137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir afar góða og efnismikla ræðu. Hún var flutt af miklum eldmóð og alveg greinilegt að þingmaðurinn er búinn að kynna sér málin afar vel og er ég honum í flestu sammála, þ.e. því sem kom fram í ræðu hans.

Þingmaðurinn ræddi um auðlindir sem eru mitt hjartans mál og vitnaði þar á meðal í viðtal við Evu Joly sem er ráðgjafi í bankahruninu en situr nú á Evrópuþinginu þar sem hún lýsir því yfir að Evrópusambandið muni hafa gagn af því að fá Ísland inn í Evrópusambandið þar sem við eigum svo miklar auðlindir. Þá vil ég spyrja þingmanninn að því í framhaldi af þessu og hans skoðunum og raunverulega umræðunni sem hefur átt sér stað hér um þetta mál og þá sérstaklega um auðlindirnar og við skulum hafa hér inni líka sjávarútveginn og landbúnaðinn því að ég lít svo á að það falli undir auðlindaskilgreininguna. Finnst hv. þingmanni það nægilega varið í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur nú fyrir þinginu frá Samfylkingunni og nokkrum ráðherrum Vinstri grænna, þ.e. að auðlindirnar séu nægilega varðar í þeim fjórum línum sem þingsályktunartillagan gengur út á?