137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir svörin Ég vil geta þess að í umræðu um Evrópusambandið í gær spurði ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þessa skýrslu og hann svaraði því til að honum væri kunnugt um að þessi skýrsla væri til í drögum en hann hefði ekki séð hana. Mér finnst skrýtið að þeir tali ekki saman og hvet hv. þingmann til að ræða þetta við ráðherra sinn. Þetta skiptir mjög miklu máli. Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að þarna er enn á ný verið að stinga óþægilegum skýrslum undir stól og leyna þingið gögnum. Þetta snýst ekki um neitt annað vegna þess að þarna, eins og hv. þingmaður sagði, er verið að máta íslenska landbúnaðarkerfið inn í finnska aðildarsamninginn og eftir því sem mér skilst kemur sá samanburður ekki nógu vel út fyrir íslenskan landbúnað og hvers vegna skyldi skýrslan þá ekki vera gerð opinber? Skyldi það vera vegna þess að t.d. hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skrifaði á Pressuna í gær að hann hefði ekki áhyggjur af íslenskum landbúnaði í ESB? Af hverju? Með leyfi forseta, segir þar:

„Þar skiptir finnska fordæmið mestu. Finnunum tókst að semja um aukinn stuðning umfram byggðatengdan stuðning ESB við greinina á forsendum norðlægrar legu landsins. Svokallaður norðurslóðalandbúnaður var skilgreindur. Í því felst mikil og varanleg viðurkenning á sérstöðu landbúnaðar á norðurslóðum og heimild til ríkisins til þess að styrkja greinina með framleiðslutengdum hætti umfram reglur og kerfi ESB.“

Þarna liggur grundvöllur rökstuðnings hv. þingmanns fyrir því að Íslandi og íslenskum landbúnaði sé borgið innan ESB. Hvar er þá skýrslan? Ég segi það hér að ég vil fá að sjá þessa skýrslu áður en við göngum til atkvæða um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þetta skiptir máli. Hér eru hagsmunir íslensks landbúnaðar í húfi og ég held að við þurfum (Forseti hringir.) að fá að taka sjálfstæða afstöðu til þess á þinginu hvaða hagsmunir liggja þarna að veði og hvernig við greiðum atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu.