137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Samfylkingarinnar fyrir áræðið að taka þátt í umræðunni því að samfylkingarmenn hafa ekki verið fjölmennir hér í þessari löngu umræðu. Hún hefur hugrekki og þor til að þora í umræðuna.

Varðandi það að Evrópusambandsaðild sé alþjóðahyggja er það akkúrat öfugt. Við Íslendingar missum möguleika til að gera samninga við erlend ríki, eins og Taívan og fleiri, þannig að þetta er akkúrat öfugt. Þetta er heimóttarleg stefna, við erum að missa tengsl við alþjóðasamfélagið, við erum að fara inn fyrir múra Evrópusambandsins.

Síðan segir hv. þingmaður að það sé mikilvægt að hafa forræði yfir auðlindum og mig langar til að heyra hv. þingmann segja það hér vegna þess að samningurinn mun koma til baka með tímabundnum heimildum, ég er viss um það, og þá mun Samfylkingin segja: Þetta eru langar tímabundnar heimildir, við megum veiða fisk í 20 ár, eitthvað slíkt, og af því að Íslendingar hugsa til svo skamms tíma — Samfylkingin sérstaklega, hún hugsar bara í mánuðum — en Evrópusambandið hugsar í áratugum og árhundruðum, verður samningurinn svona. Ég vil fá hv. þingmann til að segja það hér og lýsa því yfir, af því að það verður svo gaman að reka það ofan í hana aftur þegar samningurinn kemur: Þegar hún talar um forræði yfir auðlindum er það þá varanlegt til eilífðar, alla tíð, eða tímabundið? Þá á ég við landbúnað, sjávarútveg, orku, norðurslóðirnar og allar hugsanlegar (Forseti hringir.) og óhugsandi auðlindir.