137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni kærlega fyrir hans svör og ég sé að við deilum þessum áhyggjum okkar því að um þetta snýst þetta mál að mínu viti. Nú hefur komið í ljós — þann dag sem mér er sagt að hafi verið samkomulag um að fara í atkvæðagreiðslu á Alþingi með þessa ESB-aðildarumsókn — nú hefur það gerst að þann sama dag kemur í ljós skúffuskýrsla um stöðu íslensks landbúnaðar í ESB. Þetta er samanburðarskýrsla sem unnin var vegna þess að samfylkingarfólk hefur gjarnan litið til þess að íslenskur landbúnaður væri ekki í hættu og er þá sérstaklega litið til Finnlands í því efni. Nú hefur komið í ljós að þessi skýrsla kom ekki vel út fyrir þá sem vilja ganga í Evrópusambandið og því var hún falin. Ég vil því spyrja þingmanninn sem kemur úr miklu landbúnaðarhéraði hvort hann sé sáttur við þessi vinnubrögð. Hér hafa stjórnvöld enn einu sinni verið gerð uppvís að því að fela gögn, skýrslur og upplýsingar fyrir þinginu. Það gerist sem betur fer áður en búið er að samþykkja þennan ESB-samning varðandi þessa skýrslu.

Ég sagði það í ræðu gær að í hruninu hefðu íslenskir bændur í raun verið okkar gjaldeyrisvaraforði vegna þess að þeir framleiða matvæli í okkur sem þjóð. Við eigum ekki þann gjaldeyri sem við þurfum til að flytja inn matvæli og landbúnaðarafurðir í stórum stíl og því hefur Samfylkingin áttað sig á. Sem betur fer hefur hún ekki setið í ríkisstjórn lengi því eins og allir vita er það yfirlýst stefna Samfylkingarinnar að leggja íslenskan landbúnað niður. Nú er þeim að takast það. Þeir fela skýrslu sem snýr að niðurlagningu landbúnaðar á Íslandi. Ég ætla að spyrja þingmanninn: Hvað finnst honum um þessi vinnubrögð og treystir hann þessari ríkisstjórn til að fara hlutlaus að semja um Evrópusambandið?