137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti svarað þeirri spurningu í mjög stuttu máli. Nei, ég treysti ekki hæstv. utanríkisráðherra, jafnágætur maður og hann er. Ég er ekkert að gera lítið úr mannkostum hans sem einhverjir eru, en ég treysti honum ekki til að fara með þetta mál og semja fyrir hönd mína og annarra Íslendinga. Það er bara svo einfalt og er ekkert skrýtið vegna þess að þetta mál er, eins og við höfum fært rök fyrir, fullkomlega vanbúið og í það vantar hjartað og baráttuandann fyrir grundvallarhagsmunum sem við þurfum að setja á oddinn. Ekki er hægt að setja skilyrði við ESB því þá mundi ESB móðgast og það er bara ómögulegt.

Hv. þingmaður minntist á skýrsluna margumræddu og uppnámið innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég verð að segja að eftir að vera í flokki sem hefur verið í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni dauðvorkenni ég Vinstri grænum. Það fer kaldur hrollur niður eftir bakinu á mér þegar ég heyri hvernig Samfylkingin hamast á samstarfsflokknum, reynir að túlka og breyta stefnu hans og gera hann að dótturfyrirtæki sínu. Við tölum oft um efnahagsástandið og hvernig var hér. Þetta er orðið svona Samfylkingin Group og Vinstri grænir eru aðilar að því. Ég dauðvorkenni þeim.

Mig langar líka til að fá að spyrja — og þess vegna set ég það aftur fram, frú forseti, að ég sakna stjórnarliðanna — t.d. hv. formann utanríkismálanefndar hvort hann hafi vitað um tilvist þessarar skýrslu? Hann hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu og ég veit ekki til þess að hann hafi svarað því. Þetta er spurning sem ég hefði viljað leggja fyrir þingið.