutningi hæstvirtra ráðherra og þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en að í þessu fælist það sem t.d. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Þessi stjórnarmyndun var vissulega ekki án fórna og málamiðlana af okkar hálfu og yfir það reynum við ekkert að breiða, t.d. þegar kemur að þeirri niðurstöðu stjórnarsamstarfsins að setja Evrópumálin í hendur Alþingis, en um leið er þar tryggður þingræðislegur og lýðræðislegur farvegur fyrir þetta afdrifaríka mál.“

Hvernig eigum við að skilja þessi orð hæstv. fjármálaráðherra? Ég skil þau þannig að samningur ríkisstjórnarflokkanna hafi gengið svo langt að málið færi inn í þingið sem stjórnarmál en það lægi hins vegar fyrir og það hefur raunar verið ítrekað í ummælum ýmissa talsmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að ekki væri um að ræða skuldbindingu til þess að tilteknir þingmenn greiddu atkvæði á tiltekinn veg. Þannig hef ég alltaf skilið þau ummæli sem hafa fallið af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Nú bar svo við á þingi í gær að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir lét skína í einhvern allt annan skilning. Hún hafði reyndar áður verið með yfirlýsingu um að ef málið næði ekki fram að ganga á þingi mundi það kalla á, eins og hún orðaði það, að stjórnarflokkarnir settust niður og mætu stöðuna upp á nýtt en í umræðu í þinginu í gær tók hún skýrar til orða og sagði, svo ég vitni beint í orð hennar eins og þau voru höfð eftir henni í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Vonandi verður atkvæðagreiðsla um tillögu um aðildarumsókn með þeim hætti að þessi ríkisstjórn starfi áfram.“

Hvernig á að skilja þau orð? Hvernig er hugsanlegt að skilja þau orð? Það verður ekki gert nema við veltum því fyrir okkur hvað hefði verið ef hún hefði sagt, ja, það er ekki hægt að skilja orð hennar með öðrum hætti en þeim að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í þinginu um þessa þingsályktunartillögu geti orðið til þess að ríkisstjórnin starfi ekki áfram. Hvað felst í þeim orðum? Í þeim felst auðvitað hótun um það að Samfylkingin muni slíta stjórnarsamstarfinu ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð tryggir ekki framgang málsins á þinginu. Það er bara ekki nokkur leið að skilja þessi ummæli öðruvísi. Þetta er óvenju lítt dulbúin hótun af hálfu hæstv. forsætisráðherra í garð samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn. Það er eiginlega með ólíkindum þegar helsti talsmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, kemur síðan upp í ræðustól, aðspurður um þetta, og gefur í skyn að hér hafi verið um að ræða einhver mismæli af hálfu forsætisráðherra, einhver vanhugsuð ummæli. Ég held ekki. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur lengri þingreynslu heldur en við öll til samans, er afskaplega vön að orða hugsanir sínar þannig að það skiljist og það gerði hún í þessu tilviki. Þessi hótun hrökk ekkert óvart út úr henni, þetta var þaulhugsað. Og það er umhugsunarefni.

Svo ég víki að efnisatriðum málsins þá gefa þau tilefni til mikilla umræðna hérna og meiri umræðna en ég hef tök á að fara yfir í þeirri stuttu ræðu sem ég hef möguleika á að flytja núna. Ég ætla þó að reyna að koma nokkuð víða við og verð að biðja hv. þingmenn velvirðingar á því að ég get ekki staldrað nema stutt við hvert efni en mun vonandi fá tækifæri til að bæta úr því síðar í umræðunni.

Fyrst vildi ég nefna það að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason flutti afar athyglisverða ræðu fyrr í dag, undir kvöldmat. Margt er hægt að segja og taka undir mat hæstv. ráðherra á afleiðingum aðildar að Evrópusambandinu fyrir sjávarútveg og landbúnað en ég ætla að láta það liggja á milli hluta að þessu sinni en staldra aðeins við eitt atriði sem hann vék að í máli sínu. Þessi hæstv. ráðherra sem leiðir þá tvo málaflokka sem ætla má að verði umdeildastir í samningaviðræðum við Evrópusambandið, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál, sagði um þá kostnaðaráætlun sem meiri hluti utanríkismálanefndar hlýtur að byggja sína niðurstöðu og sitt meirihlutaálit á, hann sagði um það álit: Þetta getur engan veginn staðist. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ég fullyrði að þekkir afar vel til þeirra málaflokka og leiðir þá af hálfu ríkisstjórnarinnar, segir að það sem að honum snýr í sambandi við kostnaðaráætlunina geti engan veginn staðist. Á þessu byggir meiri hluti utanríkismálanefndar niðurstöðu sína, á því sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur að geti engan veginn staðist. Raunar má geta þess að fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem einnig þekkir vel til þeirra málaflokka, Einar K. Guðfinnsson, kom inn á það hér á föstudagskvöldið að þetta gæti með engu móti staðist. Þetta er bara partur af þeirri kostnaðaráætlun sem snýr að þessu tiltekna ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Ég þori að fullyrða að það sama á við um fjölmarga aðra málaflokka sem skautað er létt yfir í þessu kostnaðarmati og farið er um almennum orðum með miklum fyrirvörum. Ég held að það sé alveg ljóst að kostnaðurinn, sem ég viðurkenni að er ekki aðalatriðið í þessu máli en engu að síður mikilvægt að hafa í huga upp á ákvarðanatöku, kostnaðarmatið er stórlega vanmetið. Ég kalla enn eftir því, t.d. af hálfu hv. formanns utanríkismálanefndar eða annarra sem til þekkja, að útskýrt verði fyrir mér hvort hv. utanríkismálanefnd eða meiri hluti utanríkismálanefndar hafi tekið afstöðu til þess sem vikið er að í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins um þessa tillögu hvort velja eigi ódýra nálgun eða dýra nálgun.

Þegar fjármálaráðuneytið hefur farið yfir kostnaðarmat utanríkisráðuneytisins segja þeir, fjárlagaskrifstofan, að það sé hægt að velja ódýra nálgun sem felur það í sér að það sé ekki lögð nein sérstök áhersla á sérstök samningsmarkmið, það sé ekki leitað ráðgjafar og það sé ekki miklu til kostað. Það má orða þetta á mannamáli þannig að það verði farið til Brussel með sama hvíta fánann og var farið fram með í Icesave-málinu og skrifað undir kröfur gagnaðilanna. Það er auðvitað ódýrt, það er ekki mikil fyrirhöfn í því. Menn geta farið með sama hvíta fánann og í Icesave-málinu og gefist upp og skrifað undir hvað sem að þeim er rétt. Það er hægt að gera það þannig. Hins vegar er alveg ljóst að ef menn ætla sér að fara í samningaviðræður af einhverju viti þurfa menn óhjákvæmilega að velja dýra leið. Þá þýðir ekkert að gera eins og utanríkisráðuneytið stingur upp á, að spara sömu peningana í þróunaraðstoð eins og átti að spara þegar utanríkisráðuneytið átti að uppfylla skilmála sína um almennan niðurskurð sem ákveðinn var fyrir nokkrum vikum, sömu peningana. Það er vísað til þess í áliti utanríkisráðuneytisins að það eigi að spara sömu krónurnar og ráðuneytið sparaði fyrir nokkrum vikum með því að skera niður í þróunaraðstoð. Nú geri ég ekki athugasemdir við það að skorið sé niður í þróunaraðstoð eins og á mörgum öðrum sviðum en það liggur í augum uppi að ekki er hægt að spara sömu krónurnar aftur og aftur. Ef menn ætla að ná fram almennri hagræðingu með því að spara, uppfylla skilmála ríkisstjórnarinnar um hagræðingu með því að spara í þróunaraðstoð þá gera menn það en þegar kemur að því að hagræða til að fjármagna samningaviðræður út af Evrópusambandsaðild þá geta menn ekki sparað sömu krónurnar og sparaðar voru nokkrum vikum áður. Þetta heitir á íslensku sjónarspil svo ég velji ekki sterkara orð. Það er verið að slá ryki í augu manna með því að setja fram svona tillögur, það er verið að slá ryki í augu þingmanna með því að halda þessu fram. En þetta er það sem meiri hluti hv. utanríkismálanefndar byggir niðurstöðu sína á, það eru svona traustar forsendur, það eru forsendur sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að geti engan veginn staðist. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að öðrum þætti sem mér finnst hafa verið nokkuð vanræktur í umræðunni og það eru spurningarnar um það hugsanlega ferli sem gæti átt sér stað verði tillaga hæstv. utanríkisráðherra samþykkt og verði farið í samningaviðræður. Það snýr að endataflinu, það snýr að því hvernig menn ætla að ljúka málinu. Þá vísa ég til ræðu sem hv. formaður utanríkismálanefndar flutti í gær þar sem hann virtist á einhvern hátt vera að reyna að tala sig inn á það að sú leið sem meiri hluti utanríkismálanefndar mælir með í þessu sambandi sé einhvern veginn sú eina færa. Slík túlkun er að mínu mati alröng. Það er auðvitað rétt að halda því skýrt til haga að í áliti þeirra lögfræðinga, prófessors í stjórnskipunarrétti og dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, sem um þetta fjölluðu fyrir utanríkismálanefnd, þá er þess auðvitað getið með skýrum hætti að það séu ýmsar leiðir færar í þessu sambandi, ýmsar leiðir færar í sambandi við bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, á hvaða stigi stjórnarskrárbreytingar eru ákveðnar o.s.frv. Það sem er í rauninni handfast og kannski það eina sem við getum ekki vikið okkur undan frá stjórnskipulegu og lögfræðilegu sjónarhorni er að Evrópusambandsaðild verður ekki samþykkt að óbreyttri stjórnarskrá. Þess vegna undrar það mig mjög hvernig hv. meiri hluti utanríkismálanefndar stillir málinu upp, að stjórnarskrárbreytingin sem er raunverulega eina nauðsynlega forsendan fyrir því að ákveðið verði að ganga í Evrópusambandið, stjórnarskrárbreyting er óhjákvæmileg, hversu seint í ferlinu þessari breytingu er stillt upp. Ég velti því fyrir mér hvort það sé til þess að reyna með einhverjum hætti að gera stjórnarskrárbreytinguna að formsatriði í stað þess að stjórnarskrárbreyting fái í allri málsmeðferðinni þá athygli sem henni ber. Í staðinn fyrir að þjóðin og þingið standi frammi fyrir þeirri spurningu hvort yfir höfuð sé vilji fyrir því að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að það sé heimilt að framselja fullveldi til yfirþjóðlegrar stofnunar eigi einhvern veginn að fela það aftast í ferlinu þannig að allar ákvarðanir hafi í rauninni verið teknar og allt um garð gengið þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni. Ég velti þessu fyrir mér. Og ég vildi lýsa því sem skoðun minni að ég tel að verði yfir höfuð farið út í það að sækja um aðild að Evrópusambandinu og verði lagt upp í þá för, þá sé langeðlilegast að stjórnarskrárbreytingar séu framarlega í því ferli en ekki aftarlega, að tekist sé á við þá spurningu framarlega í ferlinu hvort þing og þjóð eru þeirrar skoðunar að það eigi að vera heimilt að framselja hluta ríkisvaldsins, hluta fullveldisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, að fólk, þingmenn sem aðrir, þurfi að standa frammi fyrir þeirri spurningu framarlega í ferlinu. Ég held að það fari miklu betur á því og þá er alveg ljóst að ef ekki er stuðningur við eða vilji til að breyta stjórnarskránni á þann veg, þá er öll hin vegferðin óþörf.

Það er alveg skýrt í mínum huga að ef því yrði hafnað að breyta stjórnarskránni þannig að fullveldisframsal væri heimilað þá væri engin ástæða til að setjast niður og semja við Evrópusambandið, það er alveg klárt. Þess vegna er það mitt mat að hér sé verið að fara í hlutina í vitlausri röð og ég vil halda því sterklega til haga að það væri eðlilegra að fara þessa leið.

Ef við förum í gegnum álit meiri hlutans þá eru í rauninni ótal mörg álitamál sem nefndarálitið vekur athygli á, víkur að eða víkur ekki að — og þar sem ræðutíma mínum er brátt lokið og hv. formaður utanríkismálanefndar er kominn í salinn þá get ég ekki látið hjá líða að spyrja hann einnar spurningar sem í sjálfu sér snertir kannski lítinn þátt þessa máls en hefur þó ekki verið mikið ræddur í þessari umræðu og það er hvaða afleiðingar eða hvaða áhrif það hafi að Ísland sé komið í umsóknarferli eins og það er kallað. Fullyrt hefur verið alveg gríðarlega mikið um það að með því einu að sækja um aðild sé Ísland með einhverjum hætti komið í skjól af Evrópusambandinu, eigi möguleika á aðstoð þar í sambandi við fjárhagsleg málefni, peningamál eru sérstaklega nefnd, og vegna þess að ég sá í fljótu bragði ekki að það væri vikið mjög skýrt að þessu í áliti meiri hluta nefndarinnar þá vildi ég spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort nefndin hafi komist að einhverri niðurstöðu í þessum efnum, þ.e. að hvaða leyti nefndin eða þá eftir atvikum hann, ef nefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess, telji að Ísland verði komið í skjól Evrópusambandsins, eins og vinsælt er að segja, með því einu að sækja um og að hvaða leyti Ísland mundi þá eiga kost á einhverri aðstoð í sambandi við fjármál eða peningamál ef svo færi að við værum komin í umsóknarferli.

Ég held að það sé dálítið mikilvægt að þetta komi fram hér í umræðunni, umræðunnar vegna eins og við segjum, af því að það er svo margt fullyrt í þessu. Til gamans má geta þess að ég hef heyrt menn fullyrða, málsmetandi menn úr ýmsum flokkum, einkum Samfylkingu að það hljóti að vera heppilegt fyrir okkur að verða aðilar eða sækja um aðild að Evrópusambandinu af því að það muni hjálpa okkur varðandi lúkningu Icesave-málsins. Flestir sem ég hef talað við og flestir sem hafa tjáð sig um þetta hafa verið gagnstæðrar skoðunar. En það virðist hins vegar örla á þeirri skoðun, alla vega hjá sumum innan Samfylkingarinnar, að það að sækja um aðild að ESB muni einhvern veginn hjálpa okkur gagnvart Icesave. Mig langar því að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar hvort hann sjái þennan flöt á málinu, hvort hann telji að þessi tvö mál séu með öllu aðskilin eða hvort það geti hugsanlega hjálpað okkur með einhverjum hætti varðandi lúkningu Icesave-málsins að vera kominn í umsóknarferli gagnvart Evrópusambandinu.