137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þannig, hv. þm. Þráinn Bertelsson, að seinni hluti breytingartillögu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og hv. þm. Bjarna Benediktssonar gengur út á, með leyfi forseta, að:

„Náist aðildarsamningur milli Íslands og Evrópusambandsins skal ríkisstjórnin þegar í stað ráðast í að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá, og eftir atvikum öðrum lögum, sem af aðild leiðir. Að því loknu skal aðildarsamningurinn borinn undir Alþingi til staðfestingar og að henni fenginni skal ríkisstjórnin efna til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.“

Þarna fara skoðanir okkar greinilega saman, hv. þm. Þráinn Bertelsson. Þess vegna spyr ég aftur, að upplýstu því hvað stendur í seinni hluta breytingartillögunnar: Er það ekki svo að við séum sammála að þessu leyti, hv. þm. Þráinn Bertelsson? Mun hv. þm. Þráinn Bertelsson greiða þessari tillögu atkvæði sitt?