137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:15]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Að mínu mati og margra annarra erum við að ræða stærsta mál sem komið hefur inn á borð þingsins frá því að við öðluðumst fullveldi því að hluti af því að ganga í Evrópusambandið er að missa hluta af fullveldinu aftur. Því er þetta mál okkur mörgum mjög erfitt og þungt og ég vona að við tökum málið, umræðuna og undirbúninginn að þessu máli öll alvarlega því í mínum huga fylgir því mikil alvara að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu, að ætla sér að ganga inn í Evrópusambandið. Að mínu mati jafngildir það því að leggja inn umsókn um að maður ætli í Evrópusambandið. Maður getur ekki bankað á dyr án þess að ætlast til að dyrnar séu opnaðar og manni hleypt inn. Í mínum huga er því mikill munur á því að fara í könnunarviðræður, kanna og kortleggja það sem hér er lagt til að verði gert hvað varðar umsókn um aðild og fara í þau stóru mál og erfiðustu sem við vitum að hugsanlega strandar á eða verður okkur erfiðast í samningaviðræðunum og láta það duga í bili. Það er mikill munur á könnunarviðræðum og hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu í framhaldi af því, þ.e. hvort við viljum leggja inn umsókn eða því að leggja inn umsókn eins og hér er gert. Með hvorugri þessara leiða get ég mælt í dag þó svo ég geri mér fulla grein fyrir því að mikill þrýstingur hefur verið á það að fara í akkúrat svona könnunarviðræður. Aðildarumsókn — mjög margir rugla þessu bara öllu saman — það er bara að fara og athuga hvað við getum fengið út úr þessu, hvar við stöndum. Það þýðir ekkert að kanna þetta. Það verður að skoða þetta. Við verðum að vita hvað þetta er og hvað við fáum út úr þessu Evrópusambandi og hvort við fáum evruna því að myntin, íslenska krónan, stöðugleikinn er það sem fólk hefur horft til og vonast eftir eðlilega og litið með vonaraugum til Evrópusambandsins og þá aðallega evrunnar, að það væri eitthvað sem gæti hjálpað okkur í þeim óstöðugleika sem hér hefur verið. En það er mikill munur á því að kortleggja þetta og kanna eða því að leggja inn umsókn.

Með hvorugri aðferðinni get ég mælt í dag vegna stöðu okkar í dag, efnahagsstöðu þjóðarinnar og þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir, stóra Icesave-málsins, það að koma okkur út úr þeim himinháu skuldum sem þjóðin er í, ekki bara ríkissjóður heldur þjóðin. Það er verkefni sem við þurfum öll að takast á við og koma okkur út úr og það á sem fæstum árum. Þegar við erum búin núna á þessu sumarþingi að fara í gegnum þær erfiðu ákvarðanir að skera niður í ríkisfjármálum á þessu ári, að undirbúa niðurskurð og sparnað og skattlagningar á næsta ári þá höfum við verið með þetta mál í vinnslu í þinginu, tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem hefur tekið alveg gífurlegan tíma, orku og kraft frá öðrum þingstörfum. Það er ekki svo að ég vorkenni okkur þingmönnum að vinna mikið og leggja mikið á okkur. En mér hefur fundist núna í vor og í sumar að við hefðum átt að einhenda okkur og leggja okkar krafta í allt aðra hluti en þetta núna. Þar að auki vitum við að stuðningur við aðild að Evrópusambandinu gengur þvert á alla stjórnmálaflokka, alla. Það er helst Samfylkingin einn flokka sem hefur nær einróma verið hlynnt aðild. Hugmyndin og hugsanir fólks um það hvort Íslandi sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins mun kljúfa þjóðina af því að þetta er þverpólitískt þannig lagað séð að þetta gengur þvert á alla flokka. Núna þegar við þurfum, til að komast út úr þeim miklu erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir, á samstöðu þjóðarinnar að halda á öllum sviðum — því öðruvísi gerum við það ekki — þurfum að standa saman sem þjóð þá erum við með þetta stóra mál í höndunum sem mun kljúfa þjóðina í með og á móti Evrópusambandinu.

Í þeim miklu erfiðleikum og fjárhagserfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir þar sem horft er á hvert starf, hverja krónu þá mun bara þetta mál, umsóknin ein og sér, vera óhemju dýr og ég leyfi mér að efast um þá greiningu sem kemur fram í nefndarálitinu, þ.e. að ef þetta verður samþykkt og ef við ætlum að standa vel og faglega að umsókninni þá mun hún verða dýr því við eigum við samningsaðila sem eru mjög færir, hafa mikla þjálfun, búa yfir mikilli samningatækni, beita miklum áróðri og kunnáttu í að standa frammi fyrir sínum málum þannig að það er eins gott að við höfum þá jafngilda samningsaðila eða eins færa og við getum til að fara í þessar viðræður ef af verður. Ef þetta mun ekki kosta okkur þeim mun meiri fjármuni í sérfræðinga og mannskap þá þýðir það bara að við munum ekki leggja okkur nægilega fram eða kosta því til sem þarf eða þá að við verðum að leggja til hliðar þau verkefni sem eru inni í ráðuneytunum sem þetta hvílir þyngst á. Akkúrat núna standa ráðuneytin mörg hver í erfiðum verkefnum vegna þess að það hafa verið breytingar á verkefnum nokkurra ráðuneyta og þau eru svona rétt að koma sér í nýjan farveg. Til stendur að breyta enn verkaskiptingu á milli ráðuneyta þannig að þau verkefni bætast ofan á og svo er þetta, að takast á við þetta ferli, þ.e. að fara í umsóknarferlið. Ég horfi bara til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Það verður ekki lítið verkefni sem bíður þess ráðuneytis fyrir utan allt sem snýr bara að því að halda hér öllu á floti. Bara ef við horfum á þessa þætti þá finnst mér þetta algjörlega eins röng tímasetning og hægt er að hugsa sér fyrir utan það að ég tel að við séum ekki í nokkurri einustu samningsstöðu að fara sem þjóð og ætla að semja við þær aðstæður sem við búum við með Icesave-málið eins og myllustein um hálsinn.

Við verðum og ætlum okkur að ná okkur út úr þessum skuldaklafa á fáum árum til að missa ekki efnahagslegt sjálfstæði okkar, segja okkur ekki til sveitar, segja okkur ekki í Parísarklúbbinn heldur halda efnahagslegu sjálfstæði en þá erum við í mjög þröngri samningsstöðu til að standa vörð um þau gildi sem hér hafa verið negld niður og inn í þingsályktunartillöguna og hafa komið fram í breytingartillögum og það sem við vitum að þjóðin vill standa vörð um, um efnahagslögsöguna, um landbúnaðinn, um orkuna, um náttúruauðlindirnar. Verður ekki auðveldara í þessari markaðshyggju Evrópusambandsins — þar er alveg viðurkennt að markaðshugsunin er ríkjandi og frjálst flæði í viðskiptum. Samkeppnishugsjónin ræður ríkjum og það á milli ríkja. Það verður erfiðara fyrir okkur að varðveita eignarhald á auðlindunum þegar skuldastaða okkar er svo erfið að það væri hugsanlega hægt að greiða fyrir eða koma okkur út úr skuldunum með því að selja frá okkur auðlindirnar og orkuna. Erum við ekki viðkvæmari í þessari stöðu að ætla að semja um inngöngu í Evrópusambandið?

Eins og alþjóð veit erum við í ágætis stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna sem hefur haft það á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið. Við aftur á móti í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ekki gert það. Við höfum í okkar stjórnmálasamþykkt eða stjórnarstefnu sem útgangspunkt að okkar hagsmunum sé best borgið utan Evrópusambandsins og höfum ályktað í þá veru á mörgum þingum og ætla ég að lesa stuttan kafla úr stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem snýr beint að Evrópusambandinu. Hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í allt of ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.“

Svo segir um sjálfstæða utanríkisstefnu og félagslega alþjóðahyggju, með leyfi forseta:

„Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi geta sjálf tekið ákvarðanir um lagabreytingar hliðstæðar þeim sem ákveðnar eru innan ESB, ef þau svo kjósa og þá út frá eigin forsendum. Aðild að ESB mundi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum.“

Þessar stuttu klausur í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og texta um sjálfstæða utanríkisstefnu og félagslega alþjóðahyggju eru hrygglengjan í þeim samþykktum sem hafa verið gerðar um Evrópumál á landsfundum. Og hvað varðar ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þá viðurkenna báðar stjórnmálahreyfingarnar mismunandi viðhorf til aðildar sambandsins. Þetta var sem sé niðurstaðan, að það fékk stuðning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að hér yrði lögð fram þingsályktunartillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og að örlög þeirrar þingsályktunartillögu réðust síðan í þinginu í meðferð þingsins. Ég vil í þessu sambandi hrósa hv. formanni utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðssyni fyrir það hversu vel hann hefur haldið utan um störf nefndarinnar enda hefur hann fengið lof frá nefndarmönnum úr öllum flokkum. Hann hefur lagt sig fram um að ná samstöðu um afgreiðslu málsins. Hér liggur fyrir mjög ítarlegt nefndarálit. Þar eru dregin fram samningsmarkmið. Þar er lögð fram aðferðafræði um framgang málsins. Þar er sagt til um það hvernig aðkoma Alþingis eigi að vera og kostnaður. Ég get ekki annað gert en aðrir og hrósa þessari vinnu. Ég tel hana mikilvæga og innlegg í málið ef þessi þingsályktunartillaga verður þá samþykkt.

Það er mjög mikilvægt að hafa þverpólitíska aðkomu að samningaviðræðunum því það er bara svo að ef maður hefur trú eða oftrú á einhverju máli er maður ekki gagnrýninn og þegar lagt er af stað í samningaviðræður og maður hefur miklar væntingar um að ná árangri og ætlar sér að ná takmarkinu þá er mjög auðvelt að leiðast áfram kannski lengra en samningsmarkmiðin eða takmarkanirnar segja manni og auðvelt að misstíga sig í því. Ég lít sérstaklega til þess að samningsaðilar okkar hafa mikla þjálfun. Þess vegna er líka mjög mikilvægt að þarna séu gagnrýnin sjónarmið og gagnrýnir aðilar og mismunandi flokkslínur eða fulltrúar flokkanna sem koma þarna að til að standa vaktina, til að missa nú ekki sjónar á þeim fyrirvörum sem settir eru.

Eins tel ég líka mjög mikilvægt sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að ef af þessu verði og ef farið verður í samningaferlið að byrjað verði á þeim þáttum sem erfiðastir eru og við vitum um þannig að komi í ljós að við getum ekki haldið yfirráðum okkar yfir sjávarauðlindunum, yfir landhelginni, ef það kemur í ljós að við missum rétt okkar sem fullvalda þjóð á að semja um kvóta eða aðgang að landhelginni, ef við sjáum það að þá sé bara sjálfhætt og það þurfi hvorki að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu né halda neitt frekar áfram. Ég tel mikilvægt að verði af þessu þá verði byrjað á erfiðustu þáttunum og þá hætt ef ljóst er að — ég vil allt að því nefna það tálsýn — ef menn telja að ekki sé hægt að ná fram þeim samningsmarkmiðum sem halda fullveldi þjóðarinnar, yfirráðum yfir auðlindunum, eins og Evrópusambandið ætlaði að ganga inn í litla Ísland en ekki öfugt.

Hvers vegna er þá verið að þrýsta á þetta mál núna fyrir utan það að annar stjórnarflokkurinn hefur haft þetta á stefnuskrá sinni? Ég get ekki frekar en síðasti ræðumaður, hv. þm. Ólöf Nordal, varist þeirri hugsun að á einn og annan hátt liggi þarna saman þræðir í Icesave-málinu og Evrópusambandsmálinu, umsókn að Evrópusambandinu. Mér er svolítið misboðið að við skulum á þessum tíma leggja inn aðildarumsókn þegar við upplifum það á eigin skinni og í gegnum það ferli sem hefur verið opinbert frá því 8. október, hvernig Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hvernig Bretar, Hollendingar hafa notað aðstöðu sína og vald innan Evrópusambandsins og innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að hafa áhrif á framvindu mála. Þegar maður sér hvernig stóri bróðir, hvað stóru og sterku löndin, fjölmennu löndin innan Evrópusambandsins geta í raun blygðunarlaust kúgað þjóð eins og okkur til að gæta eigin hagsmuna í þessu sambandi þá spyr maður sig hvort þeim sé svo annt um að öll Evrópa með öll þau lönd sem eru nýkomin inn njóti sömu réttinda, séu tekin eins og bræður inn í þetta bandalag, að það sé ekki flokkað eftir stærð eða auðlegð. Stolt mitt er sært vegna þess að við skulum leita inn í þetta bandalag á sama tíma og við upplifum hvernig farið er með okkur. Þá er ég ekki að strika yfir okkar ábyrgð á Icesave-málinu, alls ekki. Auðvitað berum við ábyrgð á því hvernig fór og hvernig þetta efnahagshrun, íslenska kreppan, kom yfir okkur. Við erum í tvöfaldri kreppu. Við erum í heimskreppu og við erum í heimatilbúinni kreppu og sú kreppa er miklu dýpri, erfiðari og sársaukafyllri heldur en heimskreppan sem ýtti við okkar íslensku kreppu því íslenska kreppan er heimatilbúin. Hún er líka pólitísk. Hún er hugmyndafræði. Hún er frjálshyggja. Hún er markaðshyggja sem fór úr böndunum. Það er sárt að sitja uppi með skuldirnar og geta engum nema sjálfum sér um kennt.

Í þessari stöðu fengum við ekki einu sinni hjálp frá Norðurlöndunum, þ.e. ekki einu sinni, við erum að fá hjálp núna. En þar sem okkur liggur svo á að senda inn umsókn af því að Svíar eiga að taka við umsóknareyðublaðinu (PHB: Þetta er klíka.) þá spyr maður sig: Fundum við nokkurn tíma fyrir stuðningi frá Svíum í október eða í vetur? Getur verið að þessir Evrópuþræðir hafi líka haft áhrif á væntanlega formennsku Svía í Evrópusambandinu? Er það þannig að þetta þvælist alltaf og samtvinnist út af hagsmunum? Ekki hef ég nokkuð fyrir mér. Þetta bara einhvern veginn liggur svona. Alla vega varð ég aldrei vör við að Svíar sem eru þó stærsta og sterkasta Norðurlandaþjóðin hafi beitt sér og reynt að fá hin Norðurlöndin til að stuðla að því að við fengjum lán frá þeim? Frekar hef ég heyrt að þeir hafi dregið úr því, að þeir hafi haft áhrif á hin Norðurlöndin til að koma í veg fyrir að okkur yrði veitt lán nema að frágengnu Icesave-málinu. Blandast þetta eitthvað? Ég veit það ekki. En við þessar kringumstæður og þessar aðstæður okkar finnst mér algjörlega fráleitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það segi ég sérstaklega vegna þess að ég tel að við eigum ekkert erindi þangað. En ég er alveg undrandi á þeim sem sjá Evrópusambandið í því ljósi að það sé alfa og ómega í öllum okkar vanda, að evran bjargi öllu og svo framvegis, að meira að segja þeir sem telja að okkur sé best borgið innan Evrópusambandsins telja vogandi að sækja um núna en bíða ekki með þetta að minnsta kosti þangað til við sjáum fram á það hvort við getum komið okkur út úr þessum fyrsta skafli sem við erum í núna næstu þrjú árin. Getum við klofið það að greiða skuldir ríkissjóðs á næstu þremur árum? Ef við getum það þá getum við notað tímann því við höfum þetta sjö ára skjól til að vinna okkur út úr þessu til framtíðar. En væri ekki betra fyrir alla, og líka þá sem vilja ganga í Evrópusambandið, að bíða og sjá til?

Hæstv. forseti. Mér finnst líka áhyggjuefni að fylgjast með þróun Evrópusambandsins, hvert það stefni. Það er mikil spenna innan Evrópusambandsins. Það er mikill efi um það hvort evran verði áfram sá gjaldmiðill sem hún hefur verið. Í þessu ríkjasambandi sem stefnir í sambandsveldi — því það er bara haldið áfram — svo virðist vera að koma eigi á þessu ríkjasambandi. Alla vega stefnir í það. Í þessu ríkjasambandi markar Schengen ákveðinn ramma, landamæri utan um Evrópusambandið. Við þessi mörk eru þjóðirnar í austri. Þar eru Rússar og þar er að byggjast upp spenna algerlega að ástæðulausu að mínu mati, algerlega. Það er líka mikil óeining og spenna innan nýju landanna sem ekki hafa fengið sama jafnrétti og sömu meðferð og gömlu sambandsþjóðirnar. Við ættum að hugsa okkur mjög vel um hvort þetta veldi sé umhverfið, hvort óhætt sé að innlima okkur algerlega inn í þetta umhverfi. Þetta segi ég ekki í ljósi neinnar hugmyndafræði um að við ættum bara að einangra okkur. Ég vil þvert á móti hafa sem best samskipti við allar þjóðir. Ísland er þannig staðsett á hnettinum að við höfum möguleika á að hafa samskipti í austur og vestur og suður til Evrópu. Við erum einstaklega vel staðsett á hnettinum og ég tala ekki um núna þegar sú óheillaþróun hefur orðið að ísinn er að bráðna á norðurskautinu og auðlindir eru að koma fram eða gætu orðið aðgengilegar sem þessar stórþjóðir sækjast eftir. Eigum við þá að innlima okkur í þetta samband? Ég tel ekki. Mér finnst mikið alvörumál að sækja um aðild og ... (Forseti hringir.)

(Forseti (SF): Forseti spyr vegna samkomulags milli þingflokka hvort þingmaðurinn eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Hæstv. forseti. Ég get alveg eins hætt núna eins og að tala alla nóttina. Ég vil bara segja eins og er að mér er nokkuð þungt um hjartað og ég veit að mínum félögum bæði í þingflokknum og í okkar félögum úti um land er það líka. Ég get því eins hætt núna og vitna bara í ágætisræður sem hér hafa verið haldnar og hafa verið á sömu nótum og mín ræða. Ég get lokið máli mínu, hæstv. forseti.