137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að meiri kjark þurfi til að gerast ekki aðilar að Evrópusambandinu heldur en að gerast aðilar að því. Eins og hv. þingmaður og þingmenn Samfylkingarinnar lýsa þessu Evrópusambandi þá er þetta eins og að fara í kjöltu einhvers sem sér um málin okkar héðan í frá. Eigum við ekki að fara í umræðuna, eins og hv. þingmaður sagði, og sjá svo hvað kemur út úr þessu?

Þjóðaratkvæðagreiðsla er sýndarstjórnmál. Þá höfum við það. Samfylkingunni sýnist þjóðaratkvæðagreiðsla vera sýndarstjórnmál, enda vill Samfylkingin ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja hafa hana ráðgefandi vegna þess að þeir vilja ekki taka mark á þjóðinni í þessu máli. Þeir vilja berja þetta mál í gegn, sama hvað það kostar. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er nauðsynleg við þær aðstæður sem eru uppi á ríkisstjórnarheimilinu. Við verðum ítrekað vitni að því, virðulegi forseti, að vissum upplýsingum í þessu mikilvæga máli er haldið frá þinginu, frá þjóðinni. Við það verður ekki búið og til að skapa upplýsta umræðu um málið verðum við að hafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort sem okkur líkar betur eða verr.