137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðari spurninguna sem hv. þingmaður beindi til mín, ef ég hef skilið tóninn í ræðu hv. þingmanns er þetta vitanlega mjög undarlegt mál og í rauninni stórfurðulegt, að ætla að ráðstafa milljarði í það minnsta, því að það hefur komið fram í umræðunni í dag að það hafi ekki einu sinni öll ráðuneyti áætlað enn þá hvaða kostnaður hlýst í þeirra ranni og þá er vitanlega alveg út í hött að áætla milljarð króna í einhverjar viðræður sem menn ætla sér svo hugsanlega ekki að fara í.

Þar fyrir utan höfum við fulla þörf á þessum fjármunum í allt aðra hluti hér í landinu, við höfum ekki efni á að eyða þessum peningum akkúrat í dag. En af hverju er verið að keyra málið á þessum hraða hér í gegn og af hverju liggur svona á? Ég hef enga trú á að það sé þessi göfugi Svíi sem öllu ætlar að bjarga fyrir okkur sem er keppikeflið, ég trúi því ekki. Ég held að aðrar ástæður búi að baki, t.d. það að pólitískt líf Samfylkingarinnar hangi á þessu, þetta er þeirra eina mál. Ef það fer ekki í gegn núna hvernig á Samfylkingin að geta horft framan í þá sem enn vilja þó styðja þann flokk — ég held reyndar að það kvarnist úr honum út af öðrum málum en einmitt þessu — hvernig ætla þeir að gera það? Ég held að það sé stóra málið, að þetta sé eina mál Samfylkingarinnar og pólitísk framtíð þess flokks hangir á þessu máli. Ef það næst ekki fram núna munu þeir aldrei ná því fram. Ég held að það sé þeirra mottó í þessu. Þess vegna er þinginu haldið með þessum hætti og hlutirnir keyrðir í gegn.

Mig grunar að ráðamenn þjóðarinnar séu búnir að hengja þessa ESB-umsókn á annað stærra mál sem heitir Icesave, ég held að það spili líka inn í. Ég held að hér þurfi að ljúka ákveðnum tímasetningum, bæði varðandi Evrópusambandið og varðandi Icesave til að stjórnvöld og þá sérstaklega Samfylkingin geti farið róleg heim að sofa.