137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu liðnir u.þ.b. 12 dagar síðan sá sem hér stendur sendi beiðni á formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og ritara nefndarinnar um að leggja fram umtalaða skýrslu. Það var í kjölfar síðasta skipulagða fundar nefndarinnar, en sá fundur sem nefndin átti að halda í síðustu viku var felldur niður vegna upphlaups í stjórnarliðinu vegna uppákomu í ESB-málinu í afgreiðslu í utanríkismálanefnd og voru haldnir neyðarfundir allan daginn og var felldur niður fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þess vegna. Það kom mér því nokkuð á óvart að formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sagði í ræðustól að hann hefði fyrst vitað um þessa skýrslu í morgun. Ég tek þó undir það að honum er auðvitað vorkunn þar sem þessi skýrsla virðist vera falin inni í utanríkisráðuneytinu og hjá hæstv. utanríkisráðherra. (Gripið fram í: Hennar er getið í Bændablaðinu sem kom út í síðustu viku og hann les það þá ekki. )

Það er kannski óþarfi að fara um það mörgum orðum, það kemur í raun og veru fram í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar að landbúnaðinum er að nokkru leyti fórnað ef við mundum ganga til aðildar við Evrópusambandið, auðvitað ekki í umræðunum sjálfum. Þær fölsku vonir sem eru bundnar við hina finnsku leið eru kannski afhjúpaðar í þessari skýrslu. Það er mjög mikilvægt að við fáum að sjá þessa skýrslu, við þingmenn í salnum. Bændasamtökin hafa gagnrýnt þetta og farið mjög gaumgæfilega í gegnum þetta og það liggur fyrir skýr niðurstaða þeirra að þeir telja hina finnsku leið ekki nægilega. Ef það liggur síðan fyrir að skýrsla sem ríkisstjórnin hefur látið vinna vegna þessa máls staðfesti það hugsanlega og við fáum ekki aðgang að henni, hvorki nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd né þingmenn almennt eða þjóðin, þá (Forseti hringir.) eru það forkastanleg vinnubrögð.