137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er meiri sorgardagur en ég gerði mér grein fyrir þegar ég vaknaði í morgun og var að hugleiða hvað við værum að fara að gera á Alþingi í dag vegna þess að nú er enn á ný staðfest að lýðræðið og málefnaleg umræða á Alþingi eru algerlega fótumtroðin. Ég vil benda á að þetta er ekki í fyrsta skiptið nú á síðustu viku þar sem mikilvægum gögnum er stungið undir stól vegna þess að þau eru óþægileg í umræðunni. Þetta lýsir því miður þeim blekkingum sem hefur verið haldið fram í umræðunni um Evrópumál á undanförnum árum en þar hafa þeir sem stutt hafa aðildarviðræður ítrekað bent á það að Íslendingar gætu verið vel settir með sinn landbúnað ef þeir fengju sambærileg kjör og Finnar hafa fengið. Við sem höfum verið á móti höfum bent á að þær fullyrðingar fá ekki staðist.

Eitt verður að hafa í huga og það er að þetta mál snýr ekki að bændum einum og sér. Fjölmörg framleiðslufyrirtæki, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem fjöldi fólks vinnur í afleiddum störfum frá landbúnaði, óttast mjög um hagsmuni sína. Þau munu ekki njóta neinna styrkja frá Evrópusambandinu. Og ef við orðum þetta eins og það er og Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, gerði þá segir hann:

„Þau sem styðja aðildarumsókn eru að senda bændum skilaboð um að huga sem minnst að framtíðaruppbyggingu búa sinna. Skipuleggja undanhaldið.“

Þetta eru sorgleg skilaboð á þessum degi.