137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp á ný til að tala í þessu mikilvæga máli sem kannski á eftir að breyta framtíð okkar til næstu 10, 30, 100, 500 ára ef tekin verður sú ákvörðun að ganga í Evrópusambandið. Það er best að maður flytji þinginu fréttir. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur fundað og hæstv. utanríkisráðherra bjargaði sér nú í hádeginu út úr þessum trúnaðarupplýsingum, sem hann var búinn að ræða að væru í skýrslunni, og er búinn að breyta því í hálftrúnað. Hálftrúnaður er nýyrði fyrir mér en hálftrúnaður er á skýrslunni og best að þeir sem eru í viðkomandi nefnd útskýri hvað það er. Það er náttúrlega alveg að verða með ólíkindum, frú forseti, hvernig þingstörfin eru komin út um víðan völl og hér er allt í uppnámi.

Hér er fólk úti á Austurvelli. Ég labbaði yfir á skrifstofu mína áðan. Fólk hleypur að manni og hvetur áfram af því að þjóðin virðist ekki vera með ríkisstjórninni í þessu máli, frú forseti. Hvar er hæstv. utanríkisráðherra t.d. í þessum töluðum orðum? Hvar er hæstv. forsætisráðherra? Hvar er hæstv. fjármálaráðherra? Hvar er hv. formaður utanríkismálanefndar? Hefur þetta fólk ekki áhuga á málinu eða vill það ekki hlusta á rök eins og hv. formaður utanríkismálanefndar gerði í gær? Hann varð rökþrota fyrir mér í ræðustól. Það er ekki von að hann sé mættur til leiks á ný.

Áður en ég fer yfir þau mál sem ég ætla að byggja ræðu mína á, en tími minni skerðist eftir því sem ég held fleiri ræður, ætla ég að leiðrétta misskilning. Ég hélt að ég fengi bara að tala þrisvar um þessa þingsályktunartillögu en í morgun var mér bent á að ég má tala eins oft og ég vil.

Það er þetta með skýrsluna sem ríkir hálftrúnaður um, það er innihaldið í henni og það alvarlegasta í þessu öllu saman er — ég vitna aftur í orð formanns Bændasamtaka Íslands sem segir: „Skýrslan er því ekki það vopn sem ESB-sinnar í utanríkismálanefnd vonuðust til að geta notað til að slá af málflutning bænda. Hún er því höfð í skúffu.“ Ég nefni þessa skýrslu skúffuskýrsluna og ef það er staðreynd að það hvíli á skýrslunni hálftrúnaður út af því að efni hennar er ekki í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar þá er þetta mjög alvarlegt mál, frú forseti, og sýnir enn á ný að hér eru þingmönnum skammtaðar upplýsingar eftir því hvað ríkisstjórninni finnst eiga við hverju sinni.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir mér um þessi stjórnskipunarmál að sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir þinginu brjóti stjórnarskrá. Ég ítreka að tillagan frá ríkisstjórninni sem liggur fyrir þinginu brýtur stjórnarskrá. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp hvernig sú breytingartillaga byrjar sem lögð er til við þingsályktunartillöguna. Hér stendur, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB…“ Þetta er mjög skýrt: Að leggja inn umsókn. Hér er lagt til að lögð verði inn umsókn og það er fullveldisafsal. Um leið og þjóð leggur inn umsókn að ríkjabandalagi eða alþjóðlegri stofnun er það fullveldisafsal og það fullveldisafsal höfum við ekki í stjórnarskránni. Inn á þetta hef ég margkomið inn í ræðum mínum en hv. formaður utanríkismálanefndar ber hausnum við steininn og segir að þetta sé ekki stjórnarskrárbrot. Ekki nema von því að hvernig á löggjafinn að geta samþykkt bæði lög og þingsályktunartillögur sem brjóta gegn stjórnarskránni? Dómar hafa fallið varðandi þessi mál og þá hefur löggjafinn þurft að grípa tafarlaust til ráðstafana og breyta lögum.

Mín breytingartillaga gengur fyrst og fremst út á að koma inn í þingsályktunartillöguna þeim skilyrðum sem framsóknarmenn leggja áherslu á og bjarga jafnframt þessari hálfu ríkisstjórn frá stjórnskipulegu slysi. — Nú væri ágætt að hæstv. utanríkisráðherra sneri sér við í dyragættinni og hlustaði. — Ég legg til að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið og það að fara í könnunarviðræður er ekki brot á stjórnarskránni. Það má túlka það sem brot á stjórnarskránni en ég legg til að þetta verði gert þannig að bjarga því sem bjargað verður. En hæstv. ríkisstjórn verður að sitja uppi með að hér verði málssókn þegar og ef þetta fer í gegnum þingið. Í Morgunblaðinu í morgun hefur hv. formaður utanríkismálanefndar þetta að hálfu í flimtingum, að hann taki meiri mark á stjórnskipunarfræðingum sem hafa komið á fund nefndarinnar og ekki geri ég lítið úr því. Ég ber mikla virðingu fyrir lögfræðingum og lögmönnum, sérstaklega þeim sem fjalla um stjórnarskipunarrétt því hann er það sem öll lagasetning snýst um. Eins og allir vita er stjórnarskráin öllum okkar lögum æðri.

Hann lætur hafa eftir sér í Morgunblaðinu að þeir hefðu ekki séð neitt athugavert við tillöguna. En þá skal ég benda á að þetta álit, sem er fylgiskjal 8 með breytingartillögunni, var pantað af hv. formanni utanríkismálanefndar hinn 12. júní sl. Þá er búið að taka ákvörðun um það hér á þingi, lagt fram í ríkisstjórninni, að þessi þingsályktunartillaga skuli koma fyrir þingið. Þá var komin önnur breytingartillaga að þingsályktunartillögunni. Ríkisstjórnin reynir ekki neitt til að vinna þetta í sátt við minni hlutann. 12. júní er farið fram á að tveir mjög virtir lagaprófessorar komi með álit til að bjarga þessu klúðri sem ríkisstjórnin var komin í. Eftiráálit eru alltaf slæm. Það er ekki hægt að panta álit eftir á þótt sé gert hér, enda kemur fram í þessu áliti að verið er að leggja til stjórnarskrárbrot. Ég bið þingmenn um að lesa bls. 54–56 mjög vel áður en greidd verða atkvæði um málið því þar liggur þetta fyrir. Hér kemur í 1. tölul.:

„Ákvörðun um að sækja um aðild er í eðli sínu pólitík.“ Þetta vitum við, enda hefur ríkisstjórnin, Samfylkingin aðallega, lagt áherslu á að þetta mál fari í gegn, enda er þetta eina mál Samfylkingarinnar. Það sem kemur síðan í ljós er að hv. lögfræðingar taka ekki efnislega á því hvort þetta brjóti á stjórnarskránni og ég held að þingmenn ættu að skoða það. Formaður utanríkismálanefndar fullyrti í gær að þeir væru að taka á því og þetta plagg mundi fjalla um að ekki væri verið að brjóta á stjórnarskránni. Það er hvergi minnst á það. En jafnframt segir í b-lið 1. tölul.: „Ekki getur verið ágreiningur um að fyrri tillagan er afdráttarlausari.“ Þetta er það eina sem ég get fundið í þessu vinnuskjali frá þeim þar sem þau telja að tillaga ríkisstjórnarinnar sé afdráttarlausari með fullveldisafsal.

Þar sem tíminn er svo lítill, þá ætla ég að lesa upp 7. tölul. sem rökstyður mál mitt, með leyfi forseta. Þar segir: „Ýmsar aðrar leiðir eru færar sem ekki eru ræddar hér sérstaklega, svo sem eins og að ráðast strax í breytingar á stjórnarskrá, áður en sótt er um aðild eða viðræður hefjast, bæði til að skapa heimildir til að framselja ríkisvald og til þess að mæla fyrir um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Með því er öllum stjórnskipulegum hindrunum rutt úr vegi strax í upphafi og ferill málsins verður allur einfaldari.“ Frú forseti, er hægt að hafa þetta skýrara?

Ég óska eftir því, frú forseti, að þessi mál verði rædd hér. Ég óska eftir því að athugun fari fram og kallaðir verði til sérfræðingar sem styðja málflutning minn því að ríkisstjórn sem fer fram með það eitt að markmiði að brjóta stjórnarskrá, vaða yfir hana, vaða yfir fullveldi þjóðarinnar og yfir Íslendinga, sú ríkisstjórn á ekki skilið að eiga langa lífdaga, frú forseti. Hvernig ætla ráðherrar Vinstri grænna að koma þessu máli í gegnum þingið? Hér situr minnihlutastjórn og þingmenn Vinstri grænna, þingmenn stjórnarandstöðunnar eiga að viðurkenna það. Ríkisstjórnin þarf að sækja sér stuðning út í alþingissal, til þingmanna stjórnarandstöðunnar. Hér er minnihlutastjórn.