aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Virðulegi forseti. Ef þær fréttir eru réttar sem hv. þingmaður bar í ræðustól um það að umrædd skýrsla sé trúnaðarmál, þá er það hreint út sagt með ólíkindum. Hvað er í þessari skýrslu sem liggur fyrir að er til í drögum? Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í gær í andsvari við mig að hann vissi að þessi skýrsla væri til í drögum, hann hefði að vísu ekki séð hana en hún væri til. Nú segir utanríkisráðuneytið að þessi skýrsla sé trúnaðarmál. Um hvað er trúnaðurinn? Að íslenskur landbúnaður fari á hausinn ef við göngum í ESB? Eru það skilaboð skýrslunnar sem bændur mega ekki vita um, íslenska þjóðin má ekki vita um? Hvað er í þessari skýrslu? Það er ekki boðlegt, frú forseti, að svona sé haldið á málum í þinginu eina ferðina enn. (EKG: Hver ætli hafi beðið um trúnaðinn?) Hver bað um trúnaðinn? Við þurfum að vita það.
Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem ég var að kalla eftir og vildi fá að spyrja hvort hafi vitað af þessari skýrslu, er búinn að leggja mikið upp úr því að tala um — og hrósa sjálfum sér í hverri ræðu yfir því að öllum finnist hann hafa haldið svo vel á málum — að það hafi verið talað fyrir öllum sjónarmiðum og það hafi verið reynt að sætta öll sjónarmið. Ég hlýt að spyrja og krefjast þess, frú forseti, að þú beitir þér fyrir því að hann komi hér einhvern tíma og svari. Vissi hann af þessari skýrslu? Ætlaði hann að kæfa þessi sjónarmið niður? Ég get ekki sætt mig við þetta og ég held að nú sé rétt það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði, að þetta sé allt í uppnámi. Nú þarf að gera hlé á þessum fundi. Við þingmenn þurfum að ráða ráðum okkar og stjórn þingsins þarf að taka ákvörðun um hvernig eigi að bregðast við. Þetta gengur ekki svona, frú forseti.