137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að í flokksályktun kemur fram að framsóknarmenn samþykkja að fara í aðildarviðræður en síðan verður hv. þingmaður að lesa aðeins lengra. Það er gert með skilyrðum. Ef skilyrðin koma ekki fram þá er það einfaldlega þannig í mínum huga að við eigum ekki að fara í aðildarviðræður. Ég fæ ekki skilið hvernig menn og þingmenn geta skautað fram hjá orðinu „skilyrði“ og túlkað það á einhvern annan hátt heldur en samkvæmt orðsins hljóðan. Hv. þingmenn hafa komið fram og reynt að sannfæra mig um að þetta sé í nefndarálitinu, finnist þar jafnvel þó að það standi berum orðum að ekki eigi að fara í viðræðurnar með nein skilyrði.

Síðan hefur líka verið reynt að sannfæra mig um að orðið „sjónarmið“ sé á einhvern hátt sambærilegt við orðið „skilyrði“. Ég vísa til orða hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, sem bar þessa ályktun fram á flokksþinginu, að það er orðið „skilyrði“ sem skiptir öllu máli. Formaður Framsóknarflokksins benti í ræðu á að ég og hann sem áttumst við í formannsframboði og lýstum báðir yfir okkar skoðun varðandi skilyrðin fengum yfir 80% allra greiddra atkvæða á flokksþinginu, sem var miklu fjölmennara en hefur verið síðustu ár. Ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en skilyrðin séu einfaldlega skilyrði.