137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:04]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli því að mér var ekki kunnugt um þessa skýrslu eða reyndar drög að skýrslu fyrr en í morgun og hafði lítið tóm til að afla upplýsinga um það en mér skilst að þetta séu drög. Ég hefði viljað sjá þessi drög því að afstaða mín til ESB hefur öllum verið kunn, ég mun greiða atkvæði gegn umsókn og það byggi ég fyrst og fremst á hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs eins og ég tók skýrt fram í ræðu minni við fyrri umr. um þingsályktunartillögu um ESB-umsókn.

Í ræðu minni vitnaði ég sérstaklega til rökstuðnings Bændasamtakanna, ítarlegs rökstuðnings sem kom fram í Bændablaðinu, í mjög faglega unninni greinargerð Bændasamtakanna og til mikillar fyrirmyndar, og nú skilst mér að þessi skýrsla renni talsverðum stoðum undir skoðanir Bændasamtakanna. Menn geta hins vegar lesið sitthvað út úr henni en menn geta þó lesið ótvírætt út úr henni að kjúklingaframleiðsla og svínaframleiðsla eigi sér vart viðreisnar von með aðildinni.

Ég hef líka heyrt því fleygt varðandi sjávarútveginn að við getum misst frá okkur veiðiréttindi í makríl með umsókninni. Mér finnst miður að þessi skýrsla hafi ekki komið fyrir nefndina í þeirri umræðu sem hefur farið fram og ég hygg að ég geti ekki gefið á því viðhlítandi skýringar. Ég beini því til hæstv. utanríkisráðherra að upplýsa það til hlítar við fyrsta tækifæri hvernig á þessu stendur. Sjálfur mun ég sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar beita mér fyrir því að þessi drög að skýrslu verði lögð fyrir nefndina.