137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst til að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir viðbrögð hans og snöfurmannlega ákvörðun um að birta hina umræddu skýrslu sem ég held að muni greiða mjög fyrir umræðunni um landbúnaðarþátt Evrópusambandsins. Ég tel að það hafi verið mjög skynsamlegt á sínum tíma að fara í þá vinnu sem unnin hefur verið á vegum og forræði utanríkisráðuneytisins og með þátttöku hagsmunaaðila og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og fleiri aðila. Meðal annars er afrakstur þeirrar nefndar þetta starf sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið og leggur tölulegt mat á þessa hluti sem ekki hefur áður legið fyrir. Ég er þess vegna ákaflega ánægður með þessa ákvörðun hæstv. utanríkisráðherra með tilstyrk auðvitað sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins og ekki síst formanns hennar.