137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef hér tækifæri til þess að halda áfram ræðu minni um Evrópusambandið en 40 mínúturnar sem okkur voru gefnar reyndust ekki nægilegar. Áður en ég hef mál mitt formlega: Ég fór í andsvar við hv. þm. Þráin Bertelsson þar sem hann lýsti því yfir að hann talaði sjaldan vegna þess að orð væru dýr og kvartaði yfir að loksins þegar hann talaði væru orð hans misskilin. Svo þegar ég beindi að honum nýrri spurningu varð hann svo óðamála að tíminn rann út áður en hann gat svarað spurningu minni. Ef hann heyrir þessa ræðu, og ég tel mig vita að hann sé hérna í þinghúsinu, vil ég gefa honum tækifæri til þess að koma hér að lokinni ræðu minni og svara spurningunni.

Það er ágætt að vekja athygli á að þetta mál er mjög umdeilt, mikill hiti hefur verið í mönnum og frægt varð þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason rauk á dyr og sagði þingheimi frá því að hann hefði verið kúgaður í þessu máli. Ekki kom fram hver hefði kúgað hann en hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson greip fram í þegar Ásbjörn Óttarsson hv. þm. hélt ræðu og sagði að þingmenn Vinstri grænna sem hefðu kúgað sinn eigin flokksmann til þess að skipta um skoðun og vera ekki með tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er þetta komið fram og stendur upp á einhvern að leiðrétta þessi orð þingmannsins.

Um þetta fjöllum við einmitt og upp á Vinstri græna stendur að svara kjósendum sínum af hverju í ósköpunum við stöndum frammi fyrir því hér í dag að greiða atkvæði um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það kom mjög skýrt fram, og enginn hefur tekið að sér að túlka það öðruvísi en eftir orðanna hljóðan, að á landsfundi Vinstri grænna sögðu þeir að hagsmunum Íslendinga væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. En Vinstri grænir sviku loforð sem þeir gáfu kjósendum í kosningabaráttunni. Þeir fengu mikið fylgi út á harða afstöðu sína í Evrópumálinu og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að meginhluti fylgisins sem þeir fengu í mínu kjördæmi hafi einmitt verið út á þessa afstöðu, en þeirra fyrsta verk er að svíkja þetta kosningaloforð sitt og er það leitt.

Ég er þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Ég held að við ættum einmitt að muna að gjaldeyrisvaraforðinn okkar lá ekki eingöngu í Seðlabankanum í Lundúnum þegar bankaáfallið reið yfir okkur síðasta haust heldur var hann einnig að finna í sveitum landsins. Þegar innflutningur hikstaði voru það bændur landsins sem sáu til þess að landsmenn bjuggu við algjört fæðuöryggi.

Ég held að menn ættu að muna þetta vegna þess að hér í dag höfum við einmitt verið að ræða það að skýrslu sem beðið var um hjá Hagfræðistofnun Háskólans var einfaldlega stungið undir stól. Af hverju skyldi það nú vera? Jú, vegna þess að þar var óskað eftir samanburði á því hvernig Íslendingum mundi reiða af ef þeir fengju nákvæmlega sömu undanþágur og Finnar fengu þegar þeir ákváðu að ganga í Evrópusambandið. Eftir því sem ég best veit þá kemur þessi samanburður afar illa út fyrir íslenska bændur og ljóst er að mjólkurframleiðsla mun að stórum hluta leggjast af og þá þannig að hugsanlega verður hér aðeins framleidd nýmjólk eða mjólk af öðru tagi. En aðrar mjólkurvörur verða einfaldlega algjörlega út úr myndinni.

Því hefur verið haldið fram og við framsóknarmenn, þ.e. við sem ætlum að greiða atkvæði gegn þessari þingsályktunartillögu, höfum þurft að búa við það hér í umræðunni að orðið skilyrði þýði nú orðið allt annað en ég taldi að það þýddi. Hér hefur verið fullyrt að þessi skilyrði sé að finna í nefndaráliti meiri hlutans og menn hafa haldið fram þeirri vitleysu, að mínu mati, að þetta nefndarálit verði notað af samninganefndinni til þess að semja um hagsmuni Íslands og að öll skilyrðin sé þar að finna. Þá vil ég segja eitt: Ef það er svoleiðis er þingmönnum í lófa lagið að samþykkja einmitt þingsályktunartillögu Vigdísar Hauksdóttur. Það ætti ekki að koma að sök vegna þess að þar koma fram öll skilyrði sem flokksþing Framsóknarflokksins setti fyrir aðildarviðræðum á flokksþinginu sem var haldið í janúar. Ef þau er að finna í nefndarálitinu er eins gott bara að hnekkja á þeim og láta þau koma skýrar fram en þar er og samþykkja þingsályktunartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur vegna þess að í mínum huga þýðir orðið skilyrði ekki það sama og orðið sjónarmið, en í breytingartillögu minni hlutans er einmitt rætt um þau sjónarmið sem koma fram í þessu minnihlutaáliti, þ.e. að þau verði uppi á borðunum. Ég held að ég sé að túlka þetta rétt vegna þess að í þessu minnihlutaáliti kemur nefnilega mjög skýrt fram á blaðsíðu 14 þar sem fjallað er um skilyrt umboð, að það sé mat meiri hlutans, með leyfi forseta:

„að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það.“

Í mínum huga er þetta því bara á hreinu. Nefndarálitið breytir engu um það að það verður ekki lagt af stað með neins konar skilyrði af hálfu meiri hlutans og þá er maður hræddur um að maður lendi nákvæmlega í því sama og við erum að horfa upp á í Icesave-deilunni. Þegar menn greiddu atkvæði með því að fara í einhvers konar viðræður við Breta og Hollendinga um Icesave-samningana var sagt að það væri algjört skilyrði af hálfu stjórnvalda að farið yrði eftir þessum svokölluðu Brussel-viðmiðum. En það er nú hvorki meira né minna en Seðlabanki Íslands sjálfur sem segir í lögfræðiáliti sínu, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum núna síðast í dag, að þessi Brussel-viðmið er hvergi að finna í Icesave-samningunum og það er ekki hægt að túlka þá á neinn hátt miðað við þessi Brussel-viðmið. Það er nú fróðlegt að sjá hvort þeir þingmenn sem töluðu um það á sínum tíma ætli þá að greiða atkvæði gegn þeim óskapnaði.

Mig langar aðeins til þess að fjalla hérna um landbúnaðinn sérstaklega vegna þess að formaður Bændasamtaka Íslands skrifar mjög góða grein í Morgunblaðið í dag sem ber heitið „Endalok nútímalandbúnaðar á Íslandi“.

Hann segir þar í lok greinarinnar, með leyfi forseta:

„Þau sem styðja aðildarumsókn eru að senda bændum skilaboð um að huga sem minnst að framtíðaruppbyggingu búa sinna. Skipuleggja undanhaldið. Skilaboð þeirra eru að það dregur hratt að endalokum nútímalandbúnaðar á Íslandi. Því ekki sækjum við um til að hafna síðan aðild?“

Þetta er mjög skýrt og eindregin afstaða sem Bændasamtökin koma fram með. Líka af því að ég var að ræða þessi skilyrði þá langar mig að benda á grein sem birtist á bondi.is sem er vefur Bændasamtaka Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er fjallað sérstaklega um meginhagsmuni Íslands ef til aðildarviðræðna kemur.“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Þó lögð sé áhersla á mikilvægi íslensks landbúnaðar í umsögn nefndarinnar er vart hægt að segja að slegnir séu þeir varnaglar sem veitt gætu landbúnaðinum skjól ef til aðildar kæmi. Farið er orðum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar í matvælaframleiðslu, byggðatengd sjónarmið og umhverfisþætti en ekki er hægt að sjá að í neinu tilfelli sé gengið svo langt að setja fram skýlausar kröfur um niðurstöður aðildarviðræðna til varnar landbúnaði.“

Síðan fara þeir yfir — ég ætla að sleppa því að lesa alla greinina frá upphafi til enda — en þeir benda á að tollvernd sé einmitt forsenda fyrir óhögguðum landbúnaði.

Þar kemur einnig fram að í þessu áliti er til að mynda hvergi minnst á úrvinnsluiðnaðinn. Það hef ég vakið athygli á vegna þess að á Akureyri, Húsavík og Kópaskeri, svo við tökum bara dæmi úr mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, eru úrvinnslufyrirtæki, framleiðslufyrirtæki sem skapa atvinnu fyrir fjöldamargt fólk, um 3.000 manns. Þetta er á svæði þar sem atvinnuleysi hefur verið umtalsvert, eitt það mesta á landinu. Ekki er nóg með að atvinnuleysi mælist þar mikið heldur hefur kjördæmið mátt þola það að sérstaklega ungar fjölskyldur hafa þurft að flytja í burtu, einkum hingað á höfuðborgarsvæðið, til þess að verða sér úti um vinnu. Þess vegna er í rauninni ótrúlegt að hvergi í álitinu skuli minnst á að þessi framleiðslufyrirtæki og að allt þetta fólk sem vinnur í þessum góðu fyrirtækjum skuli ekki nefnt á nafn í þessu meirihlutaáliti sem einstakir þingmenn líta á sem einhvers konar vegvísi inn í þessar aðildarviðræður.

Á það er bent í þessari grein að samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá síðasta vetri hafa tíu þúsund manns beina atvinnu af íslenskum landbúnaði, þeir sem starfa beint við hann og þeir sem eru í beinni úrvinnslu afurða. Þá er ekki verið að tala um þau störf sem eru frekar afleidd af íslenskum landbúnaði.

Svo er nú eitt í þessu líka sem skortir á og það er að það vantar tilfinnanlega að fjallað sé um landbúnaðinn í heild í umsögninni en megináhersla er lögð á mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Það er ekki að neinu marki fjallað um aðstæður svínabænda og kjúklingabænda en færð hafa verið rök fyrir því að þær greinar muni verða fyrir mestum skakkaföllum við inngöngu. Ég held að það sé bara einfaldlega þannig að við gætum horft fram á að þessar greinar leggist hreinlega af. En maður veltir því stundum fyrir sér hvort það sé fórnarkostnaður þeirra sem vilja ganga inn í Evrópusambandið.

Að lokum langar mig að vísa til þess að menn hafa talað svolítið fjálglega að mínu mati um þá staðreynd að við erum í rauninni að gefa eftir hluta af fullveldi okkar. Við megum ekki gleyma því að við gáfum frá okkur sjálfstjórnina 1262 og það þýddi mikla fátækt fyrir íslenska þjóð í mörg hundruð ár. Það var í rauninni ekki fyrr en við hlutum sjálfstæði að við gátum farið að kalla okkur vestræna þjóð meðal vestrænna þjóða og lífskjör frá því að við urðum einmitt sjálfstæð hafa batnað gríðarlega. Til marks um það mætti segja að uppgangur íslensks atvinnulífs og Íslands almennt sé sambærilegur við Suður-Kóreu sem einmitt hlaut sjálfstæði eftir síðari heimsstyrjöldina eins og Íslendingar.

Mig langar að lesa upp úr ræðu sem Jón Sigurðsson forseti flutti árið 1849. Ég held að á þessum degi ættum við einmitt að hafa í huga þá sjálfstæðisbaráttu sem hann hafði hér í heiðri. Ég átta mig fyllilega á því að við erum ekki að gefa frá okkur allt fullveldið. En ég er þeirrar skoðunar að það geti verið alveg jafnskaðlegt að vera með tvenns konar reglur, annars vegar þær reglur sem eru settar af Evrópusambandinu og svo hins vegar þær sem við reynum að setja hér með hagsmuni okkar að leiðarljósi vegna þess að ég tel meginorsökina fyrir Icesave-samningunum vera þá að menn hafi einfaldlega ekki áttað sig á því að það voru reglur Evrópusambandsins fyrst og fremst sem giltu um þá útrás og Íslendingar gátu lítið sem ekkert hróflað við því lagalega. Ef menn ætluðu að fara til dæmis út í það að stækka þennan innstæðutryggingarsjóð svo hann stæði algjörlega á bak við þær innstæður sem voru komnar í útibúum Landsbankans, svo það dæmi eitt sé tekið, þá erum við að tala um 700 milljarða. Það eru gríðarlegar fjárhæðir og algjörlega óhugsandi að það hefði gengið.

Ég ætla að lesa hér lokaorð Jóns Sigurðssonar, með leyfi forseta:

„Íslendingar! Ef þér sitjið nú af ykkur þetta tækifæri, það besta færi, sem fram hefur boðist um mörg hundruð ár til að ná frelsi og þjóðarréttindum, þá er hætt við, að slíkt komi ekki oftar, og þá lifir sú smánarminning þeirrar kynslóðar, sem nú er uppi, að fyrir dáðleysi hennar og ósamheldni hafi Ísland enga viðreisn fengið, því þeir hafa beðið sjálfir um að leggja á sig ánauðarokið.“

Ég held að það sé einfaldlega þannig, frú forseti, að þetta verður alltaf okkar eigin ákvörðun. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingum sé affarasælast að halda á sínum hagsmunum sjálfir. Við búum hér yfir auðlindum sem eiga sér ekki sinn líka í Evrópu. Við erum langt frá markaðshagkerfi Mið-Evrópu og munum, að mínu mati, aldrei fá notið þeirra kjara fyrirtækja sem þar eru staðsett búa við, ekkert frekar en fyrirtæki sem er staðsett á Raufarhöfn sem á undir högg að sækja gagnvart fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Leiðum hugann að orðum Jón Sigurðssonar forseta vegna þess að ég held að hann hafi einmitt hitt naglann á höfuðið. Ég vona og bind enn þá von við það hér í dag að í þessu árferði sem við búum við (Forseti hringir.) gerum við ekki þá skyssu að við förum í aðildarviðræður án nokkurra skilyrða.