137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talar um að Sjálfstæðisflokkurinn vilji fara með þjóðaratkvæðagreiðslu aftast í ferlið er það alveg rétt. Það er vegna þess að áhersla Sjálfstæðisflokksins, eins og hún birtist í nefndaráliti 1. minni hluta utanríkismálanefndar, gengur einmitt út á það að þjóðin eigi síðasta orðið. En hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gleymir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka lagt til í þessu máli að þjóðin eigi fyrsta orðið, þ.e. að það verði borið undir þjóðina og leitað stuðnings við það eða andstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við eigum að fara í þetta ferli eða ekki. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort það er heppilegt, eðlilegt eða rétt en það er alla vega ekki hægt að halda því fram í þessu máli að Sjálfstæðisflokkurinn sé að veigra sér við því að leita álits þjóðarinnar á skrefum í þessu máli, þvert á móti. Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vill, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason orðaði það svo vel áðan, láta þjóðina eiga bæði fyrsta og síðasta orðið. Síðan bíð ég spenntur eftir svari hv. þingmanns við síðari spurningunni.