137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

þingfundur, nefndafundir og upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að forseti notaði orðalagið „þegar þingstörfum fer að ljúka“. Ég verð að játa að það eru nokkuð nýjar upplýsingar fyrir mig miðað við þau mál sem hér liggja fyrir og ljóst er til dæmis að Icesave-málið er þannig vaxið að ég get ekki séð að því verði lokið hér í þinginu í náinni framtíð. Ég sé ekki betur en að það séu alltaf að koma fram ný og ný gögn og nýjar og nýjar upplýsingar sem geri það ólíklegra að því máli ljúki hér hratt. Það eru því nýjar upplýsingar þegar hæstv. forseti vísar til þess að nú sé tekið upp það vinnulag sem eigi við þegar þingi sé að ljúka. En nóg um það.

Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson benti á mjög mikilvægt atriði hér áðan, að Seðlabankinn hefði verið á fundi fjárlaganefndar í morgun og hefði ekki haft tækifæri til að svara ýmsum spurningum sem til hans hefði verið beint. Seðlabankinn hefur verið mikið í umræðunni. Ég tel brýnt að Seðlabankinn fái tækifæri (Forseti hringir.) til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við fjárlaganefnd og ef það er nauðsynlegt að gera hlé á þingfundum í dag til þess (Gripið fram í.) að gefa fjárlaganefnd kost á að klára fundinn (Gripið fram í.) tel ég að það sé atriði sem hæstv. forseti ætti að ræða við þingflokksformenn á fundi (Gripið fram í.) sínum hér á eftir.