137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:32]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu, tillaga um umsókn um aðild að Evrópusambandinu, markar tímamót í sögu lýðveldis, sögu sem hefur tekið heldur óvænta og óvelkomna stefnu, fjarri þeim hugsjónum sem lágu til grundvallar við stofnun lýðveldisins og fjarri þeirri framtíðarsýn sem fólkið í landinu hefur haft allar réttmætar væntingar um að sjá rætast. Sannarlega höfum við villst af leið. Og nú stöndum við á krossgötum, önnur en við vildum vera, frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum um framtíð þessa lands.

Hugsanlega eru ákvarðanir þessara missira einhverjar þær erfiðustu og umdeildustu sem nokkur ríkisstjórn, jafnt sem löggjafarþing, hefur þurft að takast á við. Leið okkar að þessum krossgötum markast því miður af afleikjum og undanbrögðum, sóun og svikráðum, fégræðgi og falsvonum frjálshyggjunnar sem gegnumsýrði samfélagið allt og gróf um sig í nær öllu hinu pólitíska litrófi. Það er grátleg en óumflýjanleg staðreynd mannkynssögunnar að það sem tekur jafnvel heilar kynslóðir að byggja upp með tilheyrandi fórnum tekur aðeins nokkur ár eða svipstundu að brjóta niður. Umkringd villuljósum ber okkur nú að finna hina réttu leið fram á við.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, frú forseti — og er enn — að Ísland eigi að standa utan Evrópusambandsins. Sú pólitíska hreyfing sem ég er félagi í, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hefur margályktað þess efnis og verið einörð í þeirri afstöðu sinni.

Hnípin þjóð í vanda verður sem aldrei fyrr að geta staðið sameinuð til að sigrast á erfiðleikum sínum. Um nokkurt skeið hefur spurningin um Evrópusambandsaðild verið rædd og rannsökuð, greind og krufin, án þess þó að leiða til sameiginlegs skilnings í okkar samfélagi. Ein og sér þarf sú staðreynd ekki að vekja furðu, enda mismikið í húfi fyrir ólíka hagsmunaaðila með ólíkar hugsjónir. Nú þegar þjóðarbúið stendur frammi fyrir ærnum og fordæmalausum verkefnum, endurreisn á nær öllum sviðum íslensks efnahagslífs og endurmati á því hver við erum og hvert við stefnum, er síst þörf á því að spurningin um ESB byrgi mönnum sýn til þess sem mest er aðkallandi. Þessi spurning ætti að mínu mati ekki við núverandi aðstæður að vera í forgrunni, en hún er það engu að síður og er sem slík uppspretta jafnt víðtækrar vonar sem útbreidds ótta.

Ég hefði kosið, frú forseti, frekar en að setja Evrópusambandsaðild á oddinn að sjá Alþingi Íslendinga og stjórnsýsluna alla einbeita sér betur að brýnum viðfangsefnum líðandi stundar þannig að okkur mætti takast að vinna okkur hraðar og með markvissari hætti út úr þeirri erfiðu stöðu sem við blasir. Um leið og ég segi þetta er mér hins vegar skylt að halda því til haga að margir í samfélagi okkar líta svo á að aðild að ESB sé einmitt brýnasta úrlausnarefni samtímans. Ég deili ekki þeirri skoðun, en það er sanngjarnt að halda henni til haga því að þá er það jú verkefnið að finna málinu lýðræðislegan farveg. Mér hefur virst, frú forseti, sem verðmiði Evrópusambandsaðildar sé óhóflegur í öllum skilningi, og kunni að reynast þjóðarbúinu dýrkeyptur þegar kemur að skuldadögum. Ég vil því, frú forseti, ekki láta hjá líða að hafa uppi varnaðarorð mín áður en lengra er haldið.

Þótt ég sé enn ekki komin að fótum fram man ég vel eftir öðru Íslandi. Ég man eftir Íslandi þar sem það þótti hneisa á forsíðu dagblaða að forstjóri hefði tíföld laun skúringakonunnar, fáheyrður skandall. Við hvað höfum við lifað undanfarin ár? Jú, við sáum mánaðarlaun forstjóra jafnast á við 250-föld mánaðarlaun verkamanna — eða voru það kannski árslaun? Og þetta var varið, þetta var hafið upp til skýjanna. Staðreyndin er nefnilega sú, frú forseti, að löngu áður en bankahrunið kom til hafði annað hrun átt sér stað, hrun lýðræðis og hrun siðferðis, hrun hinnar gömlu hugsjónar um að við séum öll jöfn, að við búum öll saman í einu samfélag og berum ábyrgð hvert á öðru.

Ég vil því byrja á því að velta aðeins fyrir mér hvernig Ísland ég vil sjá, í hvers konar samfélagi ég mundi svo gjarnan vilja sjá son minn alast upp, hvers konar samfélag á að rísa úr rústunum.

Um nokkurt skeið hefur orðið „sósíalisti“ verið hálfgert bannorð á Íslandi. Það hefur þótt hallærislegt, úrelt, gamaldags, dautt. Og það verður að segjast eins og er að jafnvel þau sem kalla sig sósíalista í dag eru í órafjarlægð frá þeim sem kölluðu sig sósíalista fyrir 40 árum eða 30 eða jafnvel 20, rétt eins og þeir sem nú kalla sig jafnaðarmenn eru í órafjarlægð frá þeim sem kölluðu sig jafnaðarmenn fyrir ekki svo löngu. Gildismat samfélagsins, áherslur, hugarheimur og viðmið hafa nefnilega með marktækum og markvissum hætti færst svo langt til hægri að miðjan er fyrir löngu komin á flot, og þar með vinstrið einnig. Þetta hefur ekki bara gerst á Íslandi, heldur um hinn vestræna heim allan, og reyndar víða um álfur enda trúboðið víðförult og með öfluga postula fyrir vagni, eða svo orðum Karls Marx sé snúið á haus hefur það ekki verið vofa kommúnismans sem hefur elt Evrópu undanfarin missiri, heldur vofa kapítalismans, nútímalegs spákaupmennskukapítalisma, loftbóluhagkerfa, nútímalegt arðrán.

Hvernig metur þá sósíalískur umhverfisverndarsinni helstu hætturnar sem steðja að lífvænlegu, sjálfbæru og sjálfstæðu lýðræðissamfélagi í slíku alþjóðlegu umhverfi?

Ein stærsta hættan er væntanlega áframhaldandi takmarkalaus auðsöfnun hinna fáu, ekki bara innan ríkja heldur þvert á landamæri, nær óyfirstíganleg misskipting efnislegra gæða, eyðilegging vistkerfa og lífríkis, loftslagsbreytingar af völdum manna, óhóflegir lifnaðarhættir, sóun og neysluhyggja, og þó umfram allt ólýðræðisleg uppbygging alþjóðlegra fjármagnsafla sem soga til sín arð og innviði heilla samfélagi og grafa undan lýðræðinu í skjóli fjármagnsumhverfis spákaupmennsku og í skjóli trúboðs einkavæðingarinnar.

Við uppbyggingu þessa alþjóðlega viðskiptakerfis auðmagnsins hafa voldugar stofnanir verið reistar til að tryggja viðhald og framgang kerfisins alls, tryggja hag fjármagnseigenda þvert á landamæri, tryggja að hið alþjóðlega auðsöfnunarkerfi haldi áfram sama hvað tautar og raular, burt séð frá niðurbroti innviða og menningar samfélaga, burt séð frá áhrifum á líf og umhverfi alþýðufólks.

Slíkar stofnanir eru stofnanir á borð við Alþjóðaviðskiptastofnunina, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, varðmenn nýfrjálshyggjunnar. Og ég ætla að leyfa mér að halda því fram, frú forseti, að inn í þessa mynd og enga aðra falli Evrópusambandið sem vissulega er hægt að finna ýmsa jákvæða kosti við fyrir ýmsa, en þar sem hagsmunir fjármagnseigenda eru iðulega teknir fram yfir aðra hagsmuni og þar sem hagsmunir gamalgróinnar mið-evrópskrar miðstýringar sem á sér djúpar sögulegar rætur, ekki síst í Prússlandi og Frakklandi, eru iðulega teknir fram yfir lýðræði fólksins.

Hinn svokallaði innri markaður er hin helgu vé Evrópusambandsins. Innri markaður ESB var ef til vill framar öðru tiltekin leið evrópskra auðhringja til að ná meira afli í harðnandi samkeppni á alþjóðamörkuðum.

Ákvæði EES-samningsins um óheftar fjármagnshreyfingar og tilskipanir um bankastarfsemi eru, frú forseti, hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem við viljum horfast í augu við það eða ekki, bakgrunnur bankahrunsins hér á landi og þeirrar þróunar sem til þess leiddi. Það tekur ekki ábyrgðina burt frá bankamönnunum sem fóru fyrir þróuninni eða burt frá eftirlitsaðilunum sem brugðust, stjórnmálamönnunum sem klöppuðu, það tekur ekki ábyrgðina frá neinum, og ekki heldur klappstýrunum á Alþingi, í stjórnsýslunni, í háskólasamfélaginu, í atvinnulífinu, nei, bakgrunnur EES-samningsins og Evróputilskipana sem voru innleiddar hérlendis taka enga ábyrgð burt frá gerendum. Þær voru þarna samt og til þess gerðar að efla alþjóðlega fjármagnsflutninga, m.a. með þeim afleiðingum að ýta undir spákaupmennsku og falskan auð, einkavæða sameignir, undirbyggja hrun.

Hvað varðar EES-samninginn sérstaklega og áhrif hans hér á Íslandi, frú forseti, hefur mér um langa hríð þótt áhugaverð sú einstefna opinberrar umræðu og hugsunar sem um hann virðist ríkja hérlendis. Það hefur virst vera bannað að draga þennan samning á nokkurn hátt í efa. Þeim sem hafa látið svo lítið að spyrja sig spurninga, spurninga þess efnis hvort Ísland hafi í raun einnig glatað ýmsu með innreið hans en ekki bara verið þiggjandi, hefur verið stillt upp sem afturhaldsseggjum og úreltum einangrunarsinnum.

Frú forseti. Ég er ekki einangrunarsinni og ég lít heldur ekki á mig sem afturhaldssegg, en ég vil hafa frelsi til að spyrja spurninga, frelsi til að efast einmitt um það sem litið er á sem sjálfsagðan hlut og ég tel okkur öllum hollt að spyrja gagnrýninna spurninga um ríkjandi tíðaranda hverju sinni og þá alveg sérstaklega það sem flestir eru sammála um. Það var einmitt e.t.v. gagnrýnisleysi okkar sem hjálpaði til við að undirbyggja hrunið. Við flutum sofandi að feigðarósi.

Ég er ekki að mæla með því að við segjum upp EES-samningnum, eins og ég verð án efa sökuð um fyrir það eitt að voga mér að spyrja um hann spurninga, hafa uppi efasemdir um einhliða áróður. Staðreyndin er sú að við snúum ekki til baka í þessum efnum. Og nú, hér og nú, stöndum við einmitt frammi fyrir spurningu sem gæti leitt til óafturkræfrar ákvörðunar, ákvörðunar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við snúum ekki til baka út úr ESB ef við á annað borð förum þangað inn.

Ef við ættum að hafa lært eitthvað á vegferð undanfarinna ára er það að vera á varðbergi gagnvart nauðhyggju. Það fer um mig, frú forseti, þegar talað er eins og einasta leið Íslands fram á við sé að ganga í Evrópusambandið. Ætli Lettlandi líði þannig núna? Ætli lettneskri alþýðu líði núna sem hún sé hluti af hinni stóru, hlýju og góðu evrópsku fjölskyldu, nú þegar innviðir Lettlands eru brotnir niður og alþýða fólks þar í landi finnur fyrir níðþungum höggum? Er henni e.t.v. látið blæða, m.a. til að bjarga bönkum annars staðar? Svar Letta í dag við nauðum sínum gæti svo sannarlega verið yfirlýsingin: „Göngum í Evrópusambandið“. Það gæti líka verið svar Íra. Vandamálið er bara að þeir eru þar fyrir og það bjargar þeim ekki. Alþýðu fólks blæðir í þágu alþjóðlegs fjármagns og það er kunnuglegt stef utan sem innan ESB. Tími nauðhyggjunnar, frú forseti, verður að vera liðinn.

Hvað er það þá frekar sem ég hef við Evrópusambandið að athuga? Jú, til að meta áhrif inngöngu í ESB ríður á að horfa langt fram á veginn, meta ekki einungis hvernig Evrópusambandið lítur út í dag, heldur einnig hvernig það kemur líklega til með að líta út í framtíðinni. Sagt er að þegar maður tékki sig einu sinni inn á Hotel New Hampshire komi maður aldrei út aftur og líkt er málum háttað hvað varðar Evrópusambandið. Ákvörðun um aðild, eins og ég sagði áðan, er óafturkræf. Það ríður því á að taka ekki ákvörðun um aðild að ESB út frá skammtímasjónarmiðum eða aðsteðjandi kreppu nú, heldur horfa marga leiki fram í tímann, hugsa í kynslóðum en ekki í kjörtímabili.

Hvert stefnir Evrópusambandið? Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að allir þungi hefur verið lagður í það að gera Evrópusambandið að einu miðstýrðu ríki.

Evrópusambandið hefur í dag afar margt af því sem eitt ríki státar af. Það hefur þing, hæstarétt, ígildi ríkisstjórnar, skilgreind ytri landamæri, gjaldmiðil og yfirþjóðlegt lagasetningarvald. Sömuleiðis hefur það fána, þjóðhátíðardag og meira að segja þjóðsöng. Markvisst er unnið að því með áróðri að búa til evrópska sjálfsmynd, búa til evrópska þjóð, og unnið að svokallaðri „eflingu samevrópskrar borgaravitundar“, svo vitnað sé í klassíska skilgreiningu ESB. Eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti á í þingræðu sinni í gærkvöldi eyðir Evrópusambandið í þessu skyni meiru en Coca Cola samsteypan á heimsvísu í áróðri fyrir eigið ágæti. Að búa til þegna ESB-ríkisins.

Embættismannakerfið í Brussel hefur sömuleiðis lagt mikið á sig til að koma í gegn stjórnarskrá Evrópusambandsins, í seinni tíð kölluð Lissabon-sáttmálinn, sem margir hugðu verða hornstein að evrópsku sambandsríki. Og nú, frú forseti, eru heimildir fyrir Evrópusambandsher, heimild um að stofnaður verði her til að gæta hagsmuna ESB, bæði í Evrópu og annars staðar. Hugnast okkur þessi þróun, viljum við vera með?

Þróunin er á þá leið, frú forseti, að sviðunum sem ESB ræður ekki yfir fer fækkandi. Þegar sagt er til að mynda að enn sem komið er séu orkumál og ýmis auðlindamál á hendi þjóðríkjanna sjálfra ætti fólk að fara sér hægt. Orkumál eru þau mál sem næstu áratugir munu snúast um, orka er mál framtíðarinnar. Ímyndar sér einhver að þar verði einhver annars bróðir í raun? (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Nei.)

Frú forseti. Það er án efa nokkurra ára verk, ef ekki margra ára, að treysta og efla stoðir lýðræðisins á Íslandi. Lýðræði snýst augljóslega um allt annað og miklu meira en kosningar á fjögurra ára fresti, það snýst um virkni almennings og þátttöku, beina hlutdeild fólks í örlögum sjálfs sín og þróun samfélags, virka upplýsingagjöf og aðgengi að ákvörðunum í mótun nærumhverfis. Lýðræði snýst líka um traust og ábyrgð. Hér fyrr í vetur varð eins konar bylting í landinu þar sem stjórnvöld hröktust frá völdum í gegnum potta og pönnur mótmælenda. Það þarf að berja ansi vel og ansi lengi, frú forseti, til að pottasöngur við Austurvöll berist alla leið til Brussel.

Flestir eru sammála um hinn margumtalaða lýðræðishalla Evrópusambandsins, meira að segja einarðir Evrópusambandssinnar. Eins og ég sagði áður er gríðarmikið verk fyrir höndum við að byggja upp lýðræði og lýðræðismenningu á Íslandi út úr hruninu, en það verður ekki gert með því að ganga inn í verðandi sambandsríki sem er rómað fyrir lýðræðishalla og vanvirðingu fyrir þjóðarvilja.

Í ljósi þess hversu stefnir í samrunaátt innan ESB verðum við sem smáþjóð að hugsa verulega okkar gang áður en við göngum þarna inn. Innan ESB er stefnt að meirihlutaákvörðunum í stórauknum mæli með hliðsjón af íbúafjölda aðildarríkjanna. Ísland fengi þrjú atkvæði af 350 í ráðherraráðum þar sem mikilvægustu ákvarðanir eru teknar, og fimm atkvæði af 750 á ESB-þinginu. Almenningur hefur hæpin áhrif á þróun mála eins og kosningaþátttaka til ESB-þingsins gefur sterklega til kynna. Fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum ESB og þekkingarleysi embættismanna þar á íslenskum aðstæðum hlýtur að vekja áleitnar spurningar um hvort eftirsóknarvert sé að Íslandi verði í enn ríkari mæli en nú þegar er orðið stjórnað úr 2000 kílómetra fjarlægð. Eru þá ótalin hin gríðarmiklu völd sem ESB-dómstóllinn hefði yfir málum okkar fyrir utan allt annað.

Frú forseti. Málfrelsi Íslands innan stofnana eins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun hljóðna ef við göngum í ESB. Sjálfstæð rödd Íslands mun að miklu leyti þagna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á ráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002 notuðu fulltrúar Noregs málfrelsi sitt og tillögurétt sem ríki utan ESB til að ná fram ávinningi á umhverfissviði og koma í veg fyrir undanhald. Í drögum að lokaályktun ráðstefnunnar var setning þess efnis að sáttmálar á umhverfissviði yrðu framvegis að falla að viðskiptareglum WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Á þetta hafði ESB fallist en Noregur andmælti með sinni sjálfstæðu röddu. Slíkt væri ekki hægt ef Ísland væri í ESB, en slíkt væri hægt ef stjórnvöld með nýja og aðra framtíðarsýn fyrir Ísland á alþjóðlegum vettvangi ákvæðu að Ísland skyldi framvegis verða framsækin rödd umhverfis og sjálfbærrar þróunar. Meðal afdrifaríkustu afleiðinga af ESB-aðild er sú staðreynd að aðildarríkin eru svipt samningsumboði á umhverfissviði og í öðrum samningum við þriðju aðila.

Yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu mun ekki verða okkar, rétturinn til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki mun ekki verða okkar, rétturinn til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki mun ekki verða okkur, rétturinn til að afnema tolla eða leggja á tolla mun ekki verða okkar, æðsta dómsvald í okkar málum mun ekki verða okkar, heldur færast til ESB-dómstólsins. Aðild að ESB, sama hvað hver segir, frú forseti, er óumdeilanlegt afsal á hluta sjálfstæðis okkar og fullveldis.

Þegar upp er staðið snýst aðild að ESB einnig um heimsmynd, um það hvers konar heim við viljum helst sjá. Hvort hugnast okkur betur Svíþjóð Olofs Palmes, sem stóð sem sjálfstæð rödd hins norræna velferðarmódels, hvort hugnast okkur betur margar slíkar fjölbreyttar raddir á okkar eina hnetti eða fækkandi, einsleitari ásýnd fárra risastórra viðskiptablokka, tollabandalaga, sambandsríkja?

Í þeim málum veit ég vel, frú forseti, hvað ég vil. Ég vil miklu frekar sjá eina, tvær, fimm, 10, 20, 30 Svíþjóðir Olofs Palmes en eitt ESB. Ég vil sjá Ísland með málfrelsi og sjálfstæða rödd á alþjóðlegum vettvangi, að tala máli fólks sem á undir högg að sækja, að tala fyrir rétti smáþjóða og smáríkja og þeirra sem þurfa á sjálfstæðri mannúðarrödd að halda. Í þeim efnum leyfi ég mér að halda fram, frú forseti, að stefna ESB gagnvart ýmsum ríkjum þriðja heimsins hafi fyrst og fremst markast af nútímalegri nýlendustefnu, enda ekki langt að sækja forgrunninn og hefðirnar, jafnvel þótt sú nútímalega nýlendustefna nefnist svokölluð frjáls viðskipti.

Við Íslendingar eigum að líta til heimsins alls, vera í raun og sann heimsborgarar, en ekki festa okkur í þröngri viðskiptablokk sem ímyndar sér og hefur allt of lengi ímyndað sér að hún sé miðja alheimsins, uppspretta siðmenningar. Heimurinn okkar er svo miklu stærri og áhugaverðari en bara Evrópa, svo miklu fjölbreyttari og meira spennandi, og lega landsins okkar og landafræði býður upp á mikla möguleika til framtíðar ef við erum nógu stórhuga til að horfa til allra átta. Það liggur m.a. fyrir, frú forseti, að málefni norðurslóða munu fá æ meiri athygli umheimsins og þar erum við í kjörstöðu til sóknar. Glötum ekki slíkum tækifærum með því að læsa okkur inni. Þeir tímar eiga að vera liðnir þegar Evrópa var drottnari heimsins og teiknaði sjálfa sig margfalt stærri á öll landakort en hún raunverulega var og er. Gleymum því heldur ekki, frú forseti, að við höfum lært af hremmingum okkar þetta árið að hinir smæstu geta oft í raun verið hinir stærstu. Færeyingar eru e.t.v. okkar einu raunsönnu vinir í heiminum, og kannski Grænlendingar líka, einu þjóðirnar sem í gegnum tíðina hafa litið til Íslands sem fyrirmyndar og sótt sér sjálfar styrk í sjálfstæði okkar.

Við skulum áfram þróa jákvæð, uppbyggileg og góð samskipti við Evrópu, að sjálfsögðu, en læsum okkur ekki inni. Læsum okkur ekki inni í framtíðarsambandsríkinu.

Við vinstra fólk á Íslandi tölum oft um norræna velferðarsamfélagið, að við sækjum okkur þangað fyrirmynd okkar við uppbygginguna, að við viljum leita þangað. Nú spyr ég: Hverjir voru það sem byggðu upp norræna velferðarsamfélagið? Var það Evrópusambandið? Eða hefur ESB e.t.v. verið duglegra við að brjóta það niður?

Norræna velferðarsamfélagið, samfélag Olofs Palmes sem ég vitnaði til áðan, var byggt upp af vinstri mönnum, verkalýðssamtökum og sýn á samfélag jöfnuðar og jafnréttis. Það var byggt á samtakamætti sjálfstæðra þjóða. Hversu styrkum fótum stendur slíkt samfélag í dag?

Staðreyndin er sú að löggjöf ESB á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur sífellt aukið rétt einkafyrirtækja á kostnað þess svigrúms sem hið opinbera hefur til að veita almannaþjónustu. Slíkt er ekki velferðarpólitík og slíkt er ekki í anda vinstri stefnu. Hér um að ræða fjölbreytta löggjöf eins og á sviði samkeppnislaga, laga um ríkisaðstoð, laga um opinber innkaup, laga um útboð og úthýsingu, um samstarf hins opinbera við einkaaðila og þar fram eftir götunum.

Það merkilega er að þessi þróun hefur átt sér stað, oft rekin áfram af hinu innra samspili laga og dóma, þrátt fyrir að ýmsar rannsóknir sýni að markaðsvæðing opinberrar þjónustu sé hvorki hinu opinbera né almenningi til góða og leiði ekki til sparnaðar. Tilgreina má fjölmörg dæmi um hækkandi verð til neytenda, aukinn kostnað, minna öryggi í rekstri og fyrir starfsfólk, versnandi kjör starfsmanna og aukinn kostnað ríks og sveitarfélaga. Í þessum efnum vil ég nefna sérstaklega umsögn BSRB þar sem bent var á afar brýna þætti í þessu sambandi og mikilvægi þess að yfirfara og bæta lagaumhverfi hinnar opinberu almannaþjónustu, styrkja hana og verja fyrir markaðsvæðingu. Þar er bent á mikilvægi þess að vinna rammalöggjöf hérlendis um opinbera almannaþjónustu áður en til hugsanlegrar ESB-aðildar kemur.

Frú forseti. Mér er rétt og skylt að víkja einnig í þessari ræðu minni nokkrum orðum að hagsmunum hefðbundinna undirstöðuatvinnugreina okkar Íslendinga, svo sem sjávarútvegi og landbúnaði. Þar liggur fyrir að Evrópusambandsaðild krefst verulegra fórna. Fiskveiðistjórnarkerfi Íslands er meingallað en þó ekki eins gallað og kerfi ESB og í dag höfum við þó fullt forræði yfir því sem og auðlindinni sem það grundvallast á. Evrópusambandsaðild stefnir hvoru tveggja í hættu.

Engum blöðum er um það að fletta, frú forseti, að tal um að Íslendingar geti fengið varanlega undanþágu frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni er innihaldslaus áróður. Lögsaga Íslendinga yfir auðlindum sjávar umhverfis landið er sjö sinnum stærri en landið sjálft. ESB fengi úrslitavald um hámarksafla sem leyfður yrði, veiðitegundir, veiðisvæði og veiðitíma. Það liggur þar með fyrir að með inngöngu í Evrópusambandið mun Ísland glata forræði yfir sjávarauðlindinni til framkvæmdastjórnar ESB. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni þegar vel stendur á þar sem til stendur að gera hlé á fundi vegna þingflokksfunda sem koma til með að standa yfir í 45 mínútur, frá u.þ.b. klukkan fjögur til klukkan 16.45.)

Takk fyrir þetta, frú forseti. Ég ætla bara að klára sjávarútvegskafla minn sem er stutt eftir af og halda svo áfram að hléi loknu.

Þetta afsal er kjarninn í hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB og það er, frú forseti, óskhyggjan ein þegar talað er um að Íslendingar geti, einir þjóða, með einhverjum hætti samið sig undan grunnreglum Evrópusambandsins. Reynsla annarra þjóða, til að mynda Norðmanna úr aðildarsamningi sínum, bendir ekki til neins annars en að í besta falli sé hægt að semja um fresti, takmarkaðar og tímabundnar undanþágur og aðlögunarferla. Við verðum því að vera raunsæ þótt við hljótum að sjálfsögðu að ganga fram með ýtrustu kröfur komi til aðildarviðræðna.

Ég geri þá, frú forseti, hlé á máli mínu að svo stöddu og held áfram þegar fundurinn heldur áfram.

(Forseti (UBK): Ræðunni er frestað og þessum fundi er frestað til kl. 16.45.)