137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hér upp og ræða aðeins um þessa leyniskýrslu sem var réttilega lögð fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrr í dag. Ég hef beðið um þessa skýrslu nú í tæpan hálfan mánuð og beðið hennar. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að bregðast skjótt við og birta skýrsluna á heimasíðunni þar sem það er afar óþægilegt fyrir þingmenn að sitja uppi með gagn sem er að hluta til bundið trúnaði, gagn sem skiptir miklu máli í umræðu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Eins og fram hefur komið þá snýst þessi skýrsla um hvaða áhrif hugsanleg aðild mundi hafa á landbúnaðinn í landinu. Skýrsla þessi er unnin, eins og fram hefur komið, af nefndum og var skilað, eftir því sem ég hef bestu upplýsingar um, í lok apríl á (Forseti hringir.) þessu ári. Því er merkilegt ef menn eru fyrst að uppgötva tilurð hennar þessa dagana. (VigH: Heyr, heyr!)