137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við auðvitað búum hér við lýðræðisskipulag þar sem gengið er til kosninga á fjögurra ára fresti. Það hefur verið veruleikinn í íslenskum stjórnmálum og það hefur ekki verið meiri hluti fyrir því eftir slíkar kosningar að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu. Menn geta kallað það þöggun eða hvaða öðru nafni sem þeir kjósa.

Hér er einfaldlega spurt um þetta. Fyrst þingmaðurinn skipar sér í hóp þeirra sem vilja sjá hvað komi út úr samningaviðræðum þá hlýtur hann að bera í brjósti sér einhverja von um að við fáum góðan samning, samning þar sem sérstaklega verði tekið tillit til okkar Íslendinga. Nú er mér ekki ljóst á hvaða sviði hann telji að sérstaklega þurfi að taka tillit til hagsmuna okkar á einstökum sviðum. En í þeirri vinnu sem fram hefur farið á þinginu og til að mynda hefur átt sér stað í utanríkismálanefnd þá hafa svo sem ekki gefist sérstök tilefni til að ætla að sérstakt tillit verði tekið til okkar. Af þeirri ástæðu spyr ég (Forseti hringir.) þingmanninn: Hvers vegna, þrátt fyrir þetta, virðist hann ala í brjósti sér von um að Evrópusambandið ætli að veita okkur einhverjar sérstakar undanþágur?