137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:16]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að hlusta á málflutning hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og þau miklu svigurmæli og þann mikla hávaða sem hún viðhefur í ræðustóli af litlu tilefni.

Ég vil aðeins að það komi fram vegna þess að ég sat á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir skömmu þar sem umrædd títtnefnd leyniskýrsla kom til umræðu og þá kom auðvitað í ljós að hér er um að ræða drög að skýrslu eða vinnuplagg sem nefndin, sem óskaði eftir að sú skýrsla yrði unnin, hefur í raun ekki enn þá haft ráðrúm til að líta augum vegna þess að hún er ekki fullfrágengin. Það kom fram í máli þeirra gesta sem mættu fyrir nefndina frá ráðuneytunum að frumkvæðið að því að þessari skýrslu hefur enn ekki verið dreift er ekki á nokkurn hátt til komið vegna pólitískra fyrirmæla af neinu tagi heldur kom frumkvæðið frá þeim sem í rauninni voru að vinna þá bakútreikninga sem voru í rauninni nánari vinna í framhaldi af skýrslu sem gefin var út árið 2003 um stöðu íslensks landbúnaðar í alþjóðasamhengi. Það er áfangaskýrsla sem hefur verið aðgengileg á netinu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins frá árinu 2003 og er öllum aðgengileg. Þarna er um að ræða vinnu sem var unnin í framhaldi af því og það kom skýrt fram í máli þeirra gesta nefndarinnar sem voru fengnir til að veita upplýsingar að það komu engar pólitískar fyrirskipanir úr ráðuneytunum um að þessi skýrsla ætti að vera neitt leyniskjal. Mér finnst sanngirninnar vegna (Forseti hringir.) rétt að þetta komi fram.