137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að mörgum málum í stuttu andsvari og ég mun reyna að fara hratt yfir.

Já, ég hef ákveðnar áhyggjur af því að það geti skaðað hagsmuni Íslendinga ef farið verður í samningaviðræður við Evrópusambandið með það að meginmarkmiði að ná samningum miklu frekar en að hafa það að meginmarkmiði að standa á hagsmunum Íslands. (Gripið fram í.) Hér er spurt úr sal hvernig aðrar þjóðir komust í gegnum þetta. Aðstæður annarra þjóða eru, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir þekkir, afskaplega mismunandi. Í sumum tilvikum kann að hafa verið skynsamlegt fyrir þær að ganga inn í Evrópusambandið, í sumum tilvikum ekki, en við hljótum auðvitað að meta þetta út frá okkar sjónarmiðum. Ég held að það sé áhyggjuefni ef Samfylkingin, sem greinilega vill fara inn í Evrópusambandið nánast hvað sem það kostar — það hefur a.m.k. ekki komið fram í þessari umræðu neitt sem bendir til þess að Samfylkingin sjái fyrir sér þá atburðarás að það geti eitthvað komið upp í samningaviðræðunum sem geri okkur ómögulegt að semja, það hefur ekki komið með skýrum hætti fram í umræðunni — ég hef áhyggjur af því að ef menn fara í samningaviðræður með slíku hugarfari geti það leitt til óhagstæðrar niðurstöðu, það er alveg rétt.

Varðandi önnur atriði sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi heyrist mér að við séum bara fyrst og fremst sammála og ég ætla því ekki að fara mörgum orðum um það. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi að hvernig sem menn vilja líta á tengsl þessara tveggja mála, Icesave og ESB, umsókn um ESB, hvort þar er um bein tengsl eða óbein að ræða, þá er það (Forseti hringir.) frá mínum bæjardyrum séð óheppilegt að sækja um á sama tíma og Icesave-málið er óleyst.