137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef gaman af því að taka þátt í umræðum um Evrópusambandið. Fyrir mér er þetta nokkur upprifjun frá því að ég tók þátt í mjög miklum umræðum um þetta á sínum tíma. Það var sérstaklega á þeim tíma sem mikil umræða var ekki aðeins um aðkomu Íslands að þessu heldur var ég svo lánsamur að vera í alþjóðasamtökum, nánar tiltekið Evrópusamtökum ungra hægri og miðflokka á þeim tíma þegar Svíar og Finnar voru að setja sig í stellingar að fara inn og fleiri þjóðir. Þá var mjög mikið rætt um Evrópusambandið og hlutverk þess. Mér finnst það að vísu hafa vantað í umræðuna í dag og í umræðuna almennt, ég hef varla heyrt að menn ræði um Evrópusambandið, hvað það er og til hvers það var stofnað og hvert það gæti þróast.

Á þeim tíma man ég að þá ætlaði enginn ungur stjórnmálamaður í þessum löndum að bjóða sig fram til þjóðþings, allir ætluðu á Evrópuþingið því þar yrðu stóru ákvarðanir teknar en þjóðþingin yrðu einhvers konar héraðsþing þar sem menn tækju smærri ákvarðanir sem sneru að löndunum sem mundu fljótt verða að einhvers konar ríkjum ekki ósvipað eins og í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Það er auðvitað þannig þegar menn skoða sögu Evrópusambandsins — og Evrópusambandið er mjög merkilegt fyrirbæri — þá er það til komið af góðu. Það er til komið vegna þess að bara á síðustu öld var tvisvar slíkur ófriður í álfunni að hann leiddi til heimsófriðar. Eftir þær hörmungar settust menn niður og reyndu að finna leiðir til að það yrði friðsamt í álfunni um alla framtíð. Niðurstaðan varð sú að menn lögðu það á sig eftir nokkrar atrennur að fara í nánara samstarf á milli Evrópuríkja. Fyrst í stað voru þetta Benelux-löndin, Belgía, Holland og Lúxemborg, ásamt Frakklandi, Vestur-Þýskalandi og Ítalíu. Það var alveg skýrt að markmið þeirra aðila sem um þetta véluðu, var að hafa náið samstarf á milli ríkjanna til að viðhalda friði. Í rauninni er það svo að sameiginlegi markaðurinn og sameiginlega landbúnaðarstefnan, og menn deila um það hvort sameiginlega sjávarútvegsstefnan hafi þá dottið inn óvart eða sökum þess að sjávarútvegsmálin eru svo lítill partur af efnahag þessara ríkja og eru vanalega inni í landbúnaðarráðuneytunum eða hvort þetta var áætlun de Gaulle vegna þess að hann reyndi hvað hann gat að halda Bretlandi fyrir utan Evrópusambandið og bara sem varnagla fór sjávarútvegsstefnan þar inn þannig að Evrópusambandið getur þá náð yfir fiskveiðilögsögu Breta. En það er kannski ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að menn lögðu af stað í þessa vegferð til að viðhalda friði í álfunni og það hefur gengið eftir, að vísu ekki bara vegna Evrópusambandsins heldur hefur svo sannarlega líka Atlantshafsbandalagið og hugsanlega Sameinuðu þjóðirnar og ýmislegt annað stuðlað að því að menn hafa náð þeim árangri sem sagan segir okkur að er alls ekki sjálfsagður.

Umræðan um Evrópusambandið núna hefur verið afskaplega lítið á þennan veg á Íslandi og ekki einu sinni hjá fræðimönnum. Nú eru fræðimenn mjög uppteknir af Evrópusambandinu og ég verð að segja að mér finnst þeir vera helst til uppteknir vegna þess að ég tel það vera vanda í okkar litla landi og ég er að vonast til að við séum að læra af því en það er ákveðin hjarðhegðun í mjög mikilvægum þáttum þjóðfélagsins. Það er oft og tíðum í fjölmiðlunum, akademíunni, svo sannarlega í stjórnmálunum að menn komast í rauninni að einhverri niðurstöðu og ræða um málið innan einhvers ramma. Mér finnst það nákvæmlega vera uppi í t.d. akademíunni þar sem menn ættu í rauninni að ræða fleiri þætti sem snúa að hagsmunum Íslands hvort það séu raunhæfir fleiri möguleikar. Sömuleiðis væri æskilegt að menn mundu ræða það hvar Evrópusambandið er og hvert það mundi þróast en það hefur farið afskaplega lítið fyrir þeirri umræðu. Þess í stað og það sést kannski best þegar maður skoðar ræður utanríkisráðherra við framlagningu þessa máls, ræðu forsætisráðherra, ræðu formanns utanríkismálanefndar þá er varla vikið að þessum þáttum, þ.e. fyrir hvað þetta Evrópusamband stendur og hvert það stefnir. Þess í stað er í rauninni eingöngu rætt um praktíska hluti sem snúa að Íslandi og það er eins og menn séu að fjárfesta í einhverjum hlut og hvort hér sé um að ræða góð kaup eða ekki. En málið er auðvitað miklu stærra en svo.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara yfir t.d. atriði sem eru mjög mikið rædd innan sambandsins. Þar er hart tekist á um það, ekki bara á Evrópuþinginu heldur í umræðum þeirra landa sem eru í Evrópusambandinu, sem er alla jafnan kallað lýðræðishallinn. Það vísar þá sérstaklega til þess að þegar til Evrópusambandsins er stofnað þá teikna menn þetta ekki upp eins og ríki af því að Evrópusambandið er ekki ríki. Hins vegar eru mjög öflugir aðilar innan þess og má færa full rök fyrir því að þeir sem voru hugmyndafræðingar Evrópusambandsins hafi stefnt í þá áttina enda hefur þetta mörg einkenni ríkis. T.d. mundi ég segja að tollabandalagið væri ein afleiðing þess en þannig er málum fyrir komið að ef Ísland gengur í Evrópusambandið mundi gilda það sama með þá hluti eins og hjá öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins að við sæjum þá ekki lengur um okkar utanríkisviðskipti. Þau væru þá á vettvangi Evrópusambandsins sem gerir alla viðskiptasamninga fyrir hönd allra þjóðríkjanna. Allir tollar eru sameinaðir innan svæðisins, þ.e. ef ríki flytur inn vöru inn í eitthvert ríki Evrópusambandsins þá er sama regla í því ríki eins og öllum hinum.

Á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar t.d. hefur Evrópusambandið haldið algerlega utan um viðskiptamálin fyrir hönd allra ríkjanna. Sambærilegt, þótt það sé ekki það sama, á við í umhverfismálunum að það er Evrópusambandið sem heldur utan um málefni allra ríkjanna á vettvangi Kyoto-samninganna sem svo eru kallaðir. Það hefur leitt til þess að Evrópusambandið — og það á sér líka sögulegar rætur — hefur ekki verið því fylgjandi eða í forsvari fyrir því að auka viðskiptafrelsi í heiminum sem slíkum. Áhersla Evrópusambandsins hefur fyrst og fremst snúið að innri markaði og það hefur margoft verið gagnrýnt fyrir það að halda öðrum ríkjum fyrir utan sína markaði. Fátæk ríki hafa sérstaklega gagnrýnt þetta og hafa þau nefnt praktísk rök fyrir því. Sambandið hefur í rauninni verið gagnrýnt fyrir að vera svona eins og kallast á ensku „rich men's club“ og viljað halda uppi háum tollum til að vernda framleiðslu Evrópusambandsríkjanna. Þetta hefur m.a. komið fram í því að í þessum sjö eða átta lotum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem áður voru GATT-viðræðurnar, þá hefur Evrópusambandið aldrei haft frumkvæði að neinum þessum lotum. Það er enginn vafi að ef við gengjum í Evrópusambandið þá mundu tollar hjá okkur taka einhverjum breytingum og það yrði jafnvel til þess að tollar á þeim vörum sem eru tiltölulega lágir núna mundu hækka.

Ég nefndi í upphafi að þetta tengdist lýðræðishallanum, að Evrópusambandið er ekki byggt upp sem ríki. Það var alveg eins með Bandaríkin sem voru á sínum tíma í rauninni, menn fóru af stað að vísu miklu fyrr í ferlinu, miklu yngra ríki. Í rauninni eru Bandaríkin bandalag ríkja sem kallast „state“ á enska tungu. Þar teiknuðu menn strax upp eina stjórnarskrá. Það var ekkert sjálfgefið að það mundi takast. Þeir byggðu þetta upp með þeim hætti að t.d. þegar er kosið til löggjafarsamkomunnar á hvert ríki, sama hversu lítið það er, tvo fulltrúa. Hins vegar er kosið eftir hlutfalli íbúa í fulltrúadeildina. Síðan er mikið lagt upp úr því að hafa aðskilnað milli dómsvalds, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Hvað sem mönnum finnst um bandaríska kerfið þá er þetta nokkuð skýrt. Það er hins vegar ekki hægt að halda því fram að þannig sé málum fyrir komið á vettvangi Evrópusambandsins. Gagnrýnin hefur verið mjög í þá veru í fyrsta lagi að völd embættismanna sem enginn kýs og lítið eftirlit er með sé gríðarlega mikið og sömuleiðis að það sé mjög erfitt fyrir kjósendur og íbúa í Evrópusambandinu að hafa beinan aðgang að ákvörðunum eða geta veitt þeim sem taka ákvarðanir aðhald með því að kjósa einhverja aðra. Þá erum við að vísa til þess að það eru í rauninni teknar margar ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins sem svo sannarlega hefur ekki verið fjallað um eða lítið eða ekki á þessum lýðræðislega vettvangi sem við eigum að venjast í hefðbundnum lýðræðisríkjum.

Á sama hátt hefur verið gagnrýnd mjög mikil spilling innan Evrópusambandsins. Ég held að ég fari rétt með það, alla vega síðast þegar ég kannaði það, þá höfðu endurskoðendur Evrópusambandsins, skoðunarmenn reikninga, ekki treyst sér til að skrifa upp á reikninga Evrópusambandsins 11 síðustu ár einfaldlega vegna þess að þeir gátu ekki ábyrgst eða séð hvert stór hluti fjárframlaga Evrópusambandsins fór. Þá er sérstaklega vísað til hinna ýmsu styrkja. Sannarlega eru í þessu stóra batteríi, sem menn gagnrýna að sé langt frá kjósendum, margar hirslur og ýmsar leiðir fyrir aðila til að ná sér í fjármuni ef þeir hafa til þess þekkingu.

Síðan hefur verið tekist mjög á um það hvernig menn skuli leysa þessa hluti. Annars vegar eru þeir sem hafa verið kallaðir sambandsríkjasinnar sem hafa ýtt á það að yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins verði aukið. Þeir gera það í nafni lýðræðis, segja að það sé hreinlegasta leiðin til að hægt sé að veita þeim sem fara með völdin aðhald, þ.e. að menn teikni þetta hreint upp ekki ósvipað og Bandaríki Norður-Ameríku. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þessa veru. Síðast var það stjórnarskráin og í kjölfarið Lissabon-sáttmálinn sem er enn þá í staðfestingarferli, áður Maastricht og Nice og slíkir sáttmálar sem allir eiga það sameiginlegt að auka völd Brussel-valdsins og færa sambandið í átt að sambandsríki. Allir þessir sáttmálar og þessar tilraunir eiga það sameiginlegt að hafa farið illa ofan í ríki og viðkomandi þjóðir sambandsins og hafa oftar en ekki verið felldir jafnvel hjá þeim þjóðum sem hafa gengið hvað lengst í samrunaferlinu. Er ég þá að vísa til viðhorfa þessara þjóða og stjórnmálamanna viðkomandi ríkja.

Það er mjög áhugavert og hollt fyrir þingmenn og forustumenn og þá sem vilja kynna sér þessi mál að tala beint við þá aðila sem um þessa hluti véla. Evrópusambandsþingið er þannig uppbyggt að eftir stækkunarferlið verða þar held ég 750 þingmenn eða 755 þingmenn, eitthvað þar um bil. Þar skiptast þingmenn í flokka eftir þessum hefðbundnu leiðum, það eru mið- og hægri flokkar sem eru í einum hópi, það eru sósíaldemókratar, það eru miðjuflokkar. Þetta er ekkert ósvipað fjórflokknum eins og á Íslandi. Flestir þeir sem eru á Evrópuþinginu eru þess fylgjandi að auka völd þingsins og minnka þar af leiðandi völd þjóðríkjanna.

Það hefur hins vegar gerst að það er nokkuð mikil gerjun í þessu sem hefur leitt af sér t.d. að breski íhaldsflokkurinn hefur sagt skilið við mið- og hægri flokka grúppuna og hefur myndað annan þingmannahóp sem eru nokkuð miklar fréttir. Gerðist þetta í kjölfar forustuskiptanna þegar David Cameron tók yfir og tók þá línu en það hafa verið miklar deilur almennt. Ég veit að vísu ekki hvernig það er hjá sósíaldemókrötunum en í það minnsta í mið- og hægri flokkunum hafa verið mjög ólíkar skoðanir innan þeirra hópa sem ég þekki á milli Mið-Evrópuríkjanna og þessara stofnaðila Evrópusambandsins annars vegar og Breta hins vegar. Hefur það þá aðallega verið á þann veginn að þessir hefðbundnustu kjarnar ríkja hafa viljað auka vald Brussel-valdsins á meðan Bretar og síðan líka mörg Austur-Evrópuríki vilja reyna að minnka eða halda þeirri þróun niðri.

Síðan eru mjög margir hlutir sem er hægt að ræða en það er erfitt að gera í þessari stuttu ræðu. Það hafa verið færð rök fyrir því að það sé gott að hafa Evrópusamband vegna þess að innan Evrópu — bæði innan Vestur- og Austur-Evrópu — eru mikil átök milli þjóðernisbrota innan ríkja þó svo það sé ekki áberandi í heimspressunni. Til dæmis get ég nefnt Baska á Spáni. Við getum sagt að í Bretlandi hafi bæði Skotar og jafnvel Walesbúar hafi miklar skoðanir á eigin sjálfstæðismálum. Menn hafa séð þetta sem lausn. Svo eru auðvitað ýmis þjóðabrot sem eru í hinum ýmsu Evrópuríkjum og þetta á sér allt sögulegar skýringar. Menn hafa litið á Evrópusambandið sem lausn á þessu, þ.e. það sé auðveldara t.d. fyrir Skota og Baska að sætta sig við vald Evrópusambandsins í staðinn fyrir í þessu tilfelli Spánarvaldið eða Madrídarvaldið eða Lundúnavaldið.

Fyrir þá aðila, alveg sama hvar viðkomandi land er, þá kemur þróun í tengslum við þessa hluti því landi við. Svo sannarlega höfum við nú þegar orðið fyrir áhrifum af því að taka þátt í Evrópusamstarfi. Það má nefna sameiginlega evrópska markaðinn, Evrópska efnahagssvæðið í tengslum við framboð vöru og þjónustu og reglum sem því viðkemur. Við sem erum nú í þingsalnum, sem eru ekki mörg, erum öll á þeim aldri, held ég, að við unnum t.d. sumarvinnu og byrjuðum mjög snemma. Ég bar t.d. út Þjóðviljann þegar hæstv. utanríkisráðherra var ritstjóri þess blaðs og kom því samviskusamlega til þeirra alþýðubandalagsmanna og annarra sem keyptu Þjóðviljann í Borgarnesi. Ég held að ég hafi verið 10 ára gamall þegar ég byrjaði að bera út leiðara Össurar Skarphéðinssonar. En núna er 10 ára börnum bannað eftir því sem ég best veit að stunda slíka iðju og það hefur verið mjög hert á því t.d. hvernig börn og unglingar fái að vinna. Ég er ekki viss um að sú breyting hafi verið til góðs þó svo að (Gripið fram í.) færa megi full rök fyrir því að ég hafi rétt svo sloppið fyrir horn með því að stunda þessa iðju að bera út blað hæstv. núverandi utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar. Það slapp fyrir horn.

Virðulegi forseti. Loksins vaknaði hæstv. utanríkisráðherra. Ég er búinn að fara gaumgæfilega yfir feril minn sem blaðbera við Þjóðviljann. Ég var ekki aðeins blaðberi Þjóðviljans heldur líka umboðsmaður og það er lengri saga sem ég ætla ekki að rekja í þessari ræðu en ég hef það mér til afsökunar að ég var 10, 11 eða 12 ára gamall. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við sjáum hins vegar svo ég fari aftur inn á almennar hugleiðingar um Evrópumálin, þá sjáum við eins og hér hefur verið rætt, hér var rætt að Evrópusambandið eyddi meira en Coca Cola í að kynna sína vöru. Þá hefur verið unnið mjög mikið í því að búa til sameiginlega evrópska vitund, eins og það er kallað. Við erum að sjá evrópskan fána sem er með 15 stjörnum. Stjörnunum var alltaf fjölgað eftir því sem aðildarríkjunum fjölgaði en menn ákváðu að stoppa við 15 og fyrirmyndin augljóslega frá Bandaríkjunum. Menn hafa búið til einhvers konar þjóðsöng fyrir Evrópusambandið sem er 9. sinfónía Beethovens og síðan erum við með merki Evrópusambandsins víðs vegar. Og ég held að sé einsdæmi en ef Evrópusambandið styrkir einhverja hluti þá er mikið lagt upp úr því að sýna það með einhverjum veglegum hætti til að bæta ímynd sambandsins en ímynd sambandsins meðal íbúa aðildarríkjanna hefur versnað mjög á undanförnum áratugum. Bæði hefur ímyndin versnað og sömuleiðis hefur kosningaþátttaka í kosningum til Evrópusambandsins minnkað mjög. Ein af ástæðunum er sú að menn hafa í aðildarríkjum sambandsins þegar erfið mál hafa verið annars vegar þá er reynt að ýta þeim til Evrópusambandsins til að geta sagt að þetta sé ekki í þeirra verkahring, þetta sé í verkahring Evrópusambandsins.

En hvernig snýr þetta að Íslandi? Ef við einföldum hlutina má í rauninni segja að það sem snýr mest að Íslandi praktískt er hin sameinaða landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna, það eru gengis- og gjaldeyrismálin og það er áhrif Íslands og síðan kostnaður við þátttökuna. Ég mundi segja að þessir fjórir þættir skiptu mestu máli í hugum flestra.

Ég ætla að vekja athygli á bók sem allir þingmenn hafa fengið. Hún heitir Inni eða úti? Aðildarviðræður við Evrópusambandið eftir Auðun Arnórsson og gefin er út af Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki. Þar, virðulegi forseti, á bls. 25, í kafla sem heitir „Framkvæmd aðildarviðræðna“, segir, með leyfi forseta:

„Séð frá bæjardyrum Evrópusambandsins snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins (á vettvangi ESB tíðkast að vísa til þessa alls í heild undir heitinu „acquis“ upp á frönsku.“ — Ég ber þetta örugglega ekki rétt fram, virðulegi forseti. — „Í reynd er þó alltaf eitthvert svigrúm til að sýna sveigjanleika; oft er samið um sérstaka aðlögun að tilteknum reglum ESB, tímabundnar undanþágur og sérlausnir.“ — Ég endurtek: „tímabundnar undanþágur og sérlausnir.“

Það er bara ekki þannig, virðulegi forseti, að við breytum Evrópusambandinu. Við göngum í Evrópusambandið og alveg sama hvaða hug einstök aðildarríki bera til okkar, þannig er málum fyrir komið. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, svo ég vísi í persónulega reynslu, þá var það sem hafði kannski mest áhrif á mig að heyra breskan þingmann sem var úr sjávarútvegskjördæmi — og þau eru ekki mörg í Bretlandi — tala um sjávarútvegsmálin. Hann sagði: Mesta breytingin liggur í því að þegar kjósandi kemur til mín og kvartar undan sjávarútvegsmálunum þá verð ég að segja við viðkomandi einstakling: Þú getur ekki talað um þetta við mig, þú verður að tala um þetta við Evrópuþingmann. Bara svo við setjum þetta í eitthvert samhengi, því alveg það sama mundi gilda um okkur og um Breta og aðrar þær þjóðir sem eru aðilar að Evrópusambandinu, þá væri það þannig að einhver kæmi til hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar eða hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar eða einhvers annars til að ræða um sjávarútvegsmál, þá þyrfti viðkomandi þingmaður, íslenski þingmaðurinn, að vísa á íslensku Evrópuþingmennina sem eftir því sem ég best veit yrðu 5 af 750. Auðvitað felst í þessu mjög mikil breyting.

Það er auðvitað hins vegar þannig að því hljóta að fylgja kostir að ganga í Evrópusambandið og margir hafa bent á gjaldeyrismálin og sömuleiðis vilja margir meina að áhrif Íslands á ákvörðunartöku muni aukast ef við göngum í Evrópusambandið. Nú hefur enginn erlendur þingmaður sagt við mig alla vega eða beitt þeim rökum að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið vegna þess að við högnuðumst á því. Það er mikið í umræðunni hér en margir hafa hins vegar sagt: Við verðum að koma inn vegna þess að það dugir ekki fyrir okkur bara að njóta þess góða. Við þurfum líka að takast á við það að borga í hina sameiginlegu sjóði bandalagsins í alla þá uppbyggingu sem þar er í gangi. Við séum svokallaðir „free riders“ og það sé lítil sanngirni í því og við þurfum að axla byrðar eins og aðrar þjóðir. Nú er það samt sem áður svo að við Íslendingar borgum í sameiginlega sjóði, við borgum í þróunarsjóðina og í raun er það þannig að þegar við gengum í EES gengumst við við því að gera það tímabundið en það er alltaf framlengt að kröfu Evrópusambandsins og við höfum þurft að lúta því og það er kaldhæðnislegt að við erum enn þá að greiða einhvers konar þróunaraðstoð fyrir Spánverja, Portúgala og Grikki. Nú verð ég að segja eins og er að mér finnst í sjálfu sér sanngjarnt að við reynum að aðstoða hin nýju ríki Austur-Evrópu sem eru sárafátæk og koma til móts við þau, en þessi Evrópuríki sem ég nefndi, ég átta mig ekki á því hvaða sanngirni er í því að við Íslendingar séum að greiða til þeirra.

Það er hins vegar atriði sem lítið hefur verið rætt að það er þannig að það fer í taugarnar á forustumönnum Evrópusambandsins, og menn skyldu ekki vanmeta þann þátt, fer í taugarnar á þeim sem eru í forustu fyrir Evrópusambandið, embættismenn og pólitíkusa að þjóðir í Evrópu séu fyrir utan. Ég fæ það oft á tilfinninguna að þeir líti svolítið á okkur, svo ég vitni í heimsbókmenntirnar, eins og Rómverjarnir litu á Gaulverjana í Ástríksbókunum. EFTA-ríkin eru einhvern veginn fyrir utan og hafa komist upp með það meðan ESB-ríkin standa í allri þessari að því er þau telja uppbyggingu og stofnanavæðingu allri og eru að byggja. Margir gera þetta með sameiginlegan draum að leiðarljósi en þá eru bara einhverjir Norðmenn og Íslendingar og Liechtensteinar sem átta sig ekkert á mikilvægi þessa, eru einir sér og sjálfstæðir og oftar en ekki bara með gorgeir. Það hefur áhrif, við skyldum ekki vanmeta það, virðulegi forseti.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við ræðum þessi mál og ég held að þjóðinni, þótt það sé kannski ekki sérstaklega mikið núna eðlilega, það er annað sem brennur á þjóðinni, en svo við hugsum í stærra samhengi þá sé mikilvægt að fólk fái útrás fyrir það að fara yfir þessi mál, fólk vill fá upplýsta umræðu og skoðanaskipti og upplýsingar. Ég verð hins vegar að segja, virðulegi forseti, að í svona stærra samhengi finnst mér í besta falli að við séum að sýna einhvern utanríkispólitískan barnaskap með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu á sama tíma og við erum í hinum harðvítugustu deilum sem við höfum átt í við nokkrar þjóðir í okkar sögu. Við erum að bera þessa Icesave-deilu saman við landhelgisdeilurnar og ekki að ástæðulausu. Það ber ekki mikið á milli hvorir hagsmunirnir eru meiri. Í örstuttu máli er það þannig að við teljum, held ég allir Íslendingar, að við höfum verið beittir ákveðnum órétti, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og ég held að flestir séu sammála því sem þetta skoða að okkur sé ætlað að greiða reikninginn fyrir því að halda uppi einhvers konar trúverðugleika innstæðukerfis sem Evrópusambandið setti á laggirnar.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi barátta sé ekki búin og ég vonast til þess að allir þingmenn séu mér sammála í því. Ef við förum hins vegar til deiluaðilans og segjum: Við viljum fá að vera með, þá erum við að gefa þau skilaboð að það sé í lagi hvernig hefur verið komið fram við okkur. Evrópusambandið hagar sér örugglega ekki með þessum hætti. Nú var lítil frétt í íslensku pressunni um daginn, í íslenskum fjölmiðlum þar sem sagði frá því að Evrópusambandið sendi Króatíu heim. Króatía var sest niður til að semja við Evrópusambandið um aðild landsins. Króatía á í landamæradeilum við Slóveníu. Nú veit ég ekkert hvort þær eru stórar eða litlar en þær virðast alla vega vera algerlega friðsamar. Skilaboðin frá ESB voru alveg skýr: Farið þið heim. Við látum þetta ekki viðgangast og við tölum ekki við ykkur meðan þið eruð í deilum við eitt Evrópusambandsríki. Virðulegi forseti, ef hæstv. utanríkisráðherra nær sínu fram þá komum við og segjum: Jú jú, þetta er allt í lagi hvernig þið eruð að ganga fram í Icesave. Við látum allt yfir okkur ganga. Það eru skilaboðin, virðulegi forseti. Ég fullyrði að ekkert ríki mundi haga sér svona.

Þegar við skoðum þetta í þessu samhengi hef ég oft hugsað um það, af hverju voru Icesave-samningarnir kláraðir núna? Af hverju voru þeir kláraðir fyrir mánuði síðan? Í umræðum sem oft eru heitar hefur hæstv. fjármálaráðherra upplýst að það sé einhver dagur sem skiptir máli, sem sé í lok október, og vísað til þess að þá verði lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum afgreitt. Í samningsviðmiðunum sem Ísland undirgekkst ásamt deiluaðilunum kemur fram að tekið sé tillit til þess að Ísland geti unnið sig út úr þeirri efnahagskreppu sem við erum í og það er sérstaklega tekið tillit til þess að ef deiluaðilum gangi illa að ná saman séum við með stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins sem mundu ganga inn í það mál. En einhverra hluta vegna, virðulegi forseti, var á miklum hraða gengið frá þessu máli fyrir mánuði síðan. Sérkennileg tilviljun. Það gerir það að verkum ef allt hefði gengið upp og það mál væri frá gætu menn farið í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Mín niðurstaða er sú, og væri fróðlegt að heyra sjónarmið annarra, að Samfylkingin hafi lagt á það ofuráherslu að klára Icesave, sama hvað það kostaði, virðulegi forseti, klára Icesave, sama hvað það kostaði, hratt, ekki seinna en fyrir mánuði síðan til að hægt væri að klára þetta eina stefnumál þeirra.

Virðulegi forseti. Þessi pressa Samfylkingarinnar hefur reynst þjóðinni mjög dýr sökum þess að afleiðingin er sú að við sitjum uppi með þann samning sem við öll þekkjum. Jafnvel þótt við ýtum þessu frá, ýtum þætti Samfylkingarinnar frá og því að þeir voru að keyra í gegn þennan samning til að geta samið um Evrópusambandið, þá bara að fara í aðildarviðræður við ESB sem hefur öll gögn málsins við alla umræðu hvers einasta þingmanns, sérstaklega þeirra sem eru hvað mest fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið, þá gengum við alltaf út frá því að fá Evrópusambandið til að gangast að okkar kröfum. Menn hafa rætt hér og verið með stórar yfirlýsingar að við þurfum að fá sérstaka meðferð varðandi sjávarútvegsmálin og hina og þessa þætti. Er þá skynsamlegt að tala við Evrópusambandið og bæta Icesave ofan á? Er það góð staða fyrir okkur að setjast við samningaborðið og vera með auðlindirnar, sjávarútvegsmálin, áhrifin og hvað þetta heitir allt saman og vera að auki að semja um Icesave? Halda menn virkilega að þeir fái meira út úr því að ræða þetta allt saman í einu? Halda menn það virkilega? Að sjálfsögðu ekki.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að þegar við erum að gera upp hlutina held ég að eitt af því sem við ættum að læra er að við höfum ekki mikla reynslu af utanríkismálum. Hámarkið var kannski það þegar við sóttum um aðild að öryggisráðinu. Ég heyrði helstu sérfræðinga landsins á því sviði fara yfir það og hugsaði í korter um öll þau lönd sem ætluðu að greiða okkur atkvæði og ég gat ekki séð miðað við það að það væri nokkur einasta leið að tapa þeirri atkvæðagreiðslu. Við lögðum mikla áherslu á að efla samskipti okkar við Afríkuríki og má í rauninni segja að við höfum lagt meiri áherslu á samskiptin við Afríku en Bandaríki Norður-Ameríku sem er kannski eina stórveldi heimsins. Gott ef við ætluðum ekki að miðla málum milli Palestínumanna og Ísraelsmanna þegar hæst lét. En við erum 300 þúsund manna þjóð og hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við nokkuð sem er kallað smáríki og við verðum að miða hlutina út frá því. Ég tel og segi það að þó svo að það væri mitt aðalmarkmið í lífinu að Ísland mundi ganga í Evrópusambandið þá mundi ég aldrei leggja til að það yrði gert á þeim tíma sem Evrópusambandið og forusturíki þess koma fram við okkur eins og raun ber vitni í Icesave-málinu. Við erum að gefa þau skilaboð til þessara ríkja að við séum sátt við það hvernig komið hefur verið fram við okkur ef við í kjölfarið leggjum fram aðildarumsókn. Það er staðreynd og það þýðir ekki að skilja á milli þessara mála, ekki frekar en Evrópusambandið gerir þegar kemur að aðildarumsókn Króatíu því þeir segja við það land, þó svo að það tengist aðildarviðræðunum ekki neitt, að það dugi ekki fyrir þá að vera í deilum við Evrópusambandsríki á sama tíma og þeir ætla að sækja um aðild. Það eru mjög skýr skilaboð.

Virðulegi forseti. Ég mun ræða þetta betur í þessari umræðu. Þetta er bara örlítil upphitun af minni hálfu enda er afskaplega mikilvægt að ræða þessi mál mjög vel.