137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst svolítið leitt þegar hv. þingmenn sem ég hef mætur á koma og snúa út úr orðum mínum. Ég hef aldrei talað um að þjóðaratkvæðagreiðsla væri sýndarstjórnmál en tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla í þessu máli er það hins vegar. Það er einfaldlega vegna þess, eins og ég sagði í minni ræðu, og vona að ég hafi sagt svo skýrt að skilja mætti: Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla í þessu máli er ekki um neitt. Við gætum allt eins farið í þjóðaratkvæðagreiðslu núna um það hvort við ættum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ákvarðanafælni af því tagi sem kom okkur í koll þegar allt hrundi í haust og ég stunda ekki slík stjórnmál.