137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga hafa svarið eið að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þessari og engri annarri, ekki einhverri væntanlegri eða breyttri. Það veit enginn hvort henni verður nokkurn tíma breytt. Það er að þessari stjórnarskrá með þessum ákvæðum nákvæmlega sem við höfum svarið eið. Ef hv. þingmenn ætla að leyfa sér að koma með þingsályktunartillögu sem leggur til að framkvæmdarvaldið brjóti stjórnarskrána … (RR: Mótmæli.) Ég vil spyrja hv. þingmann sem löglærðan mann hvort þetta sé ekki í rauninni brot á stjórnarskránni sem menn hafa verið uppteknir af að leiðrétta á liðnum árum. Þegar Hæstiréttur dæmdi í öryrkjadómnum eða kvótadómnum að lög brytu stjórnarskrá þá flýtti hv. Alþingi sér að breyta lögunum þannig að þau samrýmdust stjórnarskrá.