137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt þessi síðasta setning sem vantaði kannski aðeins í þessa umræðu áðan, það er akkúrat þetta að það er mjög óheppilegt og varasamt að fara í slíkar viðræður á sama tíma og við erum með þetta Icesave-mál hangandi yfir okkur ef það er ekki beinlínis beintengt. Ég óttast því miður að þetta sé mun meira tengt heldur en menn vilja vera láta. Því miður get ég ekki vitnað í skjöl sem eru leynigögn því til sönnunar en ég er hins vegar búinn að lesa þau leynigögn.

Ég tek undir það sem hv. þm. Birgir Ármannsson kom að áðan að það að ætla að ná samningum, að fara í samningaviðræður og ætla að ná samningum, nánast hvað sem það kostar eða alla vega gefa ekki skýr skilaboð um það hverju má ekki fórna, er vitanlega mjög varasamt og það gefur gagnaðilanum betra færi heldur en okkur. Ég veit að þingmaðurinn hefur meiri reynslu heldur en ég af samningamálum.