137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heilshugar undir orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, enda kom ég inn á það í ræðu minni að það væri mjög dapurlegt að þurfa að uppgötva það á síðasta degi umræðunnar að til hefðu verið einhver drög að skýrslu eða skýrsla því að allt byrjar þetta þannig að þetta eru hugsanleg drög eða minnisblöð og breytist svo í skýrslu sem er síðan ofan í einhverri skúffu í utanríkisráðuneytinu. Ég hræðist þetta hins vegar mjög og þetta eru forkastanleg vinnubrögð

Ég vil hins vegar segja það hér, frú forseti, að ég er algerlega fullviss um að hefði hv. þm. Atli Gíslason sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar haft einhvern smápata af þessum málum þá hefði hann beitt sér harðlega fyrir því að koma þessari skýrslu hingað.

Ég verð að segja það, frú forseti, og svara hv. þingmanni, að þetta eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð og það kemur fram í Fréttablaðinu í dag þar sem er haft eftir formanni Bændasamtakanna að þetta séu endalok íslensks landbúnaðar. Ég segi það bara að hafi einhverjir þingmenn ætlað að styðja þessa aðildarumsókn með þá trú — þar sem er verið að vísa í þetta finnska ákvæði og reynslu þeirra þar — að þetta muni halda og síðan muni þetta koma og leiða annað í ljós þá treysti ég bara á skynsemi hv. þingmanna, að þeir muni þá taka upplýsta ákvörðun um það.

Hv. þingmaður nefnir hér þennan samning um að ljúka umræðum í dag. Ég lít nú svo á að hann sé ekki lengur í gildi. Það getur ekki verið og þingflokksformenn okkar og allir þingflokksformennirnir með forseta þingsins hljóta fara yfir það mál. Ég lít svo á að sá samningur sé ekki lengur í gildi.