137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur sú kynduga staða komið upp að þegar ég hafði óskað eftir að veita andsvar við ræðu þingmannsins ákvað hann að nota síðustu mínúturnar í ræðu sinni til að fara í andsvar við mig fyrir fram og spyrja mig nokkurra spurninga sem hann ætlaðist til að ég svaraði í andsvarinu, en ég hafði komið hér upp til að veita andsvar við ræðu þingmannsins. Sumu af því sem hann spurði mig að hef ég nú þegar svarað fyrr í umræðunni og ætla ekki að eyða orðum að því.

Það sem ég vildi koma að var það sem hv. þingmaður vék að varðandi stjórnarskrána þegar hann segir í ræðu sinni að meiri hlutinn vilji bersýnilega ekki ráðast í stjórnarskrárbreytingarnar fyrr en allt er um garð gengið. (BÁ: Mjög seint í ferlinu.) Mjög seint í ferlinu. Þessu má auðvitað snúa á haus og segja: Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, hann vill ekki að þjóðin komi að málinu fyrr en allt er um garð gengið, búið er að gera allar formlegar breytingar á stjórnarskrá og samþykkja lög til staðfestingar aðild að Evrópusambandinu. Þarna er einfaldlega málefnalegur ágreiningur. Ég virði skoðanir Birgis Ármannssonar og hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins annarra sem hafa sagt þetta. Á bls. 35 í nefndarálitinu er sérstaklega tekið á þessu og sagt að þrátt fyrir það að aðildarsamningur sé borinn undir þjóðaratkvæði sé í sjálfu sér ekkert á móti því að í stjórnarskrárbreytingum sem síðan fylgja sé sett inn ákvæði um það að framsal ríkisvalds muni alltaf kalla á annaðhvort aukinn meiri hluta eða sjálfstæða samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur margkomið fram í mínu máli á vettvangi nefndarinnar og í þinginu. Ég spyr: Af hverju tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki í þessa sáttarhönd hvað þetta varðar?

Varðandi áhrifin, eins og hann spurði um, hvort Ísland væri komið í skjól, held ég, virðulegur forseti, tímans vegna að ég verði að fá að svara því í síðara andsvari, gefist tækifæri til þess.