137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni og Ragnheiði E. Árnadóttur. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta verði upplýst, ekki síst vegna þess að málflutningur hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar virðist að mínu mati ekki standast neina skoðun þegar hann ræðir hagsmuni landbúnaðarins í þessu sambandi og stangast að sjálfsögðu á við allt mat hagsmunaaðila í greininni.

En það er svo sem ekkert nýtt að samfylkingarmenn telji að hagsmunum okkar sé betur borgið innan ESB á öllum sviðum. Ég minnist þess að í áliti Evrópunefndar frá 2007 fjölluðu samfylkingarmenn meðal annarra um sjávarútvegsþáttinn og það var ekki hægt að lesa sérsjónarmið samfylkingarmanna í þeirri nefnd öðruvísi en svo að það væri allt í lagi fyrir Íslendinga að taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þeir töldu að íslenskum hagsmunum væri ágætlega borgið miðað við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Því er alveg ljóst með hvaða hugarfari þeir ganga til samninga við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál, það er bara að skrifa upp á, það er svo einfalt.

En af því að hér er minnst á skýrslur og gögn get ég ekki látið hjá líða að nefna það að fyrir tæpum hálfum mánuði við upphaf umræðunnar um Icesave-samkomulagið fór ég skýrlega fram á það í ræðu að upplýsingar um öll fyrirliggjandi gögn varðandi Icesave-málið yrðu kynntar þingmönnum þannig að þeir gætu sjálfir lagt mat á það eftir hvaða gögnum þeir kölluðu. Það yrði lagður fram heildarlisti eða skrá og þingmenn gætu kallað eftir þeim gögnum sem þeir teldu tilefni til. Ég veit að nefndarmenn í öllum þeim nefndum sem hafa fjallað um málið hafa líka gert kröfu um að fá að sjá svona heildarlista (Forseti hringir.) en hann hefur ekki borist enn þá á hálfum mánuði. Á hálfum mánuði hefur ekki verið hægt að leggja fram heildarlista svo þingmenn gætu sjálfir lagt mat á þau gögn sem þeir ætluðu að fara fram á.