137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla hér aðeins að fara enn á ný yfir meirihlutaálitið, yfir skoðanir mínar á því og hvers vegna ég tel að Framsóknarflokkurinn hafi samþykkt að setja ákveðin skilyrði fyrir viðræðum.

Ég vil þó byrja á því að segja að ég tel að það sé bein tenging milli Icesave og aðildarumsóknar að Evrópusambandinu og að þau leynigögn sem eru hér handan við Austurvöll sýni það. Niðurstaða mín er sú að ef við hlýðum í Icesave muni Bretar ætla að hjálpa okkur varðandi Evrópusambandið. Mér finnst það einfaldlega of dýr aðstoð sem er verið að kaupa með því.

Hvers vegna skyldi nú Evrópusambandið hafa svona mikinn áhuga á Íslandi? Það hefur komið fram í fyrr kvöld að það er trúlega vegna náttúruauðlinda og legu landsins sem Evrópusambandið hefur áhuga á Íslandi. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna hér í grein í Morgunblaðinu 7. júní, þar sem er vitnað í viðtal við Michel Rocard, fyrrv. forsætisráðherra Frakka, sem tekið hefur að sér að vera sendiherra Frakka gagnvart heimskautunum. Hann segir, þessi ágæti maður, í viðtalinu:

„Framtíð norðurskautsins varðar allt mannkyn, enda er talið að 25–30% af gas- og olíuauðlindum heimsins liggi undir ísnum. … Ef þessar orkulindir yrðu nýttar, þá gæti það magnað verulega gróðurhúsaáhrifin, og það er eitt af því sem margir vísindamenn óttast.“

Þarna er hann með hálfgerð öfugmæli og er að rökstyðja í raun ástæðuna fyrir því að menn séu að horfa þangað.

Þessi ágæti sendiherra heimskautanna segir einnig, með leyfi forseta:

„Með hlýnun sjávar má gera ráð fyrir að ný fiskimið verði til og að fiskiskipaflotinn fylgi í kjölfarið, … En þarna eru engir vitar, engir björgunarbátar, engin sjúkraþjónusta, engin landamæri og ekkert aflahámark. Áður var siglingaleiðin lokuð frá Evrópu til Japans um nyrsta haf, en nú er sú leið fær nokkrar vikur á ári. Það mun áreiðanlega kalla á aukna umferð.“

Síðan vil ég einnig vitna beint í, með leyfi forseta, orð okkar sérlega ráðgjafa í rannsókn á efnahagshruninu, Evu Joly, sem er nýorðin þingmaður á Evrópuþinginu, ef ég man rétt. Hún segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að frá sjónarhóli Evrópusambandsins sé það mjög áhugavert fyrir okkur að fá Ísland um borð. Þetta er mjög gömul menning og þeir búa við traustar lýðræðishefðir sem myndu styrkja norrænar hefðir um gegnsæi og góða stjórnsýslu. Og þeir eiga einnig náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir Evrópu eins og orku og fisk. Þannig að ég tel að það væri mjög gott fyrir okkur — og einnig fyrir þá — að verða hluti af Evrópusambandinu.“

Ég tel að þarna sé hv. þingmaður og sérstakur ráðgjafi okkar, Eva Joly, að segja nákvæmlega það sem býr að baki því að Evrópusambandið hefur áhuga á að fá Ísland inn, það eru náttúruauðlindirnar. Það sækir í okkar auðlindir og er tilbúið til að ganga ákveðið langt til þess að komast yfir þær en við verðum að átta okkur á því að það eru náttúruauðlindirnar sem skipta okkur mestu máli og eru að mínu viti algjörlega óumsemjanlegar.

Það er algjör tímaskekkja að sækja um nú, ekki bara vegna þess sem ég hef áður sagt heldur einnig vegna þess að staða okkar efnahagslega er slík að það er ekki út í slíka vegferð leggjandi. Það hefur vakið athygli mína að þær raddir eru nánast þagnaðar sem haldið hafa því fram að Evrópusambandið komi trúlega til með að leysa hér ákveðin mál varðandi efnahagsmál og annað. Samfylkingin hélt þessu lengi vel á lofti en hefur nú komist að því að þetta er að sjálfsögðu með öllu rangt.

Ég hef miklar áhyggjur af því að sú ríkisstjórn sem nú situr er ekki einhuga um þessa umsókn og það er mjög varasamt að leggja í slíka vegferð með óeiningu um málið. Þó svo að málið sé slæmt er vont að fara af stað ef ekki er eining um það, ekki síst innan ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að vitna í nokkrar greinar sem ég hef séð þessu til stuðnings. Ég ætla að vitna, með leyfi forseta, í frétt er úr danska viðskiptablaðinu Børsen. Þar kemur fram að meiri hluti 60 helstu hagfræðinga Danmerkur álítur að evran hafi ekki breytt ástandi til batnaðar í Danmörku. Meiri hluti þeirra telur að evran hafi ekki breytt ástandi til batnaðar í Danmörku. Því er haldið fram að evran muni skipta öllu fyrir okkur. Það er vitanlega rétt að setja það í samhengi við gjaldmiðilinn, dönsku krónuna og íslensku krónuna, en þetta er alla vega ekki einhlítt.

Síðan hafa komið upp vangaveltur um þróun Evrópusambandsins. Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, lét þau orð falla nýverið í umræðum í írska þinginu að það væri tímabært að ræða hvers konar Írland væri æskilegt í Evrópusambandinu í stað þess að ræða hvers konar Evrópusamband hentaði Írum best. Ef við snúum þessu upp á Ísland þá er vert að hugsa til þess hvernig Ísland á að vera inni í Evrópusambandinu. Hvað er það sem Evrópusambandið sækist eftir annað en okkar náttúruauðlindir? Hvers konar Evrópusamband hentar Íslendingum best? Evrópusambandið hentar Íslendingum ekki neitt, það er kannski munurinn á Írum og Íslendingum og ég skynja og skil umræðuna í Írlandi og hjá forsætisráðherranum þannig að þetta sé að renna upp fyrir þeim. Að líklega sé mesta gamanið horfið úr þessu Evrópusamstarfi.

Sænsk blöð og sænskir fjölmiðlar hafa fjallað um hvar valdið í raun liggur. Í leiðara blaðsins Göteborgs-Posten 15. apríl eru Svíar hvattir til að taka þátt í kosningum til Evrópuþingsins vegna þess að völdin séu í raun meiri þar heldur en í sænska þinginu. Ætlum við að taka þátt í slíku, að afsala völdum eða fullveldi, sjálfsforræði, Íslands til Evrópusambandsins, eins og margir Svíar telja að hafi verið gert?

Ég er með grein frá 7. júní þar sem Guðrún Magnúsdóttir, sem á meiri hluta í sænsku hugbúnaðarfyrirtæki sem heitir ESTeam AB, varar Íslendinga eindregið við því að fara í þessa vegferð. Samt er hún og hennar fyrirtæki í þeirri stöðu að vinna töluvert mikið fyrir Evrópusambandið

Hægt er að tína til mörg fleiri rök og marga aðila sem hafa talað gegn því að ganga inn í þetta samband ríkja, Evrópusambandið, og erum við þó ekki enn þá farin að ræða það sem okkur skiptir mestu, þ.e. auðlindir okkar og það sem heldur lífinu í Íslendingum, sjávarútveginn, landbúnaðinn og náttúruauðlindirnar.

Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að koma inn á sýn mína út frá stefnu Framsóknarflokksins og ræða þau skilyrði sem sett eru í flokksþingssamþykkt hans. Ég vil segja í upphafi, frú forseti, að í flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins er rætt um viðræður við Evrópusambandið. Ég persónulega geri greinarmun á viðræðum og umsókn. Ég tel að þarna sé verulegur munur á. Því miður eru ekki allir sammála mér en svona gengur það. Verulegur munur er á því að ætla að ræða við einhvern heldur en fara að sækja um aðild að einhverju. Ef við horfum á þetta sem einhvers konar lítinn klúbb þá ferðu og kynnir þér starfsemi borðtennisklúbbsins áður en þú gengur í hann en sendir svo umsókn ef þú telur að það falli þér í geð.

Ég og fleiri framsóknarmenn höfum lagt áherslu á að sett yrðu ófrávíkjanleg skilyrði fyrir samninganefndina til að vinna eftir og það var það sem var samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins. Í ræðustól hefur verið eytt nokkrum tíma í að fara yfir og í raun gera upp flokksþing Framsóknarflokksins og þær umræður sem þar voru og túlka með ákveðnum hætti. Ég tel að nýta hefði átt tímann í ræðustól öðruvísi heldur en akkúrat að fara út í það. Á flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt að fara í aðildarviðræður með ákveðnum skilyrðum. Sá sem hér stendur flutti tillögu um þessi skilyrði, flutti tillögu um að orðinu „leiðum“ yrði breytt í skilyrði. Það er alveg ljóst af skýringum sem ég lét fylgja með tillögunni við hvað er átt. Það sést á myndbandsupptökum, m.a. frá flokksþinginu, við hvað er átt. Enginn fundarmanna, enginn þeirra sem sté í ræðustól hafði aðra skoðun eða vildi gera breytingu á þessari túlkun og þeirri skýringu sem ég flutti þarna. Með skýringartillögunni sagði ég orðrétt: Þetta eru skilyrði fyrir því að fara í þessar viðræður. Hugsunin í þessu er sú að samninganefndin sem fari í þessar viðræður hafi skilyrt umboð, það liggi ljóst fyrir hvaða atriði það eru sem við munum aldrei og ekki vilja frá okkur semja eða semja um með nokkrum hætti og það eru nokkrir þættir sem auðvelt er að telja upp í því sambandi. Það er varðandi landbúnaðinn, varðandi sjávarútveginn, varðandi náttúruauðlindirnar, varðandi sjálfræði okkar eða í raun fullveldi og fleira.

Ég verð í sjálfu sér að viðurkenna að ég hreinlega skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin og sá meiri hluti sem virðist vera fyrir þessu máli hér inni skuli ekki fallast á að setja samninganefndinni skýr skilyrði. Það hvarflar að mér að ástæðan fyrir því sé að menn séu einfaldlega tilbúnir til að semja um allt eða nánast hvað sem er. Það er mjög einfalt að setja slík skilyrði inn í umboð samninganefndarinnar og væri þá hægt að fella það inn í tillöguna sjálfa. Þó að greinargerð með þingsályktunartillögu á Alþingi geti verið og sé eflaust einhvers konar lögskýringargagn þá hefur hún klárlega ekki sama vægi og sama gildi og sé það inni í tillögunni. Sé það meitlað inni í tillöguna væri alveg ljóst hvert umboð samninganefndar væri og þeirra sem munu stýra þar á bak við tjöldin. Við skulum ekki láta okkur detta í hug að það verði ekki gert, það verði ekki einhverjir aðilar, stjórnmálamenn eða einhverjir aðrir, sem sitja á bak við tjöldin, bak við samninganefndina og togi hana til og frá eins og þurfa þykir hverju sinni.

Í svona stóru máli þarf að senda skýr skilaboð. Það hafa nú þegar komið fram athugasemdir við meirihlutaálitið sem ég mun fara aðeins betur í á eftir. En til að halda til haga þeim skilningi sem undirritaður lagði í þessi skilyrði í tillögu sem flutt var á flokksþingi Framsóknarflokksins og þeirri staðreynd að það var enginn sem mótmælti þessari hugsun, þá voru það skilyrði fyrir því að fara í þessar viðræður.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar er vítt og breitt farið yfir marga hluti. Greinargerðin er ítarleg og í rauninni vel unnið plagg. Það verður ekki af þeim tekið sem unnu hana, það ber að þakka. Þar er ágætis samantekt og upplýsingar en það sem vantar í þessa greinargerð er það sem mestu skiptir og það eru skýr skilaboð, skýr markmið, það eru skilyrði, það er að kveða á um hverju við erum ekki tilbúin til að fórna. Erum við virkilega tilbúin til að fórna sjálfstæði landsins?

Við höfum staðið í baráttu í tæpt ár, frá því í október á síðasta ári, í raun fyrir því að tryggja sjálfstæði þessa lands. Það vildi svo undarlega til að ég, þessi Evrópuandstæðingur, var staddur í Brussel 8. október, þegar allt gekk yfir og það var að mörgu leyti sérkennileg lífsreynsla að vera staddur á þeim vettvangi þegar það gerðist. Seinna þennan dag vorum við á samkomu eða fundi þar sem ágætur Íslendingur flutti góða ræðu og gaf okkur sem þarna vorum þetta merki sem ég er með í barminum, þetta er Ísland, gyllt Ísland, og sagði okkur að bera þetta merki með stolti og muna hverrar þjóðar við værum. Muna fyrir hvað við stæðum, fyrir hverja við hefðum barist. Ég hef reynt að bera þetta merki eins og ég get, í upphafi var það vegna þess atburðar sem átti sér stað 8. október 2008. En frá flokksþingi Framsóknarflokksins, eða miðstjórnarfundi fyrir það flokksþing, hef ég líka borið þetta merki til að undirstrika að Ísland er fullveldi og sjálfstætt ríki og á að halda því áfram. Við eigum ekki að fórna okkar stóru hagsmunum fyrir óljósa hagsmuni, eitthvað sem okkur er talin trú um að bíði okkar við inngöngu í Evrópusambandið.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan hafa komið fram gagnrýnisraddir á þetta meirihlutaálit frá hagsmunaaðilum og ég ætla að fara aðeins yfir greinargerð sem er á vef Bændasamtaka Íslands þar sem farið er yfir landbúnaðarkaflann í þessari greinargerð. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þó lögð sé áhersla á mikilvægi íslensks landbúnaðar í umsögn nefndarinnar er vart hægt að segja að slegnir séu þeir varnaglar sem veitt geti landbúnaðinum skjól ef til aðildar kæmi. Farið er orðum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar í matvælaframleiðslu, byggðatengd sjónarmið og umhverfisþætti en ekki er hægt að sjá að í neinu tilfelli sé gengið svo langt að setja fram skýlausar kröfur um niðurstöðu aðildarviðræðna til varnar landbúnaði.“

Þá segir einnig: „Bændasamtökin hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á að tollverndin sé landbúnaðinum í það minnsta jafnmikilvæg og stuðningur ríkisins við búgreinarnar. Falli tollvernd niður má því leiða líkum að því að íslenskur landbúnaður hlyti þung högg sem valda mundu því að hann legðist af í þeirri mynd sem er í dag.

Í umsögn meiri hluta nefndarinnar er hvergi fjallað um mikilvægi starfa tengdum íslenskum landbúnaði …“

Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að átta mig á því í þessari greinargerð. Þetta er mjög sérstakt og alvarlegt mál að ekki skuli vera fjallað um þetta því að hér kemur fram að: „Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá síðasta vetri hafa tíu þúsund manns beina atvinnu af íslenskum landbúnaði …“ Það er hvergi minnst á úrvinnslugreinar t.d. í þessu meirihlutaáliti sem eru einn af lykilþáttum okkar matvælaöryggis og þess að við séum í raun sjálfbjarga varðandi matvæli. Með leyfi forseta ætla ég að halda aðeins áfram:

„Velta má fyrir sér hvers vegna ekki er sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði að Ísland allt verði skilgreint sem harðbýlt svæði og að landið allt fái norðurslóðastuðning.“ Það er nefnilega ekki gert í þessari greinargerð. Síðan er lokatilvitnun:

„Þau rök hafa ekki verið hrakin og ljóst má vera að umsögn meiri hluta utanríkismálanefndar fer víðs fjarri því að tryggja að hagsmunum landbúnaðar verði borgið í aðildarviðræðum, ef til þeirra kemur.“

Ég held að þessi síðustu orð segi allt sem segja þarf í raun um þessa greinargerð. Greinargerðin og meirihlutaálitið eru ágætissamantekt á upplýsingum og einhverju sem stefnt skal að, miða skal við, vilji er til og eitthvað slíkt en það eru engin skilyrði í þessu sem í raun halda eða skipta máli, hvort sem það varðar landbúnað eða annað. Þessi lokasetning, sem er á vef Bændasamtakanna, í umfjöllun um þetta nefndarálit, þ.e. landbúnaðarkaflann, á að mínu viti við um allar aðrar greinar í þessu meirihlutaáliti. Það er ekki hægt með tilliti til hagsmuna Íslands að samþykkja þá tillögu sem meiri hlutinn leggur hér fram.